Góðan daginn. Nú er ég mættur á Akureyrina og það er jú bara nokkuð notaleg tilfinning. Tekið var á móti mér með viðhöfn af Gunnari og frú, á borð bornir heitir réttir og uppábúið gæðarúm í gestasvítu þeirra hjúa. Í dag hef ég svo verið í skólanum, rætt við fólk og farið að skipuleggja framhaldið. Síðan fékk ég að kíkja á nýju skrifstofuna þar sem við mastersnemar erum og það er ekkert slor. Ég er á 7 hæð á Borgum með útsýni yfir Eyjafjörðinn. Vaðlaheiðin teygir sig tignarleg til norðurs, gulli slegin bleikum bjarma vetrarsólar, Kaldbakur rís úr sæ og drottnar yfir þessum fallega firði rúmlega 1100 metrar á hæð. Bærinn hvílir svo friðsæll sem sofandi hundur við fætur mér. Skrifborðið mitt er á stærð við fótboltavöll, skúffur og hillur á báðar hendur og stólinn minn er þægilegri en stólpípa á sunnudegi. 6 metra á vinstri hönd er svo kaffivél sem malar baunirnar sjálf með þægilegu mali. Hvað í andskotanum ætti ég að biðja um meira. Guð blessi þennan bæ, guð blessi þennan skóla og megi dr...