Færslur

Sýnir færslur frá apríl, 2019

Þorvaldur í síld og Aliexpress

Mynd
Þessar Focus hjólabuxur fást í Hjólaspretti og kosta tæpar 19 þúsund krónur. Ég hef verið að skoða hjólafatnað upp í síðkastið og þá einna helst renndar stuttermatreyjur með vasa á bakinu og hjólabuxur eins og á myndinni. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekkert í þessum markaði. Buxurnar hérna fyrir ofan kosta um 19 þúsund krónur út úr búð hér á Íslandi og kosta það mikið í Bretlandi að ekki borgar sig að panta þær á netinu. Svo get ég farið á Ali Express og keypt svipaðar buxur á 2-3 þúsund krónur! Ég hef ekki mikla reynslu af Ali Express, en ég keypti þó buxur í Crossfit-ið þar, og þær hafa bara reynst mér alveg helvíti vel. Þá er spurningin afhverju ég ætti að eyða 8x meiri pening í að kaupa einhverjar buxur sem eru eitthvað merki? Er t.d. eitthvað garantí fyrir því að þessar buxur frá Focus hafi verið framleiddar við betri aðstæður og hafi minna vistspor? Ég er með opna innkaupakörfu á Ali núna og þar eru tvennar svona buxur, tvær renndar treyjur og langerma undirlag; allt...

Hjólaferð með Brynleifi.

Var heima með Brynleif veikan í dag. Hann var nú mest bara símanum en svo ákváðum við að nota tækifærið og skipuleggja hjólaferðina okkar í sumar. Hann mældi á korti og við ákváðum afþreyingu og matseðil í sameiningu. Það er mjög mikilvægt fyrir hann að við gistum aldrei á skipulögðum tjaldsvæðum. Svona lítur planið út núna: Dagur 1 12.00 Brottför 14.00 komnir í Kjarnaskóg (6,4 km) Leika Slappa af   Borða nesti (Djús, kex, banana (hálfgrænan), hnetur)). 16.00 Leggja af stað í Kristnes 18.00 Komum í Kristnes 6,7 km (total 13,1 km). 20.00 Kvöldmatur (Pylsur djús, sykurpúðar í eftirrétt með Nutella) 22.00 Fara að sofa Dagur 2 07.00 Vakna 08.00 Morgunmatur (Heitt kakó, brauð með hnetusmjöri, sultu og banönum) 10.00 Leggja af stað. 11.00 Hrafnagil í sund (3,0 km) 12.30 Hádegismat eftir sund (snarl) 14.30 Holtsel (7,2 km)    Borða ís 15.30 brottför 16.00 Grund (2,4 km) 16.30 Brottför 18.00 Melgerðismelar (5,3 km) + 17...

Hjólað í blíðunni

Mynd
Það sést vel á myndinni hversu aðframkominn af sól ég er. Myndin er tekin við Grundarkirkju. Skellti mér með HFA að hjóla í morgun. Ég var ekki alveg viss hvernig skrokkurinn myndi bregðast við þessu eftir gærdaginn. Í gær rúllaði ég 20 km og var aðeins orðinn þreyttur í bakinu þegar ég kom heim. En þessar áhyggjur voru óþarfar og ferðin í gær virðist bara hafa verið fín upphitun. Í dag fór ég rúmlega 47 km og fann ekki mikið fyrir því. Það munar kannski um það að hópurinn stoppar alltaf öðru hvoru til að þétta raðirnar og maður getur aðeins rétt úr sér. Já og svo erum við náttúrulega líka að "drafta", þ.e. að hjóla í röð og þá nýtur maður góðst af því að skiptast á að kljúfa vindinn. Á morgun ætla ég samt að hvíla hjólið og kíkja í Crossfit því æfing morgundagsins er geggjuð. Góð upphitun, svo smá styrkur og svo þessi hér: Helen 3 Umferðir 400 metra hlaup 21 Ketilbjöllusveifla 24/16 kg 12 Upphífingar

