Færslur

Sýnir færslur frá mars, 2010

Tiger Woods

Mynd
Kettir eru oft mjög sérstakir karakterar. Þótt kisan okkar sé ekki gömul þá er hún komin með ansi sterk karaktereinkenni. Eins og margir kettir gera, þá er hún farin að bera björg í bú. Sem betur fer er það samt ekki eins og með flesta ketti sem koma inn með mýs og fugla heldur eru laufblöð í mestu uppáhaldi. Hún lætur sér ekki nægja að gera það heldur hefur hún komið inn með kex, snakkpoka, tóman brauðpoka og eitthvað fleira drasl sem ég man ekki í augnablikinu. Síðan eru það rútínurnar og hver morgun er öðrum líkur. Hún bíður eftir að henni er hleypt inn, brýnir klærnar á teppinu við símaborðið, geyspar letilega og fylgir mér svo hvert fótmál. Já manni fer að þykja vænt um þessi helvítis kvikindi. Myndirnar sem ég birti hérna af henni tók Guðrún um daginn. Hún lagði sig í sófanum og þegar hún rumskaði og leit upp, þá lá kisa líka í þessum ægilegu makindum eins og ekkert væri sjálfsagðara. Kveðja, bJaRnI

Meiri uppskriftir

Þættinum hefur borist uppskrift af ljúffengum beitukóngi. Það er aldrei að vita nema að ég geti reddað ykkur beitukóng ef ykkur langar að prófa. Uppskrift að beitukóngi: Geoff Foale frá Devon sendi þessa uppskrift inn, en hann fékk hana hjá gömlum sjómanni frá Salcombe fyrir 30 árum. Hún er leiðbeining um það hvernig bezt er að matbúa beitukóng. Sjóðið beitukónginn í 15 mínútur. Þegar kuðungurinn er orðinn kaldur er snigillinn losaður úr honum. Skerið hann niður í þunnar sneiðar á skurðarbretti úr við, helzt úr eplatré. Stráið fínt saxaðri steinselju yfir, salti og nýmuldum pipar. leggið rakan klút yfir og geymið í kæli í tvo daga. Eftir það er kuðungurinn settur í bréfpoka og hent í ruslið. Borðið síðan brettið. Það mun bragðast betur og er mýkra undir tönn en beitukóngurinn. Hjörtur Gíslason, Morgunblaðið, 24 ágúst 2005 Kveðja, Bjarni

Heimsspeki

Ég hef heyrt það að Jón Bjarnason hafi nú þegar hafið aðför sína að landsbyggðinni. Best að pakka niður og flytja á mölina. Kveðja, Bjarni

Slow Cook

Mynd
Frændfólk mitt gaf mér um daginn forláta pott sem kallast Slow Cook. Hugmyndin á bak við slíkt apparat er að maturinn fái hæga og langa "eldun", hráefnið verði meirara og útkoman bragðmeiri. Eldun tekur að jafnaði 6-12 klst og það er víst hægt að elda í þessu allan fjandann, súpur, kássur, kjúkling og Kaninn er mikið fyrir svo kallað pot-roasts. Það var víst The Naxon Utilities Corporation of Chicago sem framleiddi svona apparat fyrst en ég held að grunnhugmyndin af svona eldamennsku sé væntanlega mörg þúsund ára gömul. Ég fór hægt af stað í þessu en er að taka mig á og læra inn á þetta. Ég hef eldað hafragraut sem verður reyndar hrikalega linur (eldaði hann yfir nótt), grjónagraut sem þarf að fylgjast vel með (og varð reyndar voðalega linur), baunasúpu sem heppnaðist ágætlega og svo í kvöld, kjötsúpu sem var alger snilld. Á veraldarvefnum úir og grúir af uppskriftum fyrir svona potta. Ég hef nú ekki prófað neina af þeim ennþá en ef maður notar venjulegar uppskriftir þarf mað...

