Færslur

Sýnir færslur frá desember, 2024

Vikulok ☑️

Mynd
Síðustu 4 vikur í æfingum. Ég kláraði þessa viku í morgun með 3 klst. endurance æfingu. Vikan gekk í rauninni vel en ég er samt búinn að vera alveg lúinn í fótunum. Veit ekki hvort það sé meira út af lyftingum eða bara vegna þess að við erum að bæta í klukkutímana á hjólinu nokkuð hratt. Nú taka við 2-3 dagar í Mývatnssveit og smá hvíld frá hjólinu. Ég hugsa samt að ég taki með mér hlaupadót til að kíkja út á jóladagsmorgunn. Það er svo miklu betra að éta ef maður hreyfir sig aðeins.

Grillaðar lappir

Mynd
Þá var sól. TSS (Training Stress Score) er mælikvarði á erfiðleika æfinga. Ef þú tekur æfingu upp á 100 TSS myndi það samsvara því að þú værir á FTP (mesta afli sem þú getur haldið í klukkustund) í eina klukkustund. Þannig að ef ég er með FTP upp á 250 núna, þá væri það eins og ég væri á 250 vöttum í eina klst. Helsti gallinn við TSS er hinsvegar hversu lélega mynd það gefur af álaginu sem felst í að hjóla mjög lengi rólega. Hvað um það. TSS er samt ágætt til að átta sig á erfiðleika æfinga og einnig til að horfa á hverja viku fyrir sig. Í fyrravetur þegar ég átti erfiðar vikur á hjólinu inni þá var ég að taka ca. +600 TSS en þegar ég tók stórar vikur úti í sumar þá var ég að fara í 900+. Ég er bara telja þetta upp til viðmiðunar því áður en ég byrjaði aftur í prógrammi hjá Ingvari var ég að dúlla mér í 200-300 TSS og Ingvar er kominn með mig upp í ca. 500 núna með tveimur lyftingaæfingum. Ég er því ennþá frekar rólegur. Vikan sem er í gangi. Ég er að þola þetta ágætlega ennþá en lyfti...

Jólastúss

Mynd
Að lenda í Vestmanneyjum í síðustu viku. Jólagjafakaup, vinna, skipulag, undirbúningur. Stress! Svona er þetta bara og ekkert meira um það að segja. Vinnuferð til Vestmannaeyja í síðustu vikur. Allt gekk vel og við vorum ekki aflífaðir af lundaveiðimönnum þótt við séum óttalegir pappírspésar og aumingjar. Æfingar ganga bara fínt og Ingvar er að reyna að keyra mig í gang. Mótorinn er í ágætis standi en allt fyrir ofan tempo er samt búið að vera mjög þungt. Fyrsta threshold æfingin mín í þar síðustu viku var 3x8 mín og ég varð að stytta síðari 2 settin niður í 4 mín. Á laugardaginn var ég aftur með sömu æfingu og kláraði 3x8mín þó það hafi ekki verið fallegt. Í dag var ég svo með 3x10 mín og negldi settin mun betur en 3x8 á laugardaginn. Ótrúlegt hvað maður er fljótur í gang þrátt fyrir að vera að lyfta líka með þessu. En þó ég sé orðinn sæmilega brattur á ég nokkuð í land miðað við hvernig ég var í fyrravetur. Þá tók ég t.d. 3x15 mín threshold æfingu sem tók 3 klst. I'll get there.....

bla bla bla...........

Mynd
Búin að jólaskreyta. Síðasta vika var alveg helluð og ég var gjörsamlega á yfirsnúningi við a ná að klára allt sem ég ætlaði mér að gera og koma öllum æfingum inn í planið. Ég átti 10 klst. á hjólinu + 2 lyftingaæfingar en á endanum fórnaði ég einni 1,5 klst. æfingu til að skreyta piparkökur með börnunum. Ég sé ekki eftir því. Um helgina tók ég svo eldhúsið í nefið og bónaði meira að segja gólfið. Barnaherbergin voru líka þrifin og svo að lokum stofan. Þegar það var búið skreyttum við allt og fengum okkur svo kakó og piparkökur. Þessi vika er eiginlega ekkert betri varðandi álag og núna er ég staddur í Reykjavík (miðvikudagur). Í gær vorum við með fund á Akureyri, í dag fundaði ég allan daginn í Reykjavík og á morgun sigli ég til Vestmannaeyja. Stefnan að komast heim á föstudag- taka 2 æfingar, fara svo sund og borða pizzu með Hörpu. Get ekki beðið.

Rækt í morgun....

Ég skellti mér í ræktina í morgun. Ég sofnaði aðeins seinna í gær en ég ætlaði út af einhverjum smá pirringi og hafði áhyggjur af því að það yrði erfitt að vakna. En það gekk bara vel og fínt að komast út í daginn. Það var slatti af fólki á Bjargi á þessum tíma en ekkert sem truflaði. Ég byrjaði á réttstöðu en ég er ekki ennþá komin í lag eftir brákaða rifbeinið. Ég átti nóg með að vera með 80 kg og fann alveg að það var langt síðan ég hafði gert þetta. Síðan tók ég Bulgarian split squat, planka, bekk ofl. Endaði svo á smá teygjum. Ég náði að keyra rútínuna í gegn á 38 mínútum sem er fínt. Seinna í dag er strembin tempo-æfing sem er 1:44 klst. Vonandi verð ég ekki eftir mig eftir lyftingarnar.

Vika 1

Mynd
"Byrja rólega" sagði Ingvar.... ég veit það nú ekki. Ég ætti að skammast mín fyrir að hafa ekki kvittað hér inni svo vikum skiptir. En ætli það beri ekki bara vitni um að lífið hefur verið í gangi.  Nú eru æfingar að byrja aftur og Ingvar búinn að henda inn æfingum fyrir vikuna. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að púlla þetta en ég hef átt í fullu fangi með að klára 5 tíma á hjólinu með tveimur lyftingaæfingum. Núna fer þetta að fara upp í 10-14 klst á viku auk lyftinga. Hvað er ég að hugsa? Til að ná að gera allt í dag varð ég að vakna klukkan 05:30 í morgun til að hjóla. Á morgun fer ég svo í ræktina um kl. 06:00 og tek svo hjólaæfingu eftir vinnu. Mig langar að væla yfir þessu en það er víst ég sem kalla þetta yfir mig. Áfram veginn.... d