Ferðalag
Það er ekki á hverjum degi sem maður þarf að byrja á því að kíkja á Google Earth þegar maður kemur heim úr vinnunni. Í dag var ég sendur á stað sem heitir Ólafsvík og er á Snæfellsnesi, leitaði mér svo s.s upplýsinga um staðinn þegar heim var komið. Þar sem ég var ekki einn í bílnum þá rataði ég fyrir rælni á leiðarenda á tilsettum tíma. Leist ágætlega á staðinn og snæddi burger á Hobbitanum sem er hamborgarapleis við aðalgötuna. Gleymdi reyndar að ég er í nammibindindi og drakk sykurkók. Maður í flíspeysu spilaði stíft í spilakassa og Pólverjar sátu að snæðingi. Einn þeirra lét mig fá fréttablaðið þegar hann var búinn með það. Ég skil samt ekki ennþá hvað hann var að gera með það, sjálfsagt að skoða myndirnar. Eftir matinn fórum við kolleginn í smá kynningu í Vör, rannsóknarbatterí sem er að sinna svipuðum hlutum og við hjá BioPol. Hitti líffræðing sem þekkir Egil, skoðaði síur og spjallaði við stelpu sem hefur ræktað dýrasvif í ískáp. En svo kom einhver karl sem þurfti að hitta Erlu og við drifum okkur heim. Villtumst aðeins á leiðinni heim (skyggni slæmt) en það voru bara örfáir kílómetrar í plús. Í Staðaskála klappaði ég svo þrífættum ísleskum hundi sem var vel við aldur. Annars er nú ekkert títt.
Ummæli