Frat

Verð að lýsa yfir frati á þetta "eldgos" sem var að hefjast. Ef maður vissi ekki betur þá héldi maður að þeir hjá sjónvarpinu hefðu búið til þessar fréttamyndir með hvítum kartonpappa og eldspýtum. Það er til mikils fyrir heimamenn undir jökli að hafa verið með skítinn í brókunum síðan 1994 fyrir þetta smá fruss. Þetta er eins og að fá smá forleik og vera svo sparkað úr rúminu. Hvar eru flóðin, hvar eru sprengingarnar, hvar er öskufallið og hvar eru líkin? Nei þetta er ömurlegt og kemst inn á topp 5 listann hjá mér yfir lélegustu eldgos jarðsögunnar. Kveðja, Bjarni

Kántrý frændi minn

Mynd
Ég var í ættfræðigrúski áðan og komst þá að þeirri mikilvægu staðreynd að Hallbjörn Hjartarson er frændi minn. Og það nokkuð meira en almennt gerist milli manna sem deila frændskap. Þetta er sannkallaður skyldleikafrændskapur og erfðafræðilegt kraftaverk, enda við báðir mjög svipaðir. Afi minn, Ingimar Einarsson og Hallbjörn voru hvorki meira né minna en fjórmenningar og hafiði það. Þetta þýðir líka það, ef ég reikna rétt, að Linda sem er að vinna með mér og hann Jónas pabbi minn eru fimmmenningar. Pabbi lindu var bróðir Hallbjarnar. Síðan ég kom á Skagaströnd í fyrsta skipti fyrir einu ári hef ég oft nefnt það að ég vilji taka við Kántrýbæ og útvarpinu. Nú hreinlega verð ég bara að gera það enda maðurinn svo gott sem faðir minn. Kveðja, Bjarni Ps. Myndina fann ég á erlendri síðu. Á myndinni með frænda eru einhverjir áttavilltir vesalingar.

Hagsmunasamtökin

Fékk póst frá Hagsmunasamtökum heimilanna og langaði til að birta hluta úr þeim pósti: Ríkisstjórnin kynnti í gær umfangsmiklar aðgerðir vegna "skuldavanda heimilanna" (er í raun innheimtuvandi fjármálafyrirtækja). Hagsmunasamtök heimilanna fagna mörgu sem þar kemur fram, en taka skýrt fram að þessar aðgerðir, sem eru skref í rétta átt, eru á engan hátt fullnægjandi til að lina þjáningar, bæta það tjón og forsendubrest sem heimili landsins urðu fyrir vegna fjárglæfra stjórnenda fjármálafyrirtækja, meingallaðrar efnahagsstjórnar og eftirlits. Ekkert í aðgerðum þriggja ríkisstjórna hefur falið í sér neitt til að leiðrétta óréttláta og stökkbreytta hækkun höfuðstóls lána heimilanna. Vandséð er hvernig þessar aðgerðir leiði til sátta í samfélaginu eða enduruppbyggingar hagkerfisins. Afskaplega vel orðað allt saman og pent. Látum ekki endalaust troða á okkur, skráið ykkur í samtökin. Kveðja, Bjarni

Var.....

Mynd
að setja inn hlekki hér til hægri á síðunni sem leiða ykkur á biopol.is. Einnig setti ég hlekk inn á myndaalbúmið okkar úr vinnunni. Ástæðan fyrir því að ég geri þetta er svo Halldór geti skoðað nóg af myndum úr vinnunni minni. Hann hafði jú svo gaman að síðasta albúmi sem ég setti inn. Kveðja, Bjarni Ps. Áfram BioPol. Myndin er af Halldóri yfirmanni mínum og var hún tekin þegar við fórum í rannsóknarleiðangur á síðasta sunnudag.

Karlakórar

Eins og ég gat um hér í fyrri pósti, þá fór ég á karlakóratónleika um síðustu helgi. Um var að ræða samsöngstónleika Karlakórsins Heimis sem eru Skagfirðingar eins og flestir vita og Karlakórs Reykjavíkur sem fyrir einhverja tilviljun koma frá Reykjavík. Gjörningurinn fór fram í Miðgarði sem nú hefur verið uppgerður og réttnefndur menningarmiðstöð Skagafjarðar. Það er óhætt að segja að ég hafi farið á tónleikana með miklar væntingar. Það er ekki á hverjum degi sem manni gefst tækifæri á að hlusta á 12 tonn af spiki og kjöti þenja sver raddböndin þar til testósterónið úðast yfir fremstu bekkina. Ég verð reyndar að viðurkenna að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með Karlakórinn Heimi því að eftir vandlega talningu þá komst ég að því að aðeins 6 sköllóttir karlmenn syngja með kórnum. Í Karlakór Reykjavíkur voru 6 sköllóttir bara í efstu röðinni. Það er ljóst að þetta er nokkuð undir stöðlum sem segja jú að tala sköllóttra megi alls ekki fara undir 4 per/röð í fullskipuðum kór. Allavega þei...