Múrvinnu lokið og Gráni viðraður í fyrsta skipti

Mynd
Fór að Kristnesafleggjara og til baka í fyrsta túrnum. Náði að klára múrvinnuna að mestu í gær. Átti einn poka af grófri múrblöndu og hún kláraðist alveg upp á gram. Það hefði verið gott að eiga smá í viðbót en ég reyni að redda mér á trefjamúrblöndu sem ég á smá slatta af. Það á bara eftir að loka 2 litlum skemmdum í gólfinu við útidyrahurðina niðri. Þórður kom og kíkti við og hjálpaði mér við þetta og þannig skítgekk þetta. Við kíktum síðan í mat í Duggufjöru og eftir það náði ég loksins að taka hring á nýja hjólinu. Ég hjólaði 20 km og hjólið er geggjað. Maður var aðeins farinn að finna í skrokknum þegar maður kom til baka en það er bara eðlilegt held ég þar sem ég hef ekki hjólað á racer síðan í september í fyrra. Er að spá í að skella mér einn hring með Götuhjólahóp HFA núna kl. 09.00. Hér fyrir neðan er mynd af steypta pallinum sem við Þórður löguðum í gær. Í dag ætla ég að reyna að fínisera múrinn á eftir og fúaverja vegginn hér að framan ef ekki rignir. Nú er bara ...

Meiri framkvæmdir

Mynd
Fannst þessi mynd svo skemmtileg af litla fuglafræðingnum mínum. Hann hefur mikinn áhuga á hröfnum. Finnst þeir miklu meira spennandi en fálkar. Eftir vinnu í dag eldaði ég folaldagúllas og bauð Þórði í mat. Brynleifur fór að gista hjá vini sínum og Dagbjört var því prinsessan í kofanum. Hún át mikið kjöt með fullt af rabarbarasultu og fékk svo saltstangir, kókómjólk og horfði á Youtube. Hún horfir endalaust á einhver myndbönd með litlum bleikklæddum stelpum leika með dúkkur og mála sig. Ég hef smá áhyggjur af þessu en hef ekki haft brjóst í mér til að stoppa þetta þar sem henni finnst þetta svo rosalega spennandi. Eftir að ég kom henni í háttinn fór ég út og hreinsaði allt rusl af neðri pallinum og háþrýstiþvoði alla veggi og gólf til að undirbúa fyrir múrverk og málningu. Guðrún tekur börnin kl. 15.00 á morgun og ætli ég verði ekki að byrja að múra þá þó mig langi hrikalega til að prófa hjólið. Var í sambandi við Þolla í gær varðandi hjólaferðina okkar. Við erum svona farn...

Múr

Mynd
Það er agalegt að vera með nýjan carbon racer á húsi þegar það er drullublíða eins og í dag. Ég man þegar maður var að vinna í Kísiliðjunni, hvað maður var með mikla minnimáttarkennd þegar kom að ýmsum viðgerðum, t.d. á vélum. Í þessu karlaveldi var alltaf talað eins og þetta væri eitthvað genetískt. Allir karlmenn kynnu á vélar og ættu að hafa gaman að þeim. Svo var híað og hlegið að fíflunum sem ekki vissu hvað hinn eða þessi slanga eða öxull hét. Maður þóttist stundum eitthvað vita um þetta og gerði sér upp áhuga á þessu en það var ekki fyrr en löngu seinna að maður áttaði sig á því að maður hefði nákvæmlega engan áhuga á þessu. Þetta var í raun sama sagan á Sniðli nema þar var maður að glíma við önnur verkefni. Meira að mála eða múra. Ég er þakklátur fyrir það í dag, sérstaklega að hafa unnið með múr. Það bjargaði mér þegar ég var að brasa á baðinu og nú þegar ég er að reyna að laga steypuskemmdir og stéttina hér fyrir framan. Mér finnst vinna við múr ekkert svo slæm, það er...

Focus Izalco Race 105

Mynd
Jæja ég hætti að nenna að velta mér upp úr þessum hjólamálum og kýldi bara á þetta í dag. Nú er ég 200 kallinum fátækari en með fullt af góðum réttlætingum á takteinunum, ekki að ég þurfi neitt á þeim að halda. Í morgun hringdi ég í Hjólasprett í Hafnafirði og fékk vinalegt viðmót og góða þjónustu. Það gerði útslagið og það endaði með því að ég fékk mér þennan þýskan fák; Focus Izalco Race með carbon stelli. Hjólið er 2018 módel og ég fékk það á rúmlega 82 þúsund króna afslætti. Það sem varð til þess að ég valdi þetta hjól á endanum var að það fær mjög góða einkunn fyrir stellið og með einhverjum uppfærslum er maður kominn á algeran killer racer. Ég ætti því að geta notað þetta næstu árin í sátt og samlyndi við guð og menn. Hér er videoreview á Izalco Race Sora sem er týpan fyrir neðan mitt hjól. Sama stell en lélegri aukabúnaður.

