Mjög róleg helgi

Sól farin að hækka á lofti

Það er að verða komið hádegi, á laugardegi, og ég ligg en í bælinu. Vaknaði rétt fyrir 9 og er búinn að taka mína heilögu slökun og fréttarúnt. Hringdi í Þolla og við vorum aðeins að skipuleggja hjólaferðina í sumar. Svo er að byrja Liverpool leikur klukkan 12:30- og ætli maður planti sér því ekki næst í sófann og tékki á því.

Það hefur verið óvenjumikið að gera í félagslífinu hjá mér. Ég er búinn að fara út 3 kvöld í röð og svo er mér boðið í mat í kvöld. Fyrripart vikunnar langaði mig nú helst að loka mig af heima en er helvíti feginn að hafa meldað mig í allt þetta fjör. Maður hefur gott af því að hitta fólk.

Að öðru leiti eru bara rólegheit nema að ég ætla að taka æfingar heima í dag og á morgun og stefni svo á 3 ferðir í ræktina í næstu viku. Verð líka með börnin í næstu viku og það verður vetrarfrí í skólanum hjá Brynleifi. Held að hann sé pínu svekktur að við ætlum ekki að fara neitt en það verður að hafa það. Við finnum eitthvað til að dunda við hér á eyrinni.

Var að átta mig á því að nú er að verða ár síðan ég flutti út úr Dalsgerðinu í Kringlumýrina. Þann 1. apríl verður ár síðan ég fékk afhent og hófst handa við að koma mér fyrir hérna í Hjallalundinum. Ég fór að hugsa um þetta þar sem sól er farin að hækka á lofti og ég farinn að finna fyrir því að hafa aldrei tímt að splæsa í gardínur. Vildi gjarnan eyða peningunum í eitthvað annað en ætli ég verði ekki að gefa mig.

Annars er ekkert á dagskránni næstu vikuna, nema kannski að byrja að lesa aftur. Ég hef verið liðónýtur við lestur og er ekki einu sinni búinn með jólabækurnar 2 sem ég fékk. Veit ekki hvort ég ætli að setja mér nein markmið þegar að bóklestri kemur en kannski væri fyrsta skref að hafa tölvu og símabann í rúminu.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Útivera

Negri í Þistilfirði

Tour de France 101