Hertex

Í gær skrapp ég í Hertex til að tékka hvort ég fyndi ódýr föt á krakkana. Það er fín afþreying að fara þangað og börnunum finnst það gaman, enda getur maður látið eftir þeim að kaupa dót. Það kostar yfirleitt á bilinu 100-300 kr./stk. Síðan bara skilar maður því aftur.

Ég ætlaði nú ekki að kaupa neitt fyrir sjálfan mig, en svo rakst ég á forláta smíðabuxur sem smellpössuðu. Því næst fór ég að garfa í barnafötum en endaði svo í bókunum, þar sem ég fann 4 bækur sem ég setti í körfuna; Þrautgóðir á raunastund (þrjú bindi) og svo viðtalsbók við Þórberg Þórðarson eftir Matthías Johannessen.

Þegar þarna var komið sögu var ég kominn á bömmer yfir því að eyða svona miklum peningum en það sem ég tók upp úr körfunni þegar ég kom að kassanum var:

  • 4 x bolir fyrir Brynleif í mjög góðu lagi
  • 1 x buxur fyrir Brynleif ónotaðar
  • 2 x buxur fyrir Lóu í fínu lagi
  • 1 x smíðabuxur með hnjápúðum
  • 1 x frisbee diskur
  • 1 x bangsi 
  • 4 x bækur
Konurnar á kassanum byrjuðu nú að slá inn upphæðir í vasareikni, brutu saman fötin og ég fékk ókeypis stóran fjölnota poka með. Þetta kostaði allt saman 3.600 kr. Síðast þegar ég keypti buxur á Dagbjörtu Lóu, þá kostuðu tvennar buxur rúmlega 7000 krónur í Lindex, þannig áhyggjur af eyðslu voru s.s. óþarfar.

Í dag er fimmtudagur og ég ætla að taka mér frí á morgun. Sæki bíl á bílaleiguna á eftir og við Dagbjört förum upp í Mývatnssveit að ná í Brynleif. Gistum eina nótt og ætlum svo að eiga chill-aða helgi á Akureyri.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Útivera

Negri í Þistilfirði

Tour de France 101