Tour de France 101

Hjólagoðsögnin Eddy Merx að keppa í Tour de France. www.pelotontales.com

Inngangur:

Þegar ég var að byrja að hjóla fór ég að fá áhuga á því að fylgjast með Tour de France. Ég átti hins vegar mjög erfitt með að festast yfir þessu, m.a. vegna þess að ég þekkti ekki liðin og átti enga uppáhalds hjólara. Svo get ég líka bara verið alveg hreinskilinn og viðurkennt að ég skildi ekki rassgat í hvað var að gerast. En ég vissi að það var eitthvað meira á bakvið þetta og svo heillast maður alltaf af íþróttum sem krefjast svona mikils líkamlega af íþróttamönnunum. Það er nánast ómannlegt að komast heill í gegnum þetta.

En ég gafst ekki upp og smám saman sogaðist ég inn í þessa íþrótt og áttaði mig á því að þetta er í rauninni eins og skák á hjólum. Og þetta er magnað að því leiti að eftir því sem þú skilur þetta betur, því meira ávanabindandi verður þetta. Taktíkin og margbreytileikinn eru óþrjótandi.

Það er oft mikið stuð í kringum keppendur.

Tour de France

Frakklandstúrinn er áfangakeppni (stage race) sem tekur 23 daga. Hjólaðir eru ca. 3.600 km á 21 einum degi, sem gerir rúmlega 170 km á dag (2 hvíldardagar). Keppnin byrjar alltaf í öðru landi en Frakklandi og er það mikill heiður (og auglýsing) fyrir þann bæ/borg sem fær að hefja keppnina. Síðan eru valdar mismunandi dagleiðir og eru þær breytilegar milli ára og liggja ekki alltaf saman. Því þurfa liðin stundum að ferðast aðeins á milli daga. Eina sem er víst er að keppnin endar alltaf á Champs-Elysées í París. 

Ég ætla ekkert að fara út í sögu þessarar keppni en til að undirstrika mikilvægi hennar í hjólreiðaheiminum, þá telst ferill hjólreiðamanns yfirleitt vel heppnaður nái hann að vinna eina dagleið.

Það hefur margt breyst frá árdögum keppninnar. Þessi mynd er frá 1949. Photograph: STF/AFP/Getty Images

Lingo

Áður en haldið er lengra er ágætt að setja inn smá skýringar á nokkrum orðum sem koma mjög oft upp í tengslum við Tour de France. Það er kannski ekkert mikilvægt að vita þetta allt en samt gaman.

Það er þröngt á þingi í pelotoninu. Mynd: -alliance/Augenklick/Roth

Peloton er bara hópurinn sjálfur. Yfirleitt helst einn nokkuð stór hópur saman en hann getur þó brotnað upp í marga minni, t.d. Í fjöllum eða þegar það er mikill vindur.

Arrière du peloton er franska og þýðir aftasti hlutinn af hópnum.

Lanterne rouge, eða rauða flaggið er merking sem er þegar einn kílómetri er eftir.

Draft þýðir súgur eða loftstraumur og ef einhver er að "drafta" þá er hann að nota sér minni loftmótstöðu fyrir aftan annan hjólara. Þannig er hægt að spara gríðarlega orku og þetta skiptir öllu máli í hjólreiðum.

Hér hefur hliðarvindur splittað pelotoninu upp í "echelon". Mynd: Siroko Cycling Community

Echelon myndast þegar það er hliðarvindur Þá splittast pelotonið upp í minni grúppur því þá þurfa hjólarar að vera ská fyrir aftan næsta mann til að fá draft. Breidd vegarins takmarkar hvað margir komast í hverja línu.

Attack er árás og er þegar einhver reynir að stinga af.

Hjólari tekur við "sticky bidon". Mynd: Getty Images

Bidon er franska yfir vatnsflaska. Síðan er stundum talað um “sticky bidon” en það er þegar hjólara er rétt flaska út um bílglugga og hann heldur í hana í nokkrar sekúndur á meðan bíllinn gefur í. Ef hjólari heldur of lengi er hann dæmdur úr leik.

Pull (púll) er þegar hjólari ákveður að vera fremstur til að brjóta vindinn. Hjólarar skiptast gjarnan á að taka pull ef þeir eru að vinna saman.

Blocking er þegar ákveðin lið í pelotoninu ákveða að hleypa ekki hjólurum fram úr. Þetta er gert í taktískum tilgangi, meira um það síðar.

