The Rift 2025 - Frá himnaríki til........

Þarna var ég ennþá brosandi en það átti eftir að breytast.

Þá er Riftinu lokið, eitt af stóru markmiðum ársins. Ég gerði mér það morgunljóst áður en ég fór inn í þesssa keppni að ég mundi þurfa að grafa djúpt til að klára þetta með stæl en þetta varð í rauninni erfiðara en ég hefði getað ímyndað mér. Ég kláraði þetta en ekki var það með stæl.

Brautin

Hægt er að finna GPX-file af brautinni á heimasíðu The Rift og skoða betur.

Brautin, sem aðeins öðruvísi í ár og er erfiðari, er tæplega 200 km með ca. 2500 metra hækkun og lagt af stað frá Hvolfsvelli. Hún byrjar fyrstu10 km á malbiki en svo er beygt upp á möl með nokkuð stöðugum hækkunum. Fljótlega taka svo við ár, grófir ruddaslóðar, vikur og sandar á víxl. Virkilega krefjandi brekkur bæði upp og niður. Stundum þarf að fara af hjólinu og ýta því upp brekkurnar. Maður hafði heyrt þetta allt áður og þetta kom mér s.s. ekkert á óvart.

Annars liggur leiðin um Fjallabaksleið, upp í Landmannalaugar að Heklurótum og ég veit ekki hvað og hvað. Ég hef í rauninni ekki gefið mér tíma til að pæla alveg í þessu og það var svo langt frá því að ég væri að taka á mig staðsetningar í brautinni sjálfri. En það er óhætt að segja að þetta hafi verið átakanlega drullufallegt og synd að maður hafi verið svo þjáður að maður hafi ekki getað notið þess. Ég get ímyndað mér að það sé nánast óyfirstíganlegt að upplifa þetta sem útlendingur, en þeir eru jú meirihluti keppenda.

Gravel- hippstera dæmi

Hvað er með þetta gravel?
Ég er svo seinn á þennan malarvagn að ég hafði aldrei upplifað stemmninguna sem tengist þessari gravel senu. Maður hafði náttúrulega bara heyrt um gúddí fíling, gott kaffi, hipstera sem eru á lífrænu línunni í lífinu, mikið af húðflúrum, hormottum, mullet og fólk klætt í Pas Normal Studios eða Cafe de Cyclist föt. Og þetta stóðst reyndar allar væntingar. Manni leið pínu eins og maður væri gestur í einhverri cult-veislu. En ég meina þetta ekki á neikvæðan hátt. Þetta var mello stemmari og gaman að vera þarna.


Eins hafði maður heyrt um góða andann, samkenndina og vinalega andrúmsloftið þar sem allir hjálpast að og flestir bara að vera með til að vera með. Hafa gaman að þessu og klára en ekki endilega vinna. Þetta stóðst eiginlega líka allar væntingar. Ef maður stoppaði á leiðinni til að gera eitthvað (og það var mjög oft) og einhver hjólaði framhjá brást varla að það væri kallað "Everything OK?". 

En ég var kannski óþarflega stressaður til að njóta fílingsins á svæðinu og þrátt fyrir að hafa skráð mig með það að markmiði að hafa gaman og klára, þá ætlað ég að standa mig vel.

Team HFA í nýju bolunum.

Viðburðurinn
Nokkur orð um þetta. Langstærsta og flottasta dæmi sem maðuar hefur tekið þátt í. Sölubásar, ókeypis kaffi, drykkir, flottur bolur að gjöf, matur, dúndrandi techno, samhjól og aðrar uppákomur. Það er mikið í þetta lagt og ekki yfir neinu að kvarta.

Róleg vika í aðdragandanum.

Undirbúningur
Ég kom í þokkalegu standi inn í þessa keppni og CTL-ið hjá mér (Chronic Training Load) svipað og það fór hæst í fyrra. Æfingar síðustu vikna hafa líka verið aðeins litaðar af því að maður væri að fara í langa gravel keppni, þ.e. margir klukkutímar, mikið endurance og smá tempo og þröskuldur. Við höfum verið minna að vinna í VO2 og sprettum. Meðaltímafjöldi síðustu 3 vikur í aðdraganda keppninnar voru tæplega 15 klst.

