Færslur

Sýnir færslur frá nóvember, 2015

Sýning á morgun

Síðasta kvöld fyrir sýninguna mína. Ég er eitthvað að reyna að melta þetta. Ég átta mig ekki á því hvort þetta muni hafa einhverjar breytingar í för sér- en þetta verður allavega gaman. Ég er samt sultu slakur yfir þessu og ekki kvíðinn. Ég held að það þýði að myndirnar séu ágætar. Það eina sem ég hef áhyggjur af er að úti snjóar og snjóar. Það gæti orðið til þess að eitthvað af fólki sitji heima á morgun, auk þess sem allar ferðir og snatt fram og til baka taka mikið mikið lengri tíma. Þetta kemur í ljós. Góða nótt.

Nafnspjald- próförk

Mynd
Hér er próförkin af nafnspjaldi sem ég sótti í prentun í gær. Maður verður að hafa eitthvað liggjandi frammi á sýningunni. Það var Dagbjört Lóa sem varð fyrir valinu. Annars vorum við í Borgarnesi í nótt og erum að fara að leggja í hann til Reykjavíkur á eftir.

Þær gengu aftur

Mynd
Eftir langa bið og lítið málerý ganga lóurnar aftur og nú á hræódýran skissupappír. Kannski verður lóan mín Herðubreið. Verði hún það, þá læddist hún aftan að mér. Þetta byrjaði með því að við fengum eina í brúðkaupsgjöf sem er alltaf í stofuglugganaum. Síðan fóru þær að umkringja húsið okkar. Það er alltaf svakalegt lóuþykkni sem umlykur okkur. Síðan eignuðumst við Dagbjörtu Lóu. Nú ganga þær aftur í málverkum og einhverra hluta vegna við sjóinn. Kannski ganga þær næst aftur inn til landsins og herja á hálendið.

Sýning

Mynd
Nú legg ég af stað suður á morgun með sýninguna mína. Við förum öll fjölskyldan og verðum í nokkra daga. Opnunin er á laugardaginn 28.nóv milli kl. 13-15. Ég er furðu rólegur yfir þessu. Auðvitað verður gamli Zetor með í för. Ég hlakka til að sjá hann í ramma.

Furðulegt atvik

Það verður víst lítið um málerí í kvöld. Það stórfurðulega atvik henti mig í kvöld, að þegar ég var rétt í þann mund að bleyta upp í pallettunni minni, og taka til Petit gris da Vinci pensilinn minn, kemur þá ekki fljúgandi auðnutittlingur út úr lampanum mínum og lendir beint í andlitinu á mér. Ég steinrotaðist og það næsta sem ég veit þá var ég búinn að fara á bókasafnskvöld í Skjólbrekku en kominn aftur heim og byrjaður að horfa á Broen og byrjaður að éta popp sem var poppað upp úr kókosolíu. Svona gerast slysin.

Fjallið

Mynd
Fjallið góða enn eina ferðina. Ég er ekkert óánægður með þessa mynd en velti fyrir mér hvort ég ætti að hafa annan forgrunn. Svolítið gott að mála aftur.

Jólakort

Mynd
Var að fara í gegnum gamlar myndir sem ég hef látið skanna áður en þær hafa farið í innrömun. Ég get notað eitthvað af þeim í jólakort. Ætli ég verði ekki með 5 mismunandi jólakortamyndir í ár. Fékk eina senda frá prentstofunni í gær sem ég mundi ekki eftir að ég hefði látið skanna. Mynd af Belgjarfjalli á óræðum árstíma. Var nú með vor í huga þegar ég málaði hana. Ég er bara ánægður með þessa mynd- hún vinnur á. Birkir Karlsson á hana og er vonandi ánægður með hana.

Lítill tími til að blogga..

en þá bjargar maður sér fyrir horn með gullinni setningu frá Christopher Hitchens What can be asserted without evidence can be dismissed without evidence. ― Christopher Hitchens

Hrakningar og heiðarvegir

Ég hef verið að lesa Hrakningar og heiðarvegi sem Pálmi Hannesson rektor og Jón Eyþórsson veðurfræðingur tóku saman um miðja síðustu öld. Ég hef ægilega gaman af því að lesa þetta og er hálfnaður með bók númer tvö, ég held að þá eigi ég 2 eftir. Ég les þetta yfirleitt í sófanum og hef þá gjarnan við höndina stóra kortabók til að skoða staðhætti- það gefur sögunum aukinn kraft og maður fræðist um landið sitt í leiðinni. Eins og nafnið gefur til kynna, er í bókunum lýst allskyns hremmingum á fjöllum, í göngum og öðrum ferðalögum. Það er ótrúlegt að lesa hvað lífsbaráttan hefur breyst mikið á skömmum tíma. Það er t.d. ekki langt síðan fólk var að hætta sér fótgangandi eftir lyfjum milli byggðarlaga um hávetur, kannski til að bjarga ástvini. Fólk varð einnig oft úti á leiðinni til eða frá skemmtunum. Stundum sekkur maður svoleiðis ofaní söguna að mann langar helst til að fara og leita uppi staðinn þar sem voveiflegir atburðir gerðust til að svipast um og á einhvern hátt til að votta þ...