Break eða breakaway eru þeir hjólarar sem hafa náð að stinga hópinn af. Á íslensku er notað slangrið að fara í "breik".

Bridge, eða “to bridge a gap” er að brúa bilið, þ.e. þegar hjólari ákveður að ná öðrum sem hafa stungið af.

Broom wagon er bíllinn sem keyrir og pikkar upp þá sem gefast upp eða þurfa að hætta. Hann táknar líka endan á keppninni og að í lagi sé að hleypa á umferð.

Gula treyjan er það sem flestir þekkja úr Tour de France en sú græna skiptir líka máli. Tadej Pogacar og Wout van Aert ræðast við. Mynd: Bicycling Magazine

Margar keppnir í einni

Án þess að fara að kafa djúpt í reglurnar og stigagjöfina þá ætla ég að fara yfir það helsta sem hægt er að vinna í keppninni. Þetta snýst nefnilega ekki bara um þann sem stendur uppi sem sigurvegari í lokin heldur er margt annað í boði og þannig geta mismunandi lið lagt áherslur á ólíka hluti út frá eigin styrkleikum. Fólk áttar sig yfirleitt ekki á þessu þar sem það eina sem fjallað er um í fjölmiðlum er gula treyjan.

Gula treyjan - Yellow Jersey/Maillot Jaune (General Classification)

Sá hjólari sem fer þessar 21 dagleið á stystum tíma vinnur. Sá hjólari sem er efstur fyrir hverja dagleið klæðist hinni frægu gulu treyju og keppnin er því eltingaleikur um hver er í gulu treyjunni. Sá sem er í henni eftir síðasta daginn hlýtur gulu treyjuna og vinnur.

Græna treyjan - Green Jersey/Maillot Verte (Point Classification)

Gefin eru stig fyrir efstu sætin á hverri dagleið og auk þess eru svokölluð “intermediate sprints”- eða millisprettir sem eru yfirleitt á flatari dagleiðum. Hjólarar (yfirleitt sprettarar) keppast um að komast fyrstir í gegnum þessi hlið til að fá fleiri stig. Þetta er því oft kallað sprint competition.

Það var engin sérstök "klifurtreyja" fyrr en árið 1975 þegar súkkulaðiframleiðandinn Chocolat Poulain gerðist sponsor og treyjan höfð í stíl við umbúðirnar á súkkulaðinu. Treyjan er í dag styrkt af Carrefour stórmakaðnum. Á myndinni er fyrsti hjólarinn sem klæddist henni, hinn belgíski Lucien Van Impe.
Mynd: Sigma Sport

Punkta-treyjan - Polka Dot Jersey/Maillot á Pois Rouge (King of the Mountains)

Öll skilgreind klifur/fjöll fá erfiðleikastig á bilinu 1 til 4 þar sem einn er efiðast og 4 auðveldast. Á toppnum á þessum klifrum eru hlið og sá sem er fyrstur í gegnum hliðið fær stig, mismörg eftir erfiðleikastigi. Þannig gæti fyrsti hjólarinn fengið t.d. 15, sá næsti 13 osfv (Category 1 climb). Treyjan fer manna á milli í keppninni eftir því hver er efstur en sá hlýtur treyjuna í lokin sem er með flest stig síðasta daginn. 

Hvíta treyjan - White Jersey/Maillot blanc (Young Rider Classification)

Sá ungi hjólari sem er á samanlögðum besta tíma klæðist hvítri treyju. Þetta á við um hjólara sem eru undir 26 ára.

Besta liðið (Team Classification)

Reiknaður er samanlagður tími þriggja bestu hjólarana í hverju liði og það lið sem er með lægsta samanlagða tímann vinnur.

Lið Jumbo Visma komið í mark í Tour de France 2022. Ólíkir hjólarar með mismunandi hlutverk og markmið. Mynd Cervélo

Mismunandi hjólarar

Í upphafi var ég með samlíkingu á hjólreiðum og skák og það er ekki að ástæðulausu. Til eru mismunandi hjólalarar með mismunandi styrkleika og eiginleika. Þarna er samlíking við riddara, biskup, drottningu osfv. mjög viðeigandi. Liðin verða svo að stilla upp liði og taktík út frá leið dagsins og markmiðum sínum í keppninni. 

Tuttugu og tvö lið taka þátt í Tour de France og velur hvert lið 8 hjólara úr sínum röðum til að taka þátt.