Í aðdraganda mótsins var ég búinn að reyna að bæta inn klukkutímum á gravel hjólinu og það gekk svona la la. Fyrstu löngu ferðirnar mínar á því kostuðu nokkra verki og þreytu í höndum og ég vissi að þetta yrði krefjandi. En mér fannst samt eins og þetta væri búið að skána slatta frá því í vor.

Síðustu dagana fyrir keppni einbeitti ég mér að því að borða vel og hvíla mig eins og ég gat, en það var kannski ekki alveg nóg. Það er búið að vera sjúklegt álag í vinnu og það var í mörg horn að líta síðustu dagana fyrir keppni. 

Logistics

Sóley og Röggi að þrífa hjólin í bústað á Flúðum.

Ég dró lappirnar lengi vel með að panta bústað eða hótel fyrir þetta en eftir að hafa kíkt eitthvað á framboðið einhverntíman í vetur sá maður að þetta yrði alltaf mjög dýrt ef maður vildi vera nálægt Hvolfsvelli. Númer 1, 2 og 3 er að hugsa fyrir þessu mjög tímanlega (sem ég gerði s.s. ekki) og reyna helst að finna bústað hjá verkalýðsfélagi ef maður getur. En við Harpa vorum heppin og þar sem það breyttust plön í fjölskyldunni hennar Sóleyar komumst við að í bústað með henni og Rögga. Bústaðurinn var á Flúðum og þó að það sé 50 mínútna akstur þá sleppur það.

Annað sem ég lærði er að maður verður að taka tíma í þetta og gera meira úr ferðinni. Fyrst ætluðum við Harpa bara að taka eina nótt eða tvær í mesta lagi en svo var maður lifandi feginn að hafa mætt á fimmtudeginum og gist 3 nætur. Þetta er of stór pakki til að vera að flýta sér og eins gott að reyna að njóta.

Röggi og Sóley að ná í keppnisgögnin deginum áður.

Taktík
Ég ætlaði mér að vera framarlega í mínum aldursflokki (40-49) og var alveg viss um að ég væri með lappir í það. Ég vildi því ekki lenda í því að vera of aftarlega þegar beygt er inn á mölina og það fer að verða erfiðara að taka fram úr. Það var því ekki um annað að velja en að vera tímanlega á ráslínu og halda sér framarlega að beygjunni. Ég var viss um að ef þetta gengi upp þá næði ég svo að halda góðu tempói í kjölfarið og það myndi skila mér á þokkalegum tíma í mark. Að lokum, ég ætlaði helst ekki að stoppa neitt að ráði nema ef ég þyrfti meira vatn að drekka.

Ég og Röggi að hjóla gravel um daginn. Þarna sést vel USWE drykkjarvestið sem fær fullt hús stiga hjá mér.

Næring
Í sumar hef ég verið að vinna með að blanda mér kolvetni úr borðsykri og setja á brúsa (Vanilludjöfull) og það hefur gefist ágætlega. Ég hef reyndar haldið mig við gelin í götuhjólamótunum að mestu. Helsti kosturinn við þetta setup er náttúrulega hvað þetta er sjúklega ódýrt. Ég sló á það um daginn að þetta væri 2900% ódýrara en Beta Fuel.

Það sem ég tók með mér í þessa keppni var:
  • 600 gr kolvetni í tveimur 700 ml. brúsum
  • 5 x BetaFuel (200 gr kolv)
  • 2 x Clif bar með hnetusmjöri (til að fá einhverja fasta fæðu).
  • 2 l vatn í USWE Race vesti
Fararskjótinn og skeifurnar
CUBE Nuroad C:62 EX

Ég átti náttúrulega eftir að skrifa dóm um nýja Cube gravel hjólið mitt sem ég keypti hjá vinum mínum í TRI og ég hef mikið velt því fyrir mér hvað ég ætti að skrifa. Í stuttu máli þá er mér búið að finnast þetta alveg geggjað hjól þó ég hafi ekki alveg verið búinn að ná að stilla það fullkomlega fyrir mig. Þegar ég hef tekið langa túra þá hef ég lent í smá veseni með þreytu í höndum og mjóbaki eins og ég kom að hér að framan. Þetta á sérstaklega við ef ég hef verið að fara mikið niður í móti. 

