Mývatnshringurinn 2025 - Post Race Pistill
![]() |
| Glaðir hjólarar í mótslok. |
Undirbúningurinn
Það er ekki mikið um undirbúninginn að segja því þetta mót var skyndiákvörðun og bara til gamans gert. Ég var að koma úr nokkuð feitri æfingablokk og að ljúka viku númer tvö þar sem ég hjólaði í 16 klst. Æfingarnar hafa snúist um að undirbúa mig undir langa gravel keppni um næstu helgi (Súlur) og ég ekki verið að taka mikið af sprettum og styttri æfingum eins og yfirleitt fyrir fyrsta mót. En á móti kom þá fannst mér ég ágætlega tilbúinn og ég hef ekki verið líkamlega þreyttur upp á síðkastið.
| Það er ekki margt um þessa braut að segja. |
Brautin
Brautin í Mývatnshringnum er nokkuð beint áfram eins og þar stendur. Þetta er sama braut og í heilmaraþoninu (42,2 km) og byrjar og endar við Jarðböðin. Leiðin er pönnukökuflöt og varla hægt að tala um neinar brekkur, allavega ekki sem nýtast okkur sem léttari eru. Það þarf ekkert að nefna útsýnið, það er á heimsmælikvarða.
Taktík
Ef það er eitthvað sem ég er búinn að læra þá er það að það þýðir yfirleitt ekkert að setja of mikil plön fyrir svona mót. Það er eiginlega ómögulegt að sjá fyrir hvað gerist þannig að taktíkin var í rauninni bara að hanga fremst og reyna að elta allar hættulegar árásir. "Go with the flo".
Það sem gerir þessa keppni líka áhugaverða og erfiða að spá fyrir um er að hún er stutt og því getur hún alveg gefið öflugum mönnum sem eru ekki í rosalegu hjólaformi smá séns. Ég vissi um allavega 3 gaura sem væru nokkuð sterkir en hafði grun um að formið hjá mér væri betra. Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að reyna að gera þetta erfitt með endalausum rykkingum en vissi s.s. ekki hvernig mér myndi líða.
![]() |
| Eitthvað bras fyrir mót. |
Keppnisdagurinn
Alltaf sama gamla lumman; vakna minnst 3,5 klst fyrir ræs og éta hafragraut með eggi og sírópi. Tveir sæmilegir kaffibollar og svo er að það dollan. Jú og á undan þessu eru það 2 glös af vatni, en svo verður maður að stramma sig af svo maður sé ekki símígandi. Á ráslínu ét og svo oft eitt gel en í þessu tilviki banana þar sem þetta var nú ekki löng keppni.
Fyrstu kílómetrarnir
Ég kom mér fyrir aftan við 3 fremstu gaurana á ráslínu og lét þá um að stjórna hraðanum til að byrja með. Hjalti Jóns kom svo fljótlega í hópinn til okkar. Þegar við vorum að koma niður Kambinn í Voga tók ég eftir að við vorum fimm sem vorum búnir að slíta okkur frá restinni af keppendum; ég og Hjalti frá Hjólreiðafélagi Akureyrar og Stefán Þór, Þórarinn og Jóhann Almar, allir úr Tindi. Í litlu brekkunni við Geiteyjarströnd kom svo fyrsta árásin og ég held að Jóhann Almar hafi startað henni. Þetta hefði ekki átt að koma á óvart en ég var aftarlega og frekar lengi að ná áttum
Eftir smá vinnu runnum við allir saman nema Jóhann og ég gerði tilraun til að brúa yfir til hans og þegar það gekk ekki reyndi ég að skipuleggja okkur þannig að við myndum skiptast á að taka púll. Ég held samt að við höfum verið furðu rólegir því við höfðum enga trú á að gaurinn myndi ná að halda þetta út í 35 km. Ég hafði ekki hugmynd um hver þetta var og aldrei keppt við hann.
Í miðjum leik
Eftir þetta hélt bilið í Jóhann hægt og rólega að aukast en við trúðum lengst af ekki að þetta myndi halda hjá honum. Við Skútustaði var ég samt farinn að hugsa að úr þessu væri sennilega gáfulegast að halda sér bara í þessum hópi og sjá bara til. Þó að við værum ekki að brenna okkur upp við að ná Jóhanni þá unnum við ágætlega saman og skiptumst á að púlla.
Og þannig leið tíminn og aldrei treysti ég mér til að láta vaða í neina vitleysu. Maður var náttúrulega alltaf að reyna að lesa í mótherjana og það var eitthvað sem sagði mér að Stefán og Þórarinn væru að lýjast en ég átti erfiaðara með að átta mig á Hjalta.
![]() |
| Ánægður með annað sætið og gaman að hafa tvo HFA menn á palli. |
Lokaspretturinn
Eins og stundum í keppni þá vaknar maður allt í einu upp við að kílómetrarnir eru að klárast og maður þarf að fara að taka einhverjar ákvarðanir. Hingað til hef ég alltaf verið mjög passífur og frekar reynt að bregðast við því sem hinir gera. Núna hinsvegar fór ég að spá í hvort ég ætti að reyna að gera einhverja áras og jafnvel langa. Treysta því að þeir væru orðnir grillaðri en ég. En mómentið kom aldrei og það var ekki fyrr en í síðustu brekkunni að ég ákvað að koma þeim á óvart uppi á topp þar sem fer að halla niður í átt að markinu.
Þegar við vorum að koma upp á toppinn þá var ég aftastur, gíraði upp um einhverja gíra, stóð upp og fór að trampa á pedalana. Mér til skelfingar fannst mér ég ekki hafa neitt power en náði samt þannig viðbragði að ég kom mér fram úr þeim. Þá settist ég niður aftur og tæmdi allt af tanknum. Þetta kom mér í markið í 2. sætið og Hjalti var rétt í rassgatinu á mér.
Eins og fyrr segir þá sigldi Jóhann einn í mark á nýju brautarmeti.
Niðurstaða og tilfinningin eftir mót
Úr því að mér tókst að verða fyrstur af okkur 4 í þessum hópi þá held ég að ég verði að vera mjög sáttur. Ég hefði teflt þessu í tvísýnu með því að reyna að brúa einn yfir til Jóhanns því þá hefði ég kannski grillað mig og væntanlega aldrei náð að vinna hann. Og þá hefði ég líka alltaf átt á hættu að grilla mig og láta hina ná mér og skilja mig eftir. Hvað veit maður?
Næring
Ég át einn banana á ráslínu og drakk 120 gr. kolvetni í Vanilludjöfli. Varð pínu óglatt í markinu og fékk svo rosalega vindverki sem gætu líka stafað af kaffiþambi strax eftir keppnina.
Næstu skref
Nú er bara að halda dampi og fá kvíðaskitu yfir þessu Súlur Vertical móti sem er um næstu helgi. Það er búið að stytta leiðina niður í 150 km sem er fínt, en veðurspáin er hörmuleg og ég veit ekkert hvað er að fara að gerast.
![]() |
| Harpa á palli. |
Harpa skráði sig líka í Mývatnshringinn og ákvað að láta reyna á öxlina. Skv. sjúkraþjálfara má hún alveg hjóla þó hún geti ekki lyft hendinni upp fyrir axlir og ekki unnið. Ég vissi alltaf að hún myndi standa sig vel eins og alltaf og hún gerði sér lítið fyrir og vann kvennaflokkinn. Alltaf mesti naglinn og ég ótrúlega stoltur af henni🥰




Ummæli