Það sem börnin sögðu

Ég er farinn að sjá eftir að hafa ekki verið duglegri við að skrifa niður gullkorn sem falla af vörum barnanna minna í gegnum tíðina. Brynleifur kom með eitt í kvöld. Dagbjört Lóa tók reyndar þátt í samtalinu og því ætla ég að skrifa aðdragandann líka. Dagbjört Lóa: Pabbi, hvað er það sem þú mátt stundum ekki borða (blessað barnið að orðið ruglað á þessum ketó-tilraunum). Pabbi: Stundum borða ég ekki nammi Dabjört Lóa: Já nammi er óhollt. Pabbi: Og svo vitið þið að ég drekk aldrei brennivín. Brynleifur: Já það er eins gott að þú drekkir ekki brennivín því annars værir þú alltaf að lúskra á okkur!

Páskafrí

Þá erum við börnin komin heim eftir frábæra daga hjá afa og ömmu í sveitinni. Brölluðum ýmisslegt skemmtilegt. Svona utan við að borða endalaust fórum við í sund á Laugum, ég fór með systrum mínum í ræktina, fórum í ævintýraferð út að fjalli og Brynleifur fékk aðeins að hitta Heimi. Að sjálfsögðu fórum við líka nokkrum sinnum í fjárhúsin og að ná í egg í hænsnakofann. Já það má ekki gleyma því að það komu líka lömb!! Nú erum við komin heim aftur og ég er að fara að skella mér í crossfit. Á meðan ætla ég að leyfa börnunum að hitta mömmu sína þar sem hún á ekki eftir að vera með þau fyrr en eftir heila viku. Ég er búinn að liggja í hjólapælingum um páskana og bíð en eftir svari frá Erninum um hvort þeir eigi ódýran racer fyrir mig. Mér sýnist að þeir þurfi reyndar að gera mér mjög gott tilboð því Ofsi hjól eru að selja Orbea Avant H30 sem er nokkuð vel "spekkað" hjól á sama verði og í flestum Evrópulöndum. Samkvæmt heimasíðunni hjá Hjólaspretti er líka til þýskur Focus race...

Afmæli Dagbjartar Lóu

Mynd
Dagbjört Lóa orðin 4 ára. Í dag eru 4 ár síðan þessi skotta kom í heiminn. Ég man að sjálfsögðu daginn mjög vel enda aðdragandinn nokkuð krassandi. Fylgjan var mjög lágsæt og því varð að taka hana með keisara fyrir tímann. Ef Guðrún hefði farið af stað hefði verið hætta fyrir hendi og því dvöldum við á Akureyri vikuna fyrir aðgerðina. Eftir einhverjar smá blæðingar var svo aðgerðinni flýtt en meira- en allt gekk þó vel að lokum. Ég verð nú að viðurkenna að fyrir föður er mun rólegra að fylgjast með keisaraskurði en slíkt inngrip er ekkert grín fyrir mömmuna fyrstu dagana á eftir. Þá kemur nútíma pabbinn sterkur inn í bleyuskiptin og allt það. Ég var mikið með henni fyrstu vikuna og fannst það mjög dýrmætt. Í morgun labbaði ég niður í Aðalstræti til að færa henni pakka. Ég keypti bleika Nike skó og þeir vöktu að sjálfsögðu mikla lukku. Guðrún steikti lummur og við fengum okkur morgunkaffi. Svo var veisla í kvöld þar sem vinir og fjölskylda komu saman og átu pizzu og köku. Yndisle...

Hjólaseinkun

Mynd
Canyon Endurance AL 6.0. Hringdi í Örninn í gær til að tékka á því hvenær væri von á hjólinu og fékk þær hræðilegu fréttir að það kemur ekki til landsins fyrr en 31. maí. Ég fór fyrst í fýlu og ætlaði að fara að skoða einhver önnur hjól en þeir ætla að gefa mér einhvern smá meiri afslátt- svo ég ákvað að láta þetta yfir mig ganga. Ef ég hefði pantað mér annað hjól hefði það alltaf orðið dýrara, það hefði tekið sinn tíma að fá það afhent líka og mér leist bara svo helvíti vel á þetta Trek ferðahjól. Þetta mun eitthvað setja strik í reikninginn varðandi hjólaferðina til Svíþjóðar. Ég get þó lágmarkað "tjónið" með því að redda mér öðru hjóli til að hjóla á fram að júní. Þetta snýst ekki bara um að vera kominn með lappirnar í form, heldur verður maður að venjast því að sitja í hnakknum löngum stundum. En ég veit ekki alveg hvað ég geri í þessu. Á ég að redda mér gömlum racer, á ég að finna mér innanbæjargarm eða á ég að finna mér cyclocross hjól? Á ég að kaupa mér ódýrt, f...