Þess utan er þetta hjól alveg sjúklega létt og "nimble" en á sama tíma er það mjög stöðugt á grófum malarslóðum. Fyrir þá sem hafa áhuga þá má lesa um hjólið og íhlutina hér.

Gírun fyrir keppnina var 10-52T að aftan og 46T að framan. Það var búið að vara mig við að þetta væri svolítið þungt gírað fyrir Riftið og ég var búinn að velta því fyrir mér að skipta í 42T að framan en nennti því svo ekki. 

Schwalbe G-ONE Pro r 50 mm- alvöru dekk fyrir röff aðstæður.

Dekkin sem komu á hjólinu eru Conti Terra Trail 45 mm sem eru mjög góð, en ég skipti yfir á breiðari 50 mm Schwalbe Pro One R fyrir Rifið og ég myndi segja að þessi dekk væru fullkomin fyrir þessa braut. Þau éta vel upp ójöfnur, eru mjúk og með geggjað grip. Ég setti dekkin upp slöngulaust og nota Silca sealant. Ef ég fékk einhver göt á dekkin í keppninni þá allavega hafa þau lokast strax.

Varahlutir og viðgerðardót

Þetta er ég alltaf með í töskunni á gravel hjólinu.

Það fylgdi með hjólinu lítil nett taska til að setja aftan við stýrið (top-tube bag) og þar er ég með allt það helsta sem ég gæti þurft á að halda:
  • CO2 hylki og millistykki
  • Verkfæri (multi tool)
  • Gaur til að losa ventil
  • Tappasett (tire plug kit)
  • Slanga
  • Pumpa
  • Silca vax á keðjuna

Veður og fatnaður

Castelli Unlimited Endurance Bib Shorts (buxur) og Castelli Alpha Ros jakki.

Ekki urðum við svikin af íslenska sumarveðrinu. Við fengum rigningu (ausandi í smá tíma), sól, stundum var þungskýjað og á köflum svartaþoka. En það var bót í máli að það var frekar hlýtt og enginn vindur. En þegar langur dagur er framundan er lítið annað að gera en að klæða sig eftir veðrinu í startinu og tilfinningu (rigning og 14°C).

Ég var búinn að ætla að vera á þunnri keppnistreyju en ákvað að skipta yfir í Castelli Alpha Ros jakka sem er með renndu vesti innanundir. Þess jakki er alger snilld þó ég hafi haft smá áhyggjur af því að hann gæti verið of hlýr. Á móti kemur að þar sem hann er með þunnu vesti er fínt að renna niður ytra byrðinu án þess að hann fari að flaksa of mikið. Þetta reyndis vel valið og það var bara í smá stund sem mér var of heitt.

Eftir að ég fékk mér gleraugu með sjálfdekkjandi linsu hef ég ekki notað neitt annað.

Buxurnar sem ég var í eru líka frá Castelli og heita Ultimate Endurance (Bib Short). Einnig fáanlegar í Tri. Þær erum með hliðarvasa á báðum skálmum og einum aftan á bakinu. Þetta eru alveg truflaðar buxur, mjúkar og liprar með góðum púða og það er alger leikbreyir að vera með þessa auka vasa alla fyrir mat, rusl, síma eða annað dót.

Annars voru það merino sokkar frá 66°N, gleraugun voru Alba Delta með sjálfdekkjandi linsu (photochromic) sem fást hjá Pedal . Þetta eru bestu hjólagleraugu sem ég hef átt og öruggur kostur þegar maður veit ekki hvort það verði sól eða ekki.  Að lokum var ég með Gore-Tex vettlinga sem ég man ekkert hvað heita en þeir voru keyptir í Fjallakofanum.

Fyrstu 50km

Ausandi rigning og þéttur pakki í startinu.

Við Röggi komum okkur fyrir framarlega á ráslínu kl. 07:10. Við vorum kannski 3 hjólalengdum frá fremsta boxinu þar sem Pro-flokkurinn var. Á malbikinu gekk mér ágætlega í hópnum en nennti ekki að troða mér alveg fremst. Vattamælirinn var úti hjá mér en ég sé það á púlsinum að maður var að keyra þokkalega á þetta. Ég man svo eftir að hafa litið á hjólatölvuna og séð töluna 18 km og hugsað "fokk" þá vorum við búin að fara yfir einhverja á og fjörið byrjað fyrir alvöru. Þegar þar var komið sögu var ég löngu búinn að týna Rögga í mannfjöldanum.

