Færslur

Sýnir færslur frá mars, 2009

Stuttar fréttir úr héraði

Hér hafa veður verið válind og tekið sinn toll af búpeningi og geðheilsu þorpsbúa. Fjórar lambfullar ær frá nágrönnunum okkar grófust í fönn við kaupfélagshúsið og fundust ekki fyrr en menn mættu til vinnu nú í morgun. Hestur varð úti á Bæjarhálsi með knapa og dráttavél sem ekið var í óðagoti á eftir snjóbíl við kirkjuna hafnaði á hestvagni fullum af skólabörnum sem verið var að bjarga úr fermingarfræðslu og hurfu þau út í kófið sem óð væru. Ungir framsóknarmenn hafa lagt fram tillögu um að söfnun verði hafin á girðingarstaurum og útsæði fyrir þá verst stöddu hér í plássinu (ég og Guðrún föllum í þann hóp). Þá er bara að falla ekki í sömu gryfju og Reyðfirðingar gerðu á stríðsárunum þegar þeir brenndu öllum staurunum og átu útsæðið sem þeir fengu frá hernum. Hefði samt verið verra ef þeir hefðu snúið þessu við. Þar sem Guðrún er ónothæf við prjónaskap er ég að virkja strákana í að puttaprjóna trefla og hef sjálfur hafist handa við að prjóna snjóbuxur. Annars er lítið annað að gera en a...

Óskast

Óska eftir 100- 200 fermetra atvinnuhúsnæði til leigu í grennd við Sauðárkrók. Æskilegt er að húsnæðið sé vel einangrað, upp kynt og vatnslagnir séu tengdar. Á sama stað óskast 8" pvc plaströr (ca. 200 metrar), plastslöngur, moltukassar, vikur, gróðurmold, áburður og gróðurhúsalampar. Bjarni

Veikindi

Nú er maður rétt skriðinn í vinnuna eftir tveggja daga læsta hliðarlegu. Ég átta mig ekki fullkomlega á því hvað það var sem amaði að mér, enn því fylgdi nú einhver smá hiti og mjög langur og djúpur svefn. Held ég sé nú eitthvað að braggast þó maginn í mér sé ennþá á hvolfi. Magalega séð líður mér eins og á góðum mánudegi eftir langa og erfiða helgi, tilfinning sem ég er ekki óvanur en hef ekki fengið lengi. Það hlýtur nú að jafna sig skjótt. Verst að geta ekki drukkið kaffi. Í ljósi þessara frétta þá hef ég ekki frá neinu skemmtilegu að segja. Þessir dagar hafa ekki verið tími frjórra hugsana og því læt ég þetta gott heita í bili. Kveðja, Bjarni

Fuck it!

Þá er komið að hinu vikulega vísnahorni. Gísli Árni sendi eftirfarandi kviðling með útskýringum: Norskur maður var að læra íslensku og var mönnum tíðrætt um hversu vel hann náði tökum á tungumálinu. Hann fór síðan að garfa í bragfræði og höfðu menn á orði að það væri nú full erfitt fyrir hann. Hann lét sér fátt um finnast og orti: Blessuð lóan labbar labbar út á tún. Ég labbar líka labbar á eftir hún. Þorbjörn Valdimarsson frá Landskeri í Útsveit sendi þættinum orðsendingu fyrir þáttinn. Benti hann réttilega á að rangt var farið með seinnipart vísu eftir Helga Einarsson frá Vaðli í Sandhyrnuhlíð í síðasta þætti. Ég skrifaði vísuna eftir minni og hafði ég seinnipartinn: Hefir yfir harðan skor haltur Vatnsdælingur En eins og Þorbjörn bendir á, þá á seinniparturinn að sjálfsögðu að vera á þessa leið: Hafðu hvorki háð né spott hvar eru allir Vatnsdælingarnir? Ég vil biðja niðjar Helga Einarssonar afsökunar á þessari afbökun minni. Í næsta þætti mun ég birta nokkrar lausavísur úr safni Hel...

All by myself

Myndbandið sem fylgir með þessum pósti fékk ég sent frá Gunna vini mínum. Alger snilld! Annars ekkert nýtt. Mikið að gera, stanslaus ferðalög tengd vinnunni og grásleppuvertíðin að hefjast. Aldrei að vita nema maður eigi eftir að standa fram í stafni á mánudagsmorgun og bjóða náttúruöflunum byrginn. Það fer þó allt eftir veðri. Ef ég finn hleðslutæki fyrir myndavélina mína, þá er aldrei að vita nema maður eigi eftir að smella inn grásleppumyndum fljótlega. Sem minnir mig á það að ég er líka búinn að týna i-pod snúrunni. En jæja, ég verð líkast til ansi hreint gerðarlegur á sjónum, með armakúta og sífellt skjótandi upp neyðarblysum. Annars er ég eitthvað að rembast við að búa á Skagaströnd og er kominn með herbergi. Ætlaði að gista mína fyrstu nótt hérna í gær og hafði því með mér slatta af dóti. Dagurinn í vinnunni fór svo mest í að velta sér upp úr því hvað það væri ábyggilega hræðilegt að vera ekki á Króknum hjá Guðrúnu og strákunum. Þetta endaði með því að ég keyrði með tárin í augu...