Eirðarleysi

Vaknaði fyrir klukkan 9 í morgun og átti notalega stund í bælinu með kaffi, Rás 1 og fartölvuna. Ætlaði svo að detta í lestur en veðrið var með besta móti svo ég ákvað að skella mér frekar í sund. Það var slatti í lauginni og eiginlega bara hálfgerð Ibiza stemmning. Kannski ekki alveg eðlilegt að fólk sé farið að sóla sig í miðjum apríl en ekki annað að gera en bara að njóta þess. Eftir sund skellti ég mér heim og eldaði léttan hádegismat og aldrei þessu vant fékk ég engan frið fyrir símanum. Fyrst hringdi mamma, svo pabbi, þá Jens og svo Skarphéðinn. Þar sem maður hefur verið svolítið einmanna á köflum í þessu nýja piparsveinalífi finnst manni vænt um að vita að einhver sé að hugsa til manns. Mamma og Egill kíktu svo til mín um tvöleitið og við skelltum okkur í fermingaveislu hjá Birki syni Önnu og Begga. Næs að hitta familíuna, sólin skein í heiði og veitingarnar ekki af lakara taginu. Að sjálfsögðu át maður eins og svín. Eftir veisluna kíktum við Þórður svo á leik og átum pylsur...

Mataræði og endurmenntun

Mynd
Ég hef oft ætlað að taka "fyrir og eftir" myndir af mér þegar ég hef lagt af stað í eitthvað átak en aldrei látið verða af því, fyrr en nú. Annan febrúar ætlaði ég að byrja í hörðu ketó en hef ekki alveg náð að halda mér við það. Ég hef samt að mestu borðað hollt og þegar mig hefur borið út af leið hefur það samt aldrei orðið til þess að ég leggi alveg árar í bát. Og nammi hef ég eiginlega ekki snert. Svindlið hefur frekar tengst kökum í vinnunni og kótilettum í raspi. Nú er ég að koma úr 3 daga vinnuferð í Reykjavík og þar missti ég mig í allskonar vitleysu en þrátt fyrir það reyndi ég alltaf að hafa það í huga að fá mér líka alltaf vel af grænmeti og próteini með. Í morgunmatnum (sem ég er vanur að sleppa heima) á Grand Hótel byrjaði ég líka alltaf á stútfullum diski af korni, fræum, múslí, hreinni súrmjólk og ávöxtum, en leyfði mér svo að fá mér vöfflu á eftir. Og í staðinn fyrir að hreyfa mig ekki neitt þá skellti ég mér í ræktina á hótelinu. Um leið og ég kom svo ...

Staddur í borginni.

Er staddur í borginni en allur tíminn fer í námskeið og vinnu. Ætlaði að blogga eitthvað stórmerkilegt en dettur ekkert sérstakt í hug. Nema kannski að mæla með Mathöll Höfði ef ykkur langar í eitthvað gott að borða í henni Reykjavík. Flottur gæða-skyndibiti og skemmtileg stemmning. Heyri ekkert frá Erninum. Ef þeir verða ekki búnir að girða sig í brók fljótlega langar mig að panta mér Surly Disc Hauler frá USA. Er bara hræddur um að það verði óþarflega dýrt.

Meiri skíði

Mynd
Kominn í Strýtuna Veðrið hefur leikið við okkur norðankúkana upp á síðkastið. Ég og Þórður ákváðum því í gær að nýta tækifærið og renna okkur á tunnustöfum. Þetta var Geðveikur dagur með stóru G-i. Færið var frábært, sólin bakaði okkur og það var engin bið í lyfturnar. Eftir þetta fórum við heim og hentum lambabógi í ofninn og skottuðumst svo í sund á meðan hann var að eldast. What a day! Börnin eru komin til mín og verða fram á þriðjudagskvöld en þá er ég að fara suður til Reykjavíkur. Vinn þar fram að helgi en er með opinn miða heim svo ég veit ekki alveg hvað teygist úr þessu hjá mér. Veit ekki hvort ég á eftir að hafa eirð í mér til að lufsast einn í Rvk. Var að fá fréttir frá Erninum að hjólið mitt hefði ekki komið með gámnum sem var að lenda. Ég er að verða vægast sagt þreyttur á þessari þjónustu en ætla að gefa þeim smá séns í viðbót áður en ég fer að panta mér einhverja aðra tegund af hjóli. Ef hjólið hefði verið komið hefði ég örugglega tekið mér smá hjólafrí í Reykja...

