Akureyri - Sörlastaðir

Kort og hæð yfir sjávarmáli af fyrstu dagleið.

27.07.2021 - þriðjudagur

Vegalengd: 51 km.
Klifur: 796 m
Klst: 03:57 
Erfiðleikastig: 5
Einkunn: 6,5

Leiðarlýsing: Þjóðvegur eitt frá Akureyri og svo beygt upp á Vaðlaheiðarveg (F832). Þegar komið er niður af heiðinni er beygt inn á Illugastaðarveg (F833) og honum fylgt fram og suður í Illugastaði. Farið yfir Fnjóskó og stefnt í SSV eftir nýuppteknum slóða í Sörlastaði. 

Leiðin er blanda af slitlagi og góðum malarvegum sem eru auðveldir yfirferðar. Klifur er aldrei mjög bratt, en nokkur hækkun. Mér finnst leiðin falleg, einkum þó þegar komið er yfir Fnjóskánna við Illugastaði. Mæli með að hjóla frekar í gegnum Þórðarstaðaskóg og vera austan megin við Fnjóskánna frá Vaglaskógi. 

Að leggja í hann fyrir framan Bláu könnuna.

Ég byrjaði daginn á því að hjóla í Byko og kaupa mér gorilla tape í verkfæratöskuna og hlífðargleraugu, ef ske kynni að ég myndi lenda í sandstormi. Eftir það fór ég á Bláu könnuna til að fá mér köku og kaffi. Fylla á orkubyrgðirnar og sjúga í mig smá menningu áður ég héldi upp í óbyggðirnar. Irija vinkona mín kom og hitti mig, en ég lánaði henni íbúðina á meðan ég var í burtu. Hún tók þessa fínu mynd hér að ofan.

Síðan hélt ég sem leið lá yfir Leiruveginn og tók stefnuna á Vaðlaheiði. Heldur fannst mér hjólið þungt til að byrja með en eftir sem á leið sótti ég í mig veðrið. Það var þokuslæðingur og rigningasuddi þegar ég var að þræða mig upp á heiðina og ekki laust fyrir að það væru svolítið blendnar tilfinningar að vera að leggja af stað í þetta ævintýri einn. Ég skal viðurkenna að ég var svolítið einmanna og hafði strax grun um að þetta yrði ekki síður andleg áskorun en líkamleg.

"Puggurinn", vel útbúinn og ég með allt til svaðilfara.

Að lokum náði ég að hjóla upp úr þokunni og þó veðrið væri ekkert til að hrópa húrra fyrir á toppnum, þá ákvað ég að taka pásu og fylla á orkubyrgðarnar. Í hádegismatinn voru fajitas-kökur með sardínum í tómatsósu. Þetta er ofurfæða en ég ætla samt næst að taka sardínur í olíu sem eru miklu orkuríkari.

Hádegismatur á Vaðlaheiði.

Þegar ég fór að mjaka mér austur af heiðinni fór að herða rigninguna og ég varð að stoppa til að klæða mig í lopapeysu og setja ullarhúfuna undir hjálminn. Í vondum veðrum er eiginlega  erfiðara að fara niður brekkur en upp, þar sem maður er ekki að erfiða neitt og fer hraðar yfir. Þá getur manni orðið kalt. En Fnjóskadalurinn blasti þarna við mér og það var bara nokkuð fallegt um að litast þrátt fyrir allt. Ég ætlaði að stoppa á kaffihúsinu við göngin og láta mig aðeins þorna en þar var allt læst og lokað.

Pása frá regninu í Daladýrð.

Þegar ég var kominn inn í Vaglaskóg ákvað ég að kveikja á GPS-tækinu til að athuga hvort slóðinn í gegnum Þórðarstaðaskóg væri ekki bara "straight forward". En mér til ama sá ég að tækið hafði "trakkað" þjóðveginn alla leið í Illugastaði. Eftir smá umhugsun ákvað ég að fara bara þá leiðina því ég nennti ekki að lenda í einhverju veseni í rigningunni og mundi ekkert hvernig þessi leið var. Ef ég hefði ekki verið einn á ferð hefði ég örugglega látið slag standa og verið betur upplagður í ævintýri.

Leiðin suður dalinn sóttist mér vel en það hélt áfram að rigna og ég var að verða nokkuð blautur. En þá rak ég augun í hinn guðdómlega húsdýragarð Daladýrð og var fljótur að koma mér þar inn. Þar var tekið vel á móti mér og ég keypti mér vöffluprik og kaffi. Þegar ég sat að snæðingi var svo eins og himnarnir hafi opnast, rigningin buldi á þakinu og ég því fegnastur að hafa komið mér inni. Eftir stopp í ca. klukkutíma fór svo að draga úr rigningunni og því ekki eftir neinu að bíða.

Sörlastaðir í Fnjóskadal.

Frá Brúnagerði þar sem Daladýrð er að finna eru ekki nema 4 km að brúnni yfir Fnjóskánna við Illugustaði- og svo bætast við ca. 10 km. fram að Sörlastöðum þar sem ég gisti. Í tengslum við nýju Kröflulínuna hafa orðið miklar vegabætur á þessum slóðum og því var ég ekki lengi á leiðinni. Og ég var reyndar það lítið þreyttur að ég velti því fyrir mér fullri alvöru hvort ég ætti bara að hjóla áfram í Suðurárbotna. En ég sá heldur ekki ástæðu til að vera kominn degi á undan áætlun og um að gera að reyna að gíra sig niður og eiga eitthvað inni.

En Sörlastaðir voru s.s. fyrstu næturstaður minn í þessari ferð. Sörlastaðir eru eyðibýli en hestamannafélagið Léttir á Akureyri hefur verið með það á leigu frá árinu 1976. Það er nú allt og sumt sem ég veit um þennan stað. Þarna getur maður fengið inni á meðan pláss er og skilur svo bara eftir nafn og kennitölu. Nóttin kostar 2000 kr. Astaðan er ágæt, hægt að kveikja upp með timbri en ég nennti ekki að standa í því. Það var 13°C hiti inni í húsinu og því dró ég bara fram gömlu góðu ullarsokkana og var í peysu. Þarna er rennandi kalt vatn og vatnsklósett, en að sjálfsögðu ekkert rafmagn.

Ef fólk er draughrætt þá er ég ekki viss um að það væri til í að sofa þarna eitt. Ekki varð ég nú var við nokkurn skapaðan hlut á meðan ég var vakandi, en um nóttina fékk ég á mig möru. Ég fékk ljóta martröð og lá svo lengi í rúminu, meðvitaður um umhverfi mitt og hvar ég var, en gat mig hvergi hreyft og ekki opnað augun. Þegar ég náði loks að reisa mig upp, snéri ég mér bara á hliðina og hélt áfram að sofa, enda trúi ég ekki á hindurvitni og drauga. 

Það var kalsasamt að líta út um Gluggann á Sörlastöðum um kvöldið.


Við vaskinn úti var þessi fíni spegill og ég myndaðist óvenju vel.


Kvöldmatur frá Lyo, kertaljós og skissubókin komin upp.


Sörlastaðir- horft í norður.


Vistarverurnar sem ég valdi mér.


Reiðskjótinn ferðbúinn. Slóðin liggur svo áfram suður og krækir fyrir ásinn sem er í bakgrunni.


Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Útivera

Negri í Þistilfirði

Bikarmót #1 - 2023 - Recap