Færslur

Sýnir færslur frá júní, 2011

Landsmót 50+

50-60ára 60-70ára 70-80ára Látnir
Afhverju er ég alltaf á þessum hlaupum? Ég held það sé vegna þess að ég get það. Ég hef ekki komist nær því að skilja þetta. Svo bara fer maður smám saman lengra og lengra án þess að vita hvar endamarkið er. Fór út í Varmahlíð í gær, stillti á krúsið og yfirgaf líkamann. Merkilegt hvað maður lærir bæjarnöfnin mikið betur þegar maður er á 12 km/klst en ekki 110 km/klst. Ég held að eftir því sem maður kemst í betra form og eftir því sem maður lifir heilbrigðara lífi fari líkaminn að láta mann betur vita hvað mann vantar. Þetta er eins og frumbyggjar sem éta rætur eða eitthvað álíka eða konur sem eru óléttar og sleikja húsgögn. Fólk finnur bara að eitthvað vantar, salt, sykur etc. Fór áðan út í búð og fann að ég þurfti svið. Þegar ég stóð svo við kassann fann ég að ég þurfti líka Trópí. Hljóp til baka og náði í eina flösku. Magnað. Kveðja, Bjarni

Ferðasaga VIII

Mynd
15.06.2011 Frídagur á ráðstefnu. Vaknaði kl.07:00 og Jens keyrði mig á Green Gables golf course. Þetta er flottasti völlur sem ég hef spilað á æfinni. Spilaði betur en í gær, sá ref en hann lét mig í friði. Fórum heim, hlaupið, kíkt aðeins í búðir og svo farið og étið á Pilot. Sveitt svínarif, kræklingur og ostrur. Nú eru næstu 2 dagar á ráðstefnunni helgaðir mínum fræðum og því verður ekki meira golfað. Reiknum með að keyra niður til Halifax seinnipartinn á föstudag. Kveðja, Bjarni

Ferðasaga VII

Mynd
14.06.2011 Vaknaði eldsnemma til að koma inn hring af golfi fyrir ráðstefnusetu dagsins. Fór á völl sem heitir Fox Meadow og er hérna við bæjarmörkin. Spilaði því miður ekki nógu vel en lenti samt í frekar sérstakri lífsreynslu. Þegar ég var á 15 holu, sem er par 3, kemur rauðrefur skokkandi inn á flötina þegar ég er að fara að slá. Ég leyfði honum að komast út af flötinni en lét svo vaða. Höggið var frekar lágt með sveig til vinstri og stefndi beint á refinn. Kúlan hafnaði rétt við refinn og skaust svo í átt að holunni. Fullkomið högg og ég gat ekki betur séð en að kúlan færi alveg upp að holu. Þá stekkur kvikindið af stað, eltir boltann á fullu og nær honum við holuna. Skokkar svo rólega í áttina til mín með boltann í kjaftinum og þegar hann átti ca. 10 metra eftir að mér fékk hann sér að skíta í makindum og stökk svo inn í skóg með kúluna í kjaftinum? Þessi völlur, sem var snilld, ber því nafn með rentu. Fór síðan á ráðstefnu og hef svo sem engar skemmtifréttir að færa þaðan. Klárað...

Ferðasaga VI

Mynd
Mánudagur 13.06.2011 Vaknaði um kl.08 til að fara í morgunmat sem hafði lokið kl. 08:00. Hér er ekkert vesen, ef þú ert ekki búinn að éta fyrir kl.08, þá geturðu bara sleppt því. Fór á ráðstefnuna og hlustaði á fyrirlestrana. Var mjög ánægður að komast að því að ráðstefnan fjallar um mjög svipaða hluti og ég er að vinna við. Þvílík tilviljun! Eftir ráðstefnu skelltum við frændur okkur út að hlaupa og svo var farið að éta á bar hér í bæ sem ber nafnið Gahan pub. Mánudagskvöld en samt allt fullt af fólki og allir að fara að horfa á Vancouver keppa við Boston í hokkí. Allir sjúkir í þetta hérna og mikil stemmning. Vancouver skeit samt því miður á sig. Hef ekkert tekið myndir í dag og verða að fara að vera með vélina á mér og taka einhverjar myndir. Það er svo tímafrekt að redda sér með pennanum eins og ég þurfti að gera í dag á ráðstefnunni. Góða nótt, Bjarni

Ferðasaga V

Mynd
Sunnudagurinn 12.06.2011 Vöknuðum um kl. 08:30 að staðartíma í Halifax og supum eigi hveljur heldur dýrindis árbítssafa. Fengum egg borin fram á silfurfötum og naktir vöðvastæltir karlmenn báru á borð ferskan ananas undir taktfastri tónlist. Ákváðum að drífa okkur í burtu. Fengum bílaleigubíl og lögðum af stað til PEI. Komum til Charlottetown á PEI milli 13 og 14 og komum okkur fyrir. Þá vorum við búin að keyra yfir lengstu brú í Kanada sem mælist á góðum degi 12,9km. Ég og Jens fórum svo út og hlupum 10km áður en ég fór á opnunarhátíðina á ráðstefnunni. Þar var múgur og margmenni, ostrur, kræklingur, fiðluspil og þjóðfánar. Endaði kvöldið á því að fara með Jens og Halldóru á steikhús og lagði mér til munns nautgripakjöt sem steikt var og kryddað með nákvæmni og kunnáttu hins nærgætna matargerðamanns.