Scrambled signal

Hrakningar og heiðarvegir verða sköpun yfirsterkari í kvöld. Kannski villist ég á réttar brautir.....

Frost

Mynd
Sköpunarbrunnurinn hefur verið botnfrosinn síðustu daga. Ætlaði að kippa því í lag og gerði þessa mynd með allt of stuttu Bláfjalli. Ég læt þetta nú samt nægja af föndri í dag

Sekur

Mynd
Kveikið endilega á videoinu áður en þið lesið: Það var eitt sinn gamalmenni sem sat í silfruðum hjólastóll með rauðköflótt ullarteppi við arineld. Það færði sig alltaf nær og nær, enda hitinn notalegur og góður fyrir stirða og bólgna liði. Að lokum freistaðist það til að stinga löppunum alveg inn í eldinn. Við það læstist eldurinn í teppið og skyndilega stóð gamalmennið í ljósum logum eins og kyndill á tunglbjartri nóttu. Úr gömlum grammafóni í horni stofunnar hljómaði lagið Guilty með Ellu Fitzgerald. Pakkarnir undir tréinu verða að bíða um sinn.

Muuuu

Mynd
Hef ekkert verið að gera síðustu daga. Málaði reyndar í kvöld í tengslum við jólaverkefni sem ég er með. Ætli ég sé ekki með svona 4-5 myndir sem ég þarf að klára og má því ekki slaka á of lengi. Málaði þessa flippuðu mynd um daginn í tengslum við aðra mynd- sem var af lóum og verður á sýningunni. Muuuu

Jochumsson

Lá í baði í kvöld og fékk hugmynd af málverki. Matthías Jochumsson með eldvörpu að brenna golfvelli í Kaliforníu. Þegar baðinu lauk var Guðrún búin að slökkva allt niðri þannig ég ákvað bara að taka á mig náðir. Þetta bíður betri tíma.

Fréttir

Það er allt sæmilegt af okkur að frétta. Veðrið í haust hefur verið frábært og ekki yfir því að kvarta og börnin vaxa en garðurinn visnar. Allt eftir bókinni. Þurfum að fara að taka inn garðslönguna. Vetrardekkin eru samt komin undir bílinn og við getum látið eins og við höfum stjórn á aðstæðum á vegum úti. Í nótt vaknaði ég við hvininn úr Bjarnarflagsborholunum. Ég lá andavaka um stund. Mér fannst eins og ég væri ólaður niður í geymflaug sem væri að fara af stað. Hvinurinn var svo öflugur að mér fannst ég finna rúmið titra. Ég lá með opin augun og starði upp í þykkt náttmyrkrið. Þegar ég hafði starað um stund fannst mér ég sjá stjörnur og þá fannst mér allt í einu eins og ég lægi uppá húsþaki í grískum smábæ að næturlagi. Ég bylti mér í rúminu og skrjáfið í sænginni kom mér aftur til Íslands- og í rúmið mitt. Nú fékk ég allt í einu á tilfinninguna að það væri gulbröndóttur köttur á svölunum- en ég vissi ekki hvað hann ætti s.s. að vera að gera þar. Ég staulaðist á lappir og kíkti ...

Hugleiðsla

Mynd
Ákvað að gera 2 mjög frjálslegar myndir í kvöld. Engin forskrift af þeirri fyrri en hafði eina Öskjumynd frá Agli sem fyrirmynd í hina. Teiknaði ekkert og reyndi bara að láta þetta koma átakalaust.

Ritstörf

Nú hef ég tekið mér 3 daga hvíld frá vatnslitun en er að hugsa um að gera eitthvað á eftir. Langar að gera eitthvað meira frjálsegt í anda við lóurnar sem ég gerði síðast. Annars fór ég með allar myndirnar til Akureyrar á föstudaginn, lét skanna þær og valdi ramma. Ég held að þetta verði ágæt sýning. Annars hefur sótt töluvert á mig að skrifa eitthvað uppá síðkastið en ég kem mér ekki í það. Ég er með hugmyndir fyrir smásögur og jafnvel prósa en það er svo djúpt á því að ég þarf eiginlega að loka mig alveg af til að ná einhvejru fram. Þetta er eins og pússluspil sem hringsnýst í hausnum á mér og ég þarf að einbeita mér við að ná í eitt og eitt og raða því saman í einhverja heild. Það verður því líklega ekki mikið úr því á næstunni.