Ferðalag

Það er ekki á hverjum degi sem maður þarf að byrja á því að kíkja á Google Earth þegar maður kemur heim úr vinnunni. Í dag var ég sendur á stað sem heitir Ólafsvík og er á Snæfellsnesi, leitaði mér svo s.s upplýsinga um staðinn þegar heim var komið. Þar sem ég var ekki einn í bílnum þá rataði ég fyrir rælni á leiðarenda á tilsettum tíma. Leist ágætlega á staðinn og snæddi burger á Hobbitanum sem er hamborgarapleis við aðalgötuna. Gleymdi reyndar að ég er í nammibindindi og drakk sykurkók. Maður í flíspeysu spilaði stíft í spilakassa og Pólverjar sátu að snæðingi. Einn þeirra lét mig fá fréttablaðið þegar hann var búinn með það. Ég skil samt ekki ennþá hvað hann var að gera með það, sjálfsagt að skoða myndirnar. Eftir matinn fórum við kolleginn í smá kynningu í Vör, rannsóknarbatterí sem er að sinna svipuðum hlutum og við hjá BioPol. Hitti líffræðing sem þekkir Egil, skoðaði síur og spjallaði við stelpu sem hefur ræktað dýrasvif í ískáp. En svo kom einhver karl sem þurfti að hitta Erlu ...

Matur

Ég sit veikur heima í dag. Var orðinn eitthvað slappur í gær og ákvað að halda mig til hlés í dag og vita hvort ég næ ekki að hrista þetta úr mér á mettíma. Hafði mig fram úr rúminu áðan og ákvað að fá mér eitthvað kjarnfóður. Þar sem mataræðið hjá mér hefur ekki verið upp á marga fiska síðustu daga (vikur) langaði mig í eitthvað hollt en fyrst og fremst eitthvað létt og einfalt, enda ekki í stuði fyrir eldamennsku. Lendingin varð súpa, Maggi Sping Season. Ég vissi svo sem að þessi matur er ekkert sérstaklega hollur en mig hafði kannski ekki alveg grunað að ég væri að fara að hella ofaní mig slurk af eitri. Nú ætla ég að telja aðeins upp hvað er í svona súpum og það sem er verra, ég hef grun um að bollasúpur séu ennþá verri. Fyrir utan þetta hefðbundna þurrkaða pasta og grænmeti (laukur, hvítlaukur, tómatar, sveppir, blómkál og baunir) var þar að finna: Maltodextrin: Sætuefni, það er reyndar af náttúrulegum uppruna en mig langaði ekkert í það. Monosodium glutamate: Kveikir einhver á ...

Lítið um ekkert

Einhverju sinni, í kennslutíma í þriðja bekk í Glerárskóla, spurði Unnur Ólafsdóttir kennslukona okkur krakkana að því hvort við gætum fundið eitthvað starf þar sem maður bæri enga ábyrgð. Eftir töluverða umhugsun fann ég eitt slíkt starf. "Bókasafnsvörður", sagði ég helvíti ánægður með mig. Eftir smá rökræður við kennnarann varð ég þó að játa mig sigraðann og éta þetta ofaní mig. Sem bókasafnsvörður ber maður víst ýmsa ábyrgð sem þarf svo sem ekkert að tíunda hér. Ekki veit ég hvað varð til þess að ég gaf þetta svar. Sennilega dróg ég þessa ályktun út frá mikilli kyrrsetu, bókalestri og töluverðri offitu margra bókvarða. Mér verður æ oftar hugsað til þessarar kennslustundar í dag og finnst það furðu sæta hvað ég gæti talið upp mörg störf í dag þar sem iðkandinn ber akkúrat enga ábyrgð. ZERO! Ég þarf heldur ekkert að telja það allt upp, þið vitið hvert ég er að fara. Þegar ég var að keyra í vinnuna í morgun mundi ég allt í einu eftir einhverju sem ég þarf að lýsa frati yfir. ...

Edit Posts

Síðustu daga, reyndar vikur, hef ég verið að reyna að beita fræðilegri nálgun, eða aðferðum, til þess að fanga hugsanir mínar, flokka þær, vinna úr þeim og koma þeim á blað. En ekkert er í hendi. Hausinn á mér er að springa í augnablikinu og ég fer að verða þrútinn í framann ef ég kem þessu ekki út úr mér fljótlega. Ég hef trú á, að ef ég næ þessu takmarki mínu, þá verði allt krepputal voðalega eitthvað fjarstæðukennt innan fárra vikna (sumir segja, voða eitthvað 2007). Ég hef lausnir á öllu en þetta blandast bara allt í einn hrærigraut og ég fer bara að hugsa um skútu. Ég læt að sjálfsögðu vita þegar ég hef fundið leið til að kippa þessu í liðinn og mun þá leggja fram eigin aðgerðarpakka (enn eitt orðið sem ég elska að hata). Kveðja, Bjarni