Ferðasaga IV

Mynd
Komið að því að leggja í á ráðstefnu á Prince Edward Island (PEI) í Kanada. Ráðstefnan ber yfirskriftina: International Conference on Molluscan Shellfish Safety 2011. Ég skil ekki hvað það þýðir og er mjög spenntur að sjá um hvað ráðstefnan er. Hafði eitthvað lítið fyrir stafni og ákvað að mæta 3 tímum fyrr út á Keflavík, sem var mátulegt þar sem var bara 2 tíma seinkun á flugi. Lenti svo í Toronta eftir 5 tíma flug og þurfti að bíða lengi eftir töskunum mínum. Hljóp svo eins og sveittur grís út um allan völl til að reyna að ná tengifluginu mínu til PEI. Missti af fluginu en fékk flug til Halifax í staðinn og fyrir hálfgerða tilviljun voru Jens og Halldóra frænka stödd þar. Kom eftir 18 tíma ferðalag og skreið inn á herbergi hjá þeim og lagði mig.

Ferðasaga III

Föstudagur 10.06.2011 Vaknaði kl. eitthvað hjá Jens frænda og gerði eitthvað. Fór ábyggilega á Saffran, já og Dóri kom þangað. Fór í Bása, hitti Stebba um kvöldið. Man ekki meira. Jú síðan hljóp ég 10 km í Fossvogi og upp í Elliðaárdal. Hjartaknús, Bjarni

Ferðasaga II

Mynd
Gene vinur minn frá San Fransisco Fimmtudagurinn 9.06.2011. Vaknaði kl. 07:00 á Huldubraut í vafasömu veðri. Stefnan tekin á Eyjar með Könunum og Jóhannesi og Ingibjörgu, fólk á níræðisaldri sem lætur sig ekki muna um að djamma á kvöldin og spila golf á daginn. Alvöru fólk! Keyrðum í Landeyjarhöfn, fínt í sjóinn og allir grimmir. Veðrið datt niður þegar við vorum í golfinu, logn, öskumistur og ágætlega hlýtt. Þetta var ótrúleg upplifun, líka fyrir okkur Íslendinga. Spila golf í gíg með lunda á öxlinni, sick. Héldum síðan í land og átum 4 réttað á Hörpunni. Harpan er cool, maturinn frábær og mér er andskotans sama hvað kostar að þrífa rúðurnar á kofanum. Bjarni Jónasson að leggja upp hnitmiðað pitch með fleygjárninu sem sennilega endaði við pinnann.

Ferðasaga I

Mynd
Ætla að reyna að nota þetta blogg eitthvað víst ég var að kaupa það og skrifa smá dagbók í nokkra daga. Þarf reyndar að fara aftur í tíman og byrja á miðvikudaginn síðasta. Miðvikudagur 8.06.2011 Vaknaði frekar snemma og keyrði Daníel í golfskólann. Spilaði 9 holur sjálfur og gekk bara nokkuð vel ef ég man rétt. Fór heim og tók mig til. Lagði af stað til Rvk. kl. 13:30 ca. Kom suður og fór fljótlega í Sundhöll Reykjavíkur sem er lang svölust. Skipti um föt og fór svo og keppti í Heilsuhlaupi Krabbameinsfélagsins. Náði markmiði mínu um að hlaupa 10Km á undir 45 mínútum og var tíminn 44:19. Fór svo á Humarhúsið og hitti vini okkar Jens frá Ameríkunni og tróð í mig humar í boði John Eichten. Frábær dagur. Get ekki annað en sett með eina ljóta hlaupamynd af mér sem er á hlaup.is. Kveðja, Bjarni

GolfTV: Þessi ætti ekki að koma nálægt golfbíl » 19. holan - kylfingur.is

GolfTV: Þessi ætti ekki að koma nálægt golfbíl » 19. holan - kylfingur.is Þetta er dæmi um myndband þar sem manni finnst að maður ætti ekki að hljægja......... en getur ekki annað. Kveðja, Bjarni

Maraþonkræklingur

Mynd
Jæja þá er fyrsta keppnishlaupinu lokið og gekk það ágætlega. Fór 10 km í Mývatnsmaraþoni í frekar afleitu hlaupaveðri. Setti bara undir mig hausinn og móaðist á móti vindinum. Háði harða baráttu við Hinrik sem hafði sig framúr á lokametrunum. Náði ekki markmiði mínu tímalega séð en er að spá í að reyna við það í Heilsuhlaupi Krabbameinsfélagsins sem er þann 8. júní í Reykjvaík. Annars var ég að koma úr alveg ægilegri vinnuferð. Keyrði á miðvikudaginn frá Skagaströnd til Ísafjarðar með smá stoppi á Hólmavík. Fór svo til Bolungarvíkur í gær (fimmtudag) og var á sjónum allan daginn að merkja grásleppur og skötusel. Keyrði síðan í einum rikk án þess að stíga út úr bílnum í Stykkishólm og át þar krækling og tók með mér 30 kg. af kræklnig á Skagaströnd. Var kominn heim milli 2 og 3 í nótt og svaf alveg til 8 í morgun. Blessuð ellin að gera vart við sig. Kveðja, Bjarni