GC rider (General Classification Rider)

Þeir sem gjarnan eru kallaðir GC rider eru þeir hjólarar sem eiga að berjast um gulu treyjuna. Þarna kannast kannski einhverjir við Lance Armstrong (var sviptur titlum), Eddy Merx, Greg LeMond, Chris Froome og Tadej Pogacar.  Þetta eru gjarnan mjög góðir alhliða hjólarar og yfirleitt án undantekninga þurfa þeir að vera góðir klifrarar. Yfirleitt standa þeir sig líka vel í tímatöku líka. 


Kólumbískir klifrarar hafa haft mikil áhrif á Tour de France og rauninni breytt hvernig hún fer fram. Nairo Quintana er hreinræktaður klifrari, 1,67 m og 59 kg. Mynd: Bicycling Magazine

Climbers (klifrarar)

Eins og nafnið gefur til kynna þá eru þessir hjólarar góðir í að fara upp brekkur og fjöll. Klifrari sem ekki er GC rider er oft með það hlutverk að verja og leiða sinn GC mann í fjöllunum. Lið með góða klifurhjólara en enga GC menn geta lagt áherslu á að ná í punkta-treyjuna (King of the Mountains). Þessir gaurar eru yfirleitt mjög tálgaðir og léttir og oft litlir, þó  ekki alltaf. Þyngdin fer að skipta meira máli eftir því sem hallinn eykst. Það sem getur skilið á milli þess hvort þú sért GC gaur eða bara hreinræktaður klifrari getur verið hversu gott lið þú ert með í kringum þig.

Sprinter (sprettari)

Sprettarar er oft stærri og þyngri en GC gaurar eða klifrarar og hafa gríðarlegt afl í að taka sprett. Að sama skapi geta þeir þjást mikið í brekkum. Þeir hafa yfirleitt það hlutverk að keppa í Point Classification (græna treyjan). Þeir eru því dóminerandi á flötum dagleiðum, bæði að reyna að komast í gegnum tímahliðin (intermediate sprints) og reyna að komast fyrstir í mark.


Tim Declercq er hreinræktaður domestique, 190 cm og 78 kg. Þegar hann setur diesel vélina í botn á flatlendi er erfitt að halda í við hann. Tim hefur verið valinn besti domestique í heimi af félögum sínum þvert á lið. Mynd: Cycling News

Domestique (vinnudýr)

Er í grunninn hjólari sem hefur ekki annað hlutverk en að hjálpa öðrum hjólurum í liðinu. 

Klassískur domestique er stór og þungur (á mælikvarða hjólara) með stóra diesel-vél. Þeir raða sér gjarnan í kringum GC gaurinn í sínu liði eða sprettarann til að verja hann og aðstoða. Þeir eru gjarnan líka fremst í pelotoninu að stjórna hraðanum og brjóta vindinn. Þeir hafa einnig mikilvægu hlutverki að gegna þegar kemur að því að sækja drykki og næringu í keppnisbílana og dreifa því á aðra í liðinu. 

Það er ekki óalgengt að sjá þessa gaura draga sig í hlé þegar þeir eru búnir að brenna öllum sínum eldspýtum og skila sínu dagsverki. Eitt af mikilvægustu hlutverkum hjá mörgum domestique er einnig að keyra upp hraðann og leiða sprettarann síðustu kílómetrana (Sprint Leadout Train).

Klifur domestique er með svipað hlutverk og klassískur domestique nema þeir eru með GC hjólaranum í fjöllunum, verja þá, brjóta vind og stjórna hraðanum þangað til GC gaurinn treystir sér til að gera árás og reyna að stinga af. Hjá þeim liðum sem ekki eru með GC hjólara getur hlutverk klifur domestique líka verið að aðstoða sprettara við að komast í gegnum erfiða fjallaleið innan tímamarka. 


Hinn bandríski Sepp Kuss er super domestique hjá Team Jumbo Visma. Hann er klifrari og á stóran þátt í að Jonas Vingegaard vann Tour de France 2022. Mynd: Bicycling Magazine

Super domestique, lieutenant og captain 

Það er mismunandi goggunarröð hjá domestique og fer það eftir reynslu þeirra, getu og virðingu innan liðsins. Þeir bestu og reyndustu fá stundum nafnbótina super domestique. Einnig er gjarnan einn domestique með nafnbótina liðsforingi (lieutenant) og hann yfirgefur aldrei GC hjólarann þegar mikið er undir. Að lokum er oft einn domestique með hlutverk höfuðsmanns (road captain). Þetta eru gaurarnir sem oft þurfa að grípa inn í þegar það þarf að taka stórar taktískar ákvarðanir, t.d. um það hvort eigi að senda hjólara á eftir einhverjum hópi eða hvenær eigi að keyra upp hraðann. Oftast koma þessi skilaboð úr liðsbílunum en þeir geta misst yfirsýn eða jafnvel dottið úr talstöðvarsambandi. Þá er mjög mikilvægt að vera með reyndan captain sem getur tekið svona ákvarðanir.