Við Röggi hittumst svo aftur þegar við vorum komnir ca. 30 km ef ég man rétt og töluðum báðir um hvað við værum grillaðir þó ekki væri komið lengra inn í keppnina. En við náðum ágætis rúlli á köflum og það var fínt að fá félagsskap.


Það var búið að segja okkur að það væri mikið í ánum og það væri sniðugt að vaða. Ég er ekki með töluna, en ég bar hjólið yfir 2-3 en hjólaði yfir aðrar. Oftast gat maður fylgst með hvernig fólki gekk að hjóla og tekið ákvörðun í tíma. Ef maður er í vafa er betra að halda á því. 

50 - 100 km
Þegar við vorum búnir að taka út mestu hækkanirnar og það fór að halla undan fæti fór ég að lenda í vandræðum með að hanga í Rögga niður brekkur og það fór svo að ég leyfði honum að fara. Ég get ímyndað mér að þetta hafi verið í kringum 70 km. Þarna var mér farið að líða frekar illa og kominn með þreytuverki í mjóbakið og hendurnar á mér voru alveg búnar.

Á þessum tímapunkti fóru markmiðin hjá mér að breytast og núna vissi ég að það yrði mjög gott að ná þessu á 9 klst. Ég vissi samt að enn var fullt af sterkum hjólurum á eftir mér og það væri ekki neitt annað í stöðunni en að halda bara áfram. Þarna kom langur kafli sem var mikil barátta við hausinn því þó lappirnar væru fínar þá var bakið alveg úr leik. Ég hjólaði í gegnum Landmannalaugar án þess að hafa hugmynd um hvar ég væri staddur. Einhver börn hrópuðu að mér hvatningarorðum en mér leið svo illa að ég leit ekki einu sinni upp eða brosti.

Ég og Röggi á meðan það var ennþá gleði í mér ;)

100 - 150 km
Fljótlega efftir Landmannalaugar þegar keppnin var hálfnuð hitti ég svo Rögg aftur sem hafði stoppað og fengið sér að borða. Fljótlega springur svo hjá Rögga og ég stoppa með honum í 10 mínútur til að aðstoða hann. Þarna fóru að rúlla framhjá okkur nokkrir gaurar sem maður vildi ekki missa of langt í burtu og að lokum fór ég af stað á undan Rögga. Ég hafði haft gott af því að stoppa og nú kom smá kafli þar sem mér fannst að ég ætti eitthvað inni. Það var þó ekki lengi.

150 - 200 km
Það er ekki mjög upplífgandi að skrifa um þetta eða rifja þetta upp en síðustu 60-70 km í keppninni voru hreinn horror. Ég var með næga orku og gat snúið löppunum en þreytan í efri partinum var orðin svo mikil að ég var hættur að geta farið niður brekkur þó hallinn væri ekki mikill. Mjóbakið var hætt að halda við og stundum þurfti ég að taka ákvörðun með stuttum fyrirvara um að stoppa því ég var að missa stýrið. Þegar ég fór svo að bremsa og þunginn færðist fram þá héldu hendurnar ekki á móti og í allavega eitt skipti endað ég með magann fram á stýri. 

Svona silaðist ég svo áfram kílómeter eftir kílómeter og mér sýnist á Training Peaks að ég hafi stoppað allavega 10 sinnum síðasta klukkutímann. Fólk hélt áfram að rúlla framhjá, ég tók svo stundum framúr þeim aftur og svo endurtók þetta sig. Það var himneskt að komast að lokum á malbikið aftur og þá gat ég gefið smá púður í þetta í lokin og tekið framúr nokkrum manneskjum. Sjálfstraustið þurfti á því að halda.

Að endingu kom ég í mark no. 121 of 333 karlmönnum sem kláruðu þessa vegalengd á tímanum 10:04 klst (8:53 á hreyfingu).

Tilfinning í lok keppni og lærdómur

Kominn í mark alveg sósaður.

