Hamingjan
Nú er þessi vika að líða undir lok og annar súper bissý dagur að kveldi kominn. Svipuð rútína og í gær nema núna buðum við Patta vini Brynleifs í pizzu og bíókvöld. Keypti reyndar óvart líka örbylgjupopp þar sem ég var búinn að gleyma að örbylgjuofninn elti fyrrverandi konuna mína niður í Aðalstræti. En í staðinn gróf ég upp frostpinna og svo áttum við jarðhnetur í skurn. Það var gríðarlegt sport að brjóta upp hneturnar, flokka og safna upp í hauga. Stofuborðið var orðið eins og vinnslulína og þau voru eiginlega alveg hætt að horfa á myndina. Nú er til fullt af hnetum sem búið er að taka utan af. Veit ekki alveg hvað við gerum á morgun en mamma er búin að tilkynna komu sína í bæinn og ætlar að bjóða þeim í bíó (á morgun eða sunnudag). Svo væri nú snjallt af manni að skella sér með þau á skauta eða í fjallið. En ég er allavega búinn að ákveða að gefa ræktinni frí í 2 daga enda búinn að taka 2 mjög erfiðar æfingar í röð. Svo verður næsta vika skrítin. Rúmir 7 dagar af barnaleysi.....