Myndlist

Núna þegar ég sit hérna og ætla að skrifa eitthvað um þetta áhugamál mitt, sem vatnslitamálun er, þá bara get ég alls ekki munað nákvæmlega hvernig þetta byrjaði. Auðvitað teiknaði ég mikið sem barn en ég prufaði ekki að mála fyrr en ég var kominn á fullorðinsár. Ég man bara að ég var fluttur inn til Guðrúnar á Króknum og mig minnir að ég hafi keypt ódýra vatnsliti í Pennanum. Ég man eftir að hafa málað tré og fór ábyggilega eftir einhverju á Youtube. Síðan málaði ég mynd af eldhúsinu okkar í Laugatúninu og er það fyrsta myndin mín sem endaði í ramma.

Belgjarfjall málað mjög frjálslega (2018). Ég man hvað var gaman að gera þessa mynd og ég er alltaf nokkuð ánægður með hana. Hún verður 41x50 cm þegar hún verður komin í ramma.

En það er svo einhvernveginn sem mig minni að það hafi verið farinn að detta botninn úr þessu máleríi mínu þegar ég kynnist Gene House í gegnum Jens frænda. Við förum að ræða myndlist og það endar með því að ég sendi honum 3 póstkortaskissur. Ég man að ein var af Nietzsche, ein var af Motzart en hef nú gleymt þeirri þriðju. Eftir þessa sendingu fór Gene að hvetja mig áfram í að mála og við fórum að senda hvorum öðrum skissur og tölvupósta. Það væri of langt að segja frá samskiptum okkar Gene hér og nú, en hann hefur verið einhver mesti örlagavaldur í mínu lífi- blessuð sé minning hans.

Á góðri stund með Gene í Napadalnum 2015.

Síðan hefur myndlistin alltaf verið hluti af lífi mínu, en mismikið þó. Ég hef tekið mínar maníur í þessu og þá mála ég öll kvöld, oft margar myndir á kvöldi, skoða myndlist alla daga og get ekki á heilum mér tekið. Síðan hef ég dottið niður inn á milli og ekki snert pensil svo vikum skiptir. Lægðin sem ég er í núna hefur reyndar verið óvenjulega löng. En ég hef engar áhyggjur af því, þetta er jú bara áhugamál og ágætt sem slíkt. Þetta kemur aftur til mín.

Freysteinn og Blesi. Mynd sem ég gerði fyrir Halla frænda 2017. En ég átti síðan eftir að setja himin og bakgrunn. 

Eftir að við fluttum í Mývatnssveitina fór ég að taka meira og meira pláss undir þetta áhugamál mitt, og þá fór fyrst að koma vísir af vinnustofu. Í gamla húsinu í Brekku stóð ég frammi í gamla fjósi við hliðina á byssuskápnum. Kveikti stundum á gömlum olíulampa í glugganum, hlustaði á Rás 1, oft með stórhríðina gnauðandi fyrir utan. Pappírinn límdi ég á gamla krossviðarplötu sem kom úr fjárhúsunum (hana nota ég reyndar ennþá).

Ég þyrfti að fara í gegnum myndastaflana mína til að muna nákvæmlega hvað ég var að mála á þessum tíma en mér finnst eins og það hafi mest verið myndir af bæjunum hérna í sveitinni. Og svo eflaust fjallahringurinn líka. En ég man samt vel eftir þegar það kviknaði í hárblásara í höndunum á mér þarna og ég þurfti að grýta honum út á hlað. En það er önnur saga.


Skyrtur prestins- máluð eftir ljósmynd frá Fríðu. Myndin fór svo á sýningu á Friðriki V í Reykjavík 2016. 

Eftir að við fluttum í Birkihraunið gat ég svo tekið heilt herbergi undir málningarvinnuna. Ég sagði Guðrúnu að ég ætlaði að kalla það Pompidou, eins og nýlistasafnið fræga í París. Þegar Guðrún svo ruglaðist og bað mig að fara með eitthvað dót inn í Hobbýdú, þá hlaut vinnustofan að sjálfsögðu nýtt nafni. Í Hobbydú stóð ég tímunum saman dagana langa og oft fram á nótt. Það er þarna sem mér finnst eins og ég hafi farið að ná aðeins tökum á þessu. Þarna kviknaði líka fyrst hugmyndin um að halda sýningu.


Að dunda í Hobbýdú, sennilega árið 2014.

Í október 2014 ákvað ég svo að láta slag standa og halda sýningu. Ég var reyndar smeykur við að gera þetta en var hvattur áfram, m.a. af Gene vini mínum og Guðrúnu. Við hengdum svo gamlar og nýjar myndir upp um alla veggi á heimilinu okkar og buðum sveitunga okkar velkomna. Mamma hjálpaði okkur að baka pönnsur, við smurðum rúgbrauð með silungi og helltum upp á kaffi. Það kom fullt af fólki- og sumir keyptu myndir. Þetta var yndislegur dagur. Sýninguna nefndi ég Bernskubrek og þið getið séð myndirnar með því að smella hér. Sýninguna tileinkaði ég Gene og hann var svo upp með sér að hann hringdi í mig á miðri sýningu og það þótti mér vænt um.


Skissa af Dagbjörtu Lóu að leika sér við Dalsgerðið.

Í desmeber 2015 var mér svo boðið að halda sýningu á Friðriki V í Reykjavík og ég lét slag standa. Ég fór að mála eins og andskotinn væri á hælunum á mér en vissi ekkert hvað ég ætti að mála. Mig langaði rosalega að hafa eitthvað þema en svo endaði þetta með því að myndirnar voru bara svona sitt lítið af hverju, héðan og þaðan. Þar sem ég lenti í svona miklum erfiðleikum með að finna efni á sýninguna fannst mér viðeigandi að kalla hana Krísa.

Ég var greinilega nokkur góður með mig og bjartsýnn með sölu, lét ramma inn 22 myndir. Ég sé það reyndar þegar ég skoða yfirlitið yfir myndirnar að þær hafa nú flestar selst. Þetta var frábær helgi, við förum suður með öll börnin og Guðrún hjálpaði mér að hengja upp. Það var mjög gaman að kynnast Friðriki og Öddu og veitingarnar og drykkirnir sem þau buðu upp á á opnuninni voru sem af öðrum heimi. Fullt af fólki mætti, vinir, kunningjar og einhver slatti sem ég kunni ekki deildi á. Ég lét svo Friðrik og Öddu fá eitt málverk fyrir allt umstangið og svo bættum við einni mynd við og fengum í staðinn máltíð sem ég gleymi seint eða aldrei. En yfirlit yfir sýninguna má sjá hér.


Kisuskissa frá Västerås.

Árið 2016 fluttum við fjölskyldan svo til Akureyrar og keyptum íbúð í Dalsgerði. Þá þrengdist um mig með áhugamálið og ég þurfti að fara að mála í stofunni. Það er ekki mjög hvetjandi til verka að þurfa alltaf að stilla öllu upp í byrjun og taka svo allt niður þegar maður er búinn. Þetta er hluti af skýringunni á því að ég hef ósköp lítið málað upp á síðkastið. Það kom þó skemmtilega á óvart að ég mjatlaði út einhverjum 3 myndum fyrir jólin og svo var salan í Dyngjunni á árinu bara vel viðunandi.

Þetta er orðið nokkuð gott í bili... ég bæti hér einhverju inn ef eitthvað margvert gerist hjá mér í listinni.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Útivera

Negri í Þistilfirði

Bikarmót #1 - 2023 - Recap