Fatakaup og umhverfisvernd
![]() |
Þar sem ég er trend-setter reikna ég með því að annar hver maður á Eyrinni verði farinn að ganga um í svona ullarlegghlífum fljótlega. |
Í vikunni birtist á ruv.is grein sem tengist fatasóun. Rætt er við Birgittu Stefánsdóttir sem er samstarfskona mín hjá Umhverfisstofnun. Gitta, eins og hún er gjarnan kölluð, hefur ekki keypt sér föt í sex ár, ef frá eru talin nærföt og sokkar. Í greininni fer hún aðeins yfir ástæður þess að hún ákvað að fara þessa leið og ræðir svo hvernig hún hefur farið að þessu.
Ég hef sjálfur verið í svipuðum pælingum, en eins og ég hef komið inná hérna á blogginu á maður aðeins erfitt með þetta þar sem maður þarf að ná að sameina þægindi, notagildi og endingu fatanna- án þess að líta út eins og asni. Kallið það hégóma, en ég hef gaman af fallegum fötum.
Nú sé ég fram á bíllausa mánuði eftir að við skilum bílaleigubílnum og þá fer ég aftur að hjóla bæinn þveran og endilangan. Ég þarf því að vera í fötum sem gott er að hreyfa sig í, þvælast ekki mikið í keðjunni og ég þarf að geta klætt af mér bleytu. Fataskápurinn minn er eiginlega ekki alveg reddý í þetta en það er samt í raun andstætt þessari hugmyndafræði að ég fari að losa mig við föt bara til þess að fá mér ný.
Það sjúka í þessu er kannski að mér finnst eiginlega eins og ég þurfi að fara að fylla upp í einhverja nýja ímynd. Bjarni sem ferðast um á hjóli, er umhverfisvænn en samt með sinn cool stíl. Að þessi nýji lífstíll krefjist einhverrar endurskilgreiningar og það þurfi að sjást utan á mér. Þetta gefur vísbendingar um að maður viti ekki alveg hver maður er og sé of upptekinn af því hvað öðrum finnst. En köfum ekki dýpra í það hér.
Annars hef ég komist að raun um að maður þarf andskotann ekkert að eiga mikið af fötum. Ég nota t.d. alltaf sömu stuttbuxurnar í ræktina og ég á bara 2 boli sem ég nota þar. Ég hendi þessu hvort sem er alltaf beint í vél þegar ég kem heim. Í raun ætti að vera nóg fyrir mig að eiga þrennan buxur, 3 skyrtur og 2 hlýjar peysur, auk nærfata, sokka og eitt sett af sparifötum (sem maður notar hvort sem er eiginlega aldrei). Síðan bara að kaupa sér skel sem nýtist svo líka í útivist.
Frelsistilfinningin sem fylgdi því að selja bílinn var býsna sterk. Ég hefði í rauninni aldrei trúað því hvað það fylgdi því mikill léttir. Eins fylgir því einhver léttir að hugsa til einfaldara lífs með færri lörfum í fataskápunum, minna af drasli í eldhússkápunum, með færri blaðabunkum og minna af drasli í geymslunni, drasli sem maður notar aldrei. Ég er staðráðinn í að halda áfram á þeirri braut að einfalda líf mitt.
Ummæli