Belís

Mynd
Nú er búið að bera í hús nýja bæklinginn frá Belís Heilsuvörum. Um er að ræða stórfenglega lesningu og úrvalið er ótrúlega gott. Ég hef verið mikill aðdándi þessara bæklinga og blóta því oft að vera ekki fjáðari þegar þeir detta inn um lúguna. Ég tók saman brot af því besta. Á forsíðunni er "hagnýt" leður handtaska. Hugsið ykkur, hagnýt taska, hvað hef ég verið að vesenast með... óhagnýtar töskur hingað til? Eyrnahreinsitæki og stíflu-gufusprautari til að setja að vitum sér og losa stíflur. Masterpís. Ef þú hefur gaman að lesa bækur sitjandi við borð, kauptu þér þá stillanlegt lesborð. Einnig þægilegt við að ráða krossgátur. Stifti til að bera á gleraugu, eyðir rispum. Bíddu hvað kemur í staðinn? Byltingarkenndur snúnings- sætispúði í bíla. Hver hefur ekki átt erfitt með að fara inn og útúr bílnum? Á myndinni er ung kona. Það þurfa allir á þessu að halda. Sindrandi segularmband með 1200+ Gauss krafti. Ekki fyrir fólk með gangráð. Vá kaupa núna. Gigaman krem fyrir karlmenn. St...

Vinnan göfgar............... já já örugglega

Mynd
Var á tónleikum með karlakórum, mjög gaman, margt að segja blogga seinna. Var að setja inn albúm með myndum af nýju rannsóknaraðstöðunni okkar í vinnunni. Synd og skömm að við gleymdum að taka myndir áður en þessu var breytt. Þarna var ekkert að sjá nema mínus allt það sem er komið þarna inn núna. Þó vantar blóm og myndir á veggina. Þarna erum við komin með öll helstu tæki til rannsóknar á öllu milli himins og jarðar, ofna, -80°C frystiskápa, skilvindur, hristiskápa, stinkskápa, smásjá, víðsjá og bara nefnið eitthvað. Það er til hjá okkur. Ef það er ekki hjá okkur þá þarftu ekki á því að halda. Ekki er þó öll sagan sögð og ég gæti bætt inn fleiri myndum seinna. Góða nótt. Kveðja, Bjarni Ps. Til gamans má geta að húsið sem rannsóknaraðstaðan er í hét áður H59 og var hraðfrystihús.

Svínakjöt?

Mynd
Ég skammast mín nú eiginlega fyrir að segja frá því en ég var að leggja mér svínakjöt til munns. Ég veit að nú liggur fjallkonan einhversstaðar í leyni með kúbein og mun sjálfsagt reyna að ráða mér bana fljótlega. Megi laukur falla á hausinn á mér á óheppilegum tíma á ævi minni. Það verður nú samt að viðurkennast að þetta var ekki svo slæmt. Kjötsneiðar fyrir alla fjölskylduna á 900 kr. Nokkrar gufusoðnar kartöflur, köld sósa úr sýrðum rjóma með hvítlauk og kryddum og ferskt salad. Þetta hefur verið máltíð á ca. 300 kr/mann. Ekki svo slæmt á krepputímum. Byrjaði á því að sinna brengluðum þörfum mínum með því að lemja kjötið með hamri, kryddaði það með svínakjötskryddi, season all, svörtum pipar og ferskri steinselju. Skelltum þessu á pönnu og kláruðum steikinguna með lokið á til að fullelda þetta örugglega. Annar er ég bara góður. Þó er ég með smá sár í gómnum, stíflaða nös og mætti skulda minni pening. En það er ekki hægt að biðja um allt. Kveðja, Bjarni Ps. Myndina fékk ég upp þegar...

Hagsmunasamtök

Ég var að enda við að skrá mig í samtök. Fyrst fór ég inn á heimilin.is og skráði mig í Hagsmunasamtök heimilanna. Því næst fór ég inn á gandri.com og skráði mig í hagsmunasamtök lánþega. Þetta eru góð og gegn samtök sem af mikilli hugsjón berjast gegn óréttlætinu sem heimilin í landinu og skuldarar þurfa að búa við. Það er með ólíkindum að ekki fleiri Íslendingar séu skráðir í þessi samtök. Flest skuldum við jú peninga. Ég vilj hvetja alla til að fara inn á þessa vefi og skrá sig, það kostar jú ekki neitt. Kveðja, Bjarni