Mismuandi dagleiðir (stage)

Dagleiðir Tour de France 2023.

Þó það sé breytilegt milli ára hvar sé byrjað og hvaða leið er farin, þá er uppbyggingin á keppninni alltaf svipuð. Yfirleitt byrjar keppnin á undirlendi (sprint stages) en fer svo að vinna sig upp í fjöllin; Pýrena fjöllin, Franska miðhálendið (Massif central), Júra fjallgarðinn og Frönsku alpana.

Svona lítur skipulagið út fyrir Tour de France 2023:

  • 8 flatar dagleiðir (flat stages)
  • 4 hæðóttar leiðir (hilly stages)
  • 8 fjallaleiðir (mountain stages)
  • 4 tindar (summit finishes) 
  • 1 tímataka (time trials)
  • 2 hvíldardagar (rest days)
Stage 4: Dax to Nogaro – 182 km. Dæmigerð flöt dagleið þar sem sprettararnir munu reyna að vinna. Klifrararnir munur reyna að fela sig í pelotoninu og hvíla sig áður en farið er í fjöllin.

Flatar dagleiðir eru tebolli sprettaranna. Þau lið sem eru með góða sprettara einbeita sér að því að halda þeim ferskum fram á síðustu stundu svo þeir eigi orku í góðan endasprett. Þeir sem eru að reyna að ná í grænu treyjuna geta samt alveg reynt að senda menn í breik og gera árásir til að ná sprettstigum (intermediate sprints). Á þessum dögum sér maður líka oft frábæra vinnu hjá domestique sem mynda svokallaða lead-out trains í lokin, stundum á 60 - 70 km/klst. Sprettarinn felur sig á bakvið þá í draftinu þangað til að hann telur óhætt að eyða síðustu orkunni í lokasprett.


Stage 1: Bilbao to Bilbao – 182 km. Það er óvenjulegt að fyrsti dagurinn byrji á hæðóttri braut en þannig er það í ár. Þarna munu "punchy" gaurar og alhliðahjólarar reyna að stinga af í brekkunum.

Hæðóttar brautir geta hentað vel fyrir GC- eða aðra alhliða “punchy” hjólara. Taktískt séð bjóða þessar brautir upp á marga möguleika og erfitt getur verið að spá fyrir um úrslitin. Árásir eru gjarnan gerðar á leið upp hæðirnar og hjólarar reyna svo að halda út til loka.

Fjallaleiðir eru eins og nafnið gefur til kynna með mikið af löngum og oft bröttum brekkum. Á svona degi getur verið allt frá einu og upp í nokkur alvöru klifur. Þessar dagleiðir enda hinsvegar ekki endilega uppi í fjöllum og geta boðið upp á miklar sviptingar ef endamarkið er á láglendi. Það skiptir því ekki bara máli að vera góður að klifra upp heldur eiga stærri menn sem eru góðir að bruna niður á klikkuðum hraða oft séns á að ná klifrurunum aftur.


Stage 9: Saint-Léonard-De-Noblat to Puy de Dôme – 184 km. Klassísk tindaleið eða "summit finish". Síðustu 4 kílómetrarnir verður blóðug barátta milli klifrara.

Tindar eða “summit finishes” eru í raunninni fjallaleiðir sem enda uppi á toppi á einhverjum fjöllum, gjarnan á skíðavæðum. Þetta eru dagleiðir þar sem alvöru klifrarar og/eða GC gaurar keppast um að vera fyrstir. Þetta er líka gjarnan dagleiðir sem geta verið gríðarlega erfiðar fyrir sprettara og stærri domestiqe sem eru þyngri.


Filippo Ganna í regnbogatreyjunni sem táknar að hann er heimsmeistari í tímatöku. Mynd: Getty Images

Tímataka er í raunni sér hjólreiðagrein út af fyrir sig. Keppendur eru ræstir einir og það er bannað að nýta sér draft af öðrum hjólara. Hjólin sem eru notuð í þetta eru alveg sérstök (time trial bikes), hjólararnir klæðast svokölluðu skinsuit sem lágmarkar loftmótstöðu og þeir eru gjarnan með hjálm sem lítur meira út eins og geimhjálmur. Það getur verið mikið undir í tímatökunni og hún skipt miklu máli þegar efstu menn eru að berjast um sekúndur.