Ég væri að ljúga ef ég segðist vera ánægður með hvernig þetta fór en það þýðir ekkert að vera að væla. Upprunalega markmiðið var að vera nær 8 klst en ég var langt frá því. En í öllu svekkelsingu og þreytunni fann maður samt að þetta hafði haft einhver undarleg áhrif á mann og maður fékk strax á tilfinninguna að maður ætti eftir að taka þá heimskulegu ákvörðun að gera þetta aftur. Maður hafði tapað orustu við eitthvað skrímsli og þá verður maður bara að læra af því, bæta sig og henda sér í annan slag.

Bremsuhandföngin voru í frekar agressívri stöðu.

Ég átta mig á því að það er ýmislegt sem ég get bætt til að minnka þessa verki og þreytu í efripartinum, t.d. að slaka betur á niður brekkur, teygja meira, æfa miðsvæðið og kannski fara að vera í ræktinni allt árið. En það breytir því samt ekki að það er eitthvað í uppsetningunni á hjólinu sem er ekki að passa mér. Það sem ég lenti í þarna var út fyrir allt eðlilegt og ég verð að komast í fit eða fikta mig áfram sjálfur.

Það fyrsta sem mér datt í hug í þessu sambandi var hvort að bremsuhandföngin hafi vísað of mikið niður fyrir svona gamlingja eins og mig. Látum það fylgja sögunni að ég gerði þetta aðalega upp á lúkkið og eitthvað ímyndað "aero gain". Ég sendi mynd á Ingvar og hann sagði mér að byrja á því að velta stýrinu upp aftur. Ég er einnig búinn að prufa að setja annan hnakk á hjólið, færa hann örlítið aftar og hækka hann smá. Með þessu er ég í rauninni að færast nær því að stilla hjólið eins og götuhjólið mitt. Ég tók túr í dag og ég er alveg klár á því að þetta var skref í rétta átt. 

Í lokin kemur smá "quick fire" og styttri punktar:
  • Undirbúningurinn fyrir mótið var fínn þó ég hefði augljóslega mátt taka fleiri æfingar í grófu landslagi og erfiðari braut án þess að vera alltaf stoppandi. Það væri t.d. gott að taka 100 km Súluhringinn og stoppa lítið sem ekki neitt.
  • Ég hélt ég væri betur undirbúinn fyrir svona barning.
  • Taktíkin hjá mér næst yrði svipuð, þ.e. að reyna að vera frekar framarlega þegar komið er inn á möl en vera samt ekkert með of mikil læti. Þegar leið á var ekkert stórmál að koma sér fram úr fólki.
  • Ef ég næ bakinu og höndunum fínum hef ég ekkert allt of miklar áhyggjur af þessum brekkum niður í móti en maður verður að passa sig að fara ekki út fyrir það sem maður ræður við.
  • Ég missti 2var stjórn á hjólinu á mikilli ferð- í annað skiptið þar sem alvarlegt slys átti sér stað stuttu áður.
  • Ég hef engar áhyggjur af þessum ám lengur. Ef maður er í vafa þá labbar maður en flestar eru hjólanlegar.
  • Ég kemst upp hjólanlegu brekkurnar með 46T að framan en það væri hentugra að skipta í 42T
  • Ef manni líður betur næst reynir maður að brosa meira og skemmta sér.
  • Ég tek aldrei með mér svona sykurvatn aftur í keppni. Þetta var allt of þungt og klístrað.
  • Það var nóg af gelum og orku á drykkjarstöðvum og ég nýti það betur næst fyrir fasta fæðu.
  • Næst verða bara 2 lítrar af vatni í drykkjarvestið og 16 BetaFuel- ekkert annað.
  • Ég var með vaxaða keðju og það virkaði fínt
  • Þurfti ekki að nota verkfærin sem betur fer en notaði drip vax (Silca) og lánaði smá.
  • Mæli með að hafa vax/smur með það munaði ótrúlega að smyrja á leiðinni.
  • Var spot on í klæðnaði í þetta skipti.
  • Þurfti að taka gleraugun af mér fljótlega vegna bleytu og móðu og hafði engan stað nema undir treyjunni til að geyma þau. 
  • Skoða hjálm sem getur haldið gleraugum?
  • Schwalbe G-One Pro r 50 mm voru að koma vel út.
  • Hjólið stóð sig mjög vel ég mun elska það þegar ég hef komist yfir þessi fit-vandamál.





Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Mývatnshringurinn 2025 - Post Race Pistill

Negri í Þistilfirði