Listin

Mynd
Strákur og stelpa - Kristján Davíðsson 1950 Fór í bíltúr í dag með Þórði í sólinni. Sunnanþeyr, sól í heiði og álftir og gæsir farnar að hamast á sverðinum. Tókum eitthvað af myndum af hrauni, vatni og öllu þessu drasli, þessari helvítis óreiðu sem mývetnsk náttúra er. Stoppuðum í Vogafjósi og ræddum myndlist og ljósmyndun. Það var gott að ræða aftur listir og það kom löngun yfir mig að fara að mála aftur. Langar að mála grófar, drungalegar og brútal vatnslitamyndir. Og svo dreymir mig um að mála stórt abstract verk í stofuna hjá mér. Verk í miklum litum. Í tilefni af þessari óvæntu heimsókn Músu birti ég hér mynd eftir Kristján Davíðsson frá 1950 sem er snilld.

Sól í sinni

Á einhvern óskiljanlegan hátt er en ein vikan þotin hjá. Ég var búinn að ætla að nýta barnlausa tímann í að fara í gegnum eitthvað drasl, henda og sortera. Jafnvel að þrífa svifryk og drullu utan af húsinu. En það varð nú s.s. ekki mikið úr því. En ég tók samt snúning á moppunni í gær, gekk frá og þreif klósettin. Annars bara hafði ég það gott, át góðan mat og slakaði á. Ég tek börnin aftur á sunnudagskvöldið en fer svo suður á miðvikudagsmorgun í næstu viku til að sitja námskeið sem heitir Samræður í umhverfis- og auðlindamálum.  Ég er með opinn miða til baka og aldrei að vita nema maður dvelji fram á helgina. Ég tek svo börnin aftur á Skírdag og þau verða hjá mér í 11 daga straight! Ég er búinn að senda 2 tölvupósta á Örninn í vikunni til að reyna að draga upp úr þeim hvort einhver von sé til að maður geti nálgast hjólið í næstu viku, en það gengur ekkert að ná af þeim. Ég er að verða vægast sagt þreyttur á þessu og hugsa að þetta hjól verði fyrstu og síðustu viðskipti sem ég...

Skíði, pylsur, beikon og finnskur krimmi

Mynd
Ville Virtanen leikur rannsóknarlögreglumanninn Kari Sorjonen. Ég og Þórður skelltum okkur á skíði upp í Hlíðarfjalli í gær, sem var fínt, en við frændur gerðum þó ein stór mistkök; við klæddum okkur ekki nægilega vel. Það er alltaf eins og maður sé að gera þetta í fyrsta skipti. Maður hefði alveg getað sagt sér það áður en maður fór af stað, að næðingur og nokkura stiga frost er einmitt ágætt uppskrift af því að pungfrjósa í stólnum. Maður situr stóran hluta af tímanum kyrr og það er skárra að vera of heitt en of kalt. Ég var meira að segja með hálfbera kálfana þar sem ég náði ekki buxunum yfir klossana- þvílíkur amateur. Næst verð ég í dúnúlpunni. En færið var fínt, gaman að renna og við skemmtum okkur ágætlega. Eftir þetta skelltum við okkur heim, steiktum pylsur, beikon og sveppi og horfðum á United tapa fyrir Úlfunum, sem er alltaf gott. Eftir það kíkti ég svo á einn þátt af Boardertown , sem eru finnskir sakamálaþættir á Netflix. Þetta eru mjög efnilegir þættir, vel le...

Húsmæðraorlofsvika hafin

Mynd
Benedict Cumberbatch á stórleik í Brexit - The Uncivil War Jæja þá eru börnin farin til mömmu sinnar og ég búinn að prufukeyra piparsveinalífið í einn dag. Þetta var allt með hefðbundnu sniði; vinna, rækt, borða, fréttir og almenn afslöppun. Síðan svaf ég draumlausum svefni og rumskaði ekki fyrr en klukkan að verða hálf átta í morgun. Það er hryssingsveður hérna á Akureyri í dag með skafrenningi og kulda. Spáin gerir þó ráð fyrir að það lægi seinnipartinn og dragi frá sólu. Er að spá í að kíkja í fjallið með Þórði eftir vinnu og svo éta eitthvað gott. Horfði á myndina Brexit með Benedict Cumberbatch í aðalhlutverki í gærkvöldi. Mæli eindregið með henni. Í myndinni er gefin innsýn inn í það hvernig Brexit sinnum tókst að vinna áróðursstríðið með notkun stafrænnar tækni og samfélagsmiðla. Sannarlega mynd sem fyllir mann svartsýni á framtíð mannkynsins og að hið góða muni sigra hið illa að lokum.