Team Sky er eitt af frægustu liðum sögunnar. Þeir náðu ótrúlegum árangri á árunum 2010 til 2019, enda með nóg af peningum milli handanna. Í dag heitir liðið Ineos Grenadiers. Mynd: Cycling Weekly

Mismunandi lið

Stærstu liðin í hjólreiðum (World Tour Teams) eru með höfustöðvar hingað og þangað um heiminn en bera svo nöfn eftir sínum stærstu styktaraðilum- sem getur breyst einn tveir og þrír. Þú heldur kannski með Gunnars majones í dag en það er orðið Appelsín á morgun. Team Sky sem er eitt frægasta lið síðustu ára heitir Ineos Grenadiers í dag og búningarnir breytast alltaf með styrktaraðilunum. Ég á svolítið erfitt með að tengja við þetta en það er bara eins og það er. 

Eins og lög gera ráð fyrir hafa þessi lið misjafnlega mikið fé á milli handanna eftir því hver er á bakvið þau og hafa því mismikla möguleika á að ráða til sín góða hjólara. Ef að lið nær að ráða til sín spennandi hjólara og fer að vinna þá geta þau laðað að sér nýja styktaraðila.

Þetta allt verður til þess að lið fara inn í þessa keppni á mjög ólíkum forsendum. Lið sem vita að þau eiga litla sem enga raunhæfa möguleika á að vinna gulu treyjuna geta því lagt áherslu á að senda menn í breik (fá sjónvarpstíma), keppa um einhverja aðra treyju eða jafnvel bara að vera með mjög agressíva taktík til að hræra í hlutunum og fá umtal.

Hjólarar komnir í "breik" og reyna að stinga af. Mynd: Road Cycling UK

Mismunandi taktík

Núna er ég búinn að útskýra býsna vel svona það helsta sem gott er að vita en þó maður viti það kemur það ekki í veg fyrir það að stundum er mjög ruglingslegt að horfa á þetta. Þeir sem hafa keppt í þessu segja að enginn geti alveg skilið að fullu hvað er í gangi öðruvísi en að vera sjálfur að hjóla í pelotoninu. Þeir þekkja brautina og beygjurnar, eru að glíma við vind, bleytu, mikinn hita osfv. Þetta allt hefur áhrif á þær ákvarðanir sem eru teknar. Það er aldrei hægt að reikna neitt út því það gerist alltaf eitthvað óvænt sem þarf að bregðast við strax.

The breakaway

Það er ekki með nokkru móti hægt að gefa eitthvað fullkomið yfirlit yfir helstu taktík sem notuð er í hjólreiðum. Eins og fram hefur komið snýst þetta mikið um að drafta (spara orku) og þetta er svo mikið háð utanaðkomandi þáttum og dagsformi. En til að byrja með finnst mér rétt að útskýra aðeins það sem kallað er "breik".

Kannski ekki fallegasta mynd í heimi en sýnir svart á hvítu hvað hjólreiðar snúast um. Spara orku með að skipta vinnunni niður eða komast í "draft" hjá öðrum. Mynd:www.myworldfromabicycle.blogspot.com

Á flestum dagleiðum er nánast öruggt að einhverjir hjólarar reyna að komast í “breik” til að stinga af. Pelotonið er yfirleitt sátt ef þetta eru 4-8 gaurar en ef þeir eru orðnir mikið fleiri fá þeir yfirleitt ekki að mynda bil og ná forskoti. Þá byrja domestiqe gaurarnir að keyra upp hraðann í hópnum, skiptast á að taka púll og deila vinnunni. Lið geta líka ákveðið að senda einn mann til að reyna að ná hópnum. Ef 15-20 gaurar komast í breik og mynda mikið bil þá hefur eitthvað klikkað í taktíkinni. Þá er gjarnan talað um að það sé kaos í gangi. 15 til 20 hjólarar eiga nefnilega orðið  raunhæfan möguleika á að halda bilinu, þ.e. ef allir eru til í að vinna saman. Þau lið sem ekki eiga mann í þessum hópi munu alltaf gera allt til að ná þeim.

Ef hinsvegar 5 gaurar komast í breik, þá leyfir pelotonið þeim gjarnan að ná einhverjum mínútum í forskot en þegar styttist í keppninni keyra þeir upp hraðann og ná þeim í 99% tilfella. Þetta er algengast á flatari dagleiðum. En afhverju eru menn að fara í breik ef það gengur eiginlega aldrei? Jú, það er alltaf smá séns á að vinna og það keyrir menn áfram. Eins getur hjólari úr einhverju liði ákveðið að fara með í breik til að félagar hans í pelotoninu geti hvílt sig. Það er engin ástæða fyrir lið að leggja fram vinnu við að brúa bilið ef þeir eiga mann í breiki sem á tæknilega séð séns á að vinna. Ef önnur lið fara að vinna getur lið með mann í breiki slakað á og falið sig í pelotoninu.

Að lokum eru það svo litlu liðin sem senda menn í breik einfaldlega til þess að koma þeim í sjónvarpið svo sponsarnir verða ánægðir.

Ástæðan fyrir því að ég útskýri þetta sérstaklega er að þetta er rosalega stór hluti af hjólreiðum. En það er oft erfitt að átta sig á því hvað er nákvæmlega í gangi. Það fer eftir því hverjir eru í breiki, hvaða liðsfélagar eru í hópnum, hvað er framundan og hvaða markmið liðið hefur. Ef t.d. enginn í breikinu á raunhæfa möguleika á gulu treyjunni þurfa "GC" liðin ekkert að hafa of miklar áhyggjur. En til að skilja þetta betur þá koma lýsendurnir oftast til hjálpar og með tímanum fer maður að átta sig betur á þessu.

Hjólreiðar

Skákin

Ég held að ég fari fljótlega að ljúka þessu en ætla að koma með eina barnalega skýringu sem kannski getur hjálpað einhverjum að átta sig á dýnamíkinni í þessu.

Gefum okkur að við séum með 2 lið með 3 hjólurum í hvoru liði. Það á að ræsa þá í braut með 10 mínútna millibili og taka tímann (þetta gerist að sjálfsögðu aldrei). Lið 1 er með 2 góða domestiqe og einn klifrara, en lið 2  með 1 domestiqe og 2 klifrara. Allir klifrararnir eru jafn góðir og allir domestique eru jafn góðir.

Brautin sem þeir eiga að fara er 150 km á flatlendi en svo kemur fjall með 800 metra hækkun í í 12% halla í lokin. Markið er á toppnum.

Lið 1 mun láta domestique hjólarana skiptast á að brjóta vindinn fyrir klifrarann sem hangir í rassgatinu á þeim og sparar orku. Þegar kemur að klifrinu skilur svo klifrarinn hina eftir og fer upp einn. Lið 2 mun annaðhvort þurfa að láta i) alla 3 skiptast á að vera fremst að taka púll eða ii) fórna öðrum klifraranum í að taka púll á móti domestique hjólaranum. Það eru allar líkur á því að þegar lið 2 kemur að fjallinu að i) klifrararnir eru þreyttari eftir að hafa þurft að deila vinnu eða ii) þeir hafa farið hægar yfir þar sem klifrarinn sem tók púll er ekki jafn öflugur á flatlendi og domestique. Lið 1 vinnur alltaf.

Túrinn á ferð í Pýrena fjöllunum. Mynd:Alex Broadway/SWPix.com/ASO

En hvað ef þeir væru ræstir út allir á sama tíma og ættu að komast fyrstir í mark? Hvaða lið hefur núna meiri hag að því að keyra upp hraðann og eyða orku? Borgar sig fyrir annað liðið að reyna að láta einn stinga af? Eða ef við snúum þessu við og brautin byrjar á 800 metra klifri og svo kemur flatlendi, hvaða taktík virkar þá best? Svo bætum við við 17 liðum og höfum marga hjólara með mismunandi eiginleika í hverju liði, hvernig kemur þetta út þá? 

Eins og stundum áður er ég nú búinn að skrifa pistil sem margfalt lengri en til stóð. Mér fannst þetta meika sens þegar ég var að skrifa þetta og vonandi hefur einhver gagn og gaman að þessu. Ég ítreka það líka að ég er enginn sérfræðingur í þessu. Ég hvet svo alla sem hafa gaman að hjólreiðum til að fylgjast með þegar mótið byrjar 1. júlí. Ég mun ekki hafa tíma til að fylgjat með þessu öllu í rauntíma en mun að öllum líkindum taka einhverjar dagleiðir í lokin þegar farið er að hitna í kolunum. Mæli með GCN+ appinu þar sem hægt er horfa á allar helstu keppnir í beinni og fá samantektir eftir hvern dag.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Útivera

Negri í Þistilfirði