Hjólatöskur

Ortlieb Classic Roller

Ortlieb Roller Classic. 12 lítra framtaska (fremri) og 20 lítra afturtaska.

Eftir að hafa lesið um Ortlieb hjólatöskur sá maður fljótlega að þær virðast hafa ákveðna sérstöðu þegar kemur að slíkum búnaði. Þetta virðist vera hinn "gullni standard" hvað varðar þægindi og gæði. Týpan sem ég keypti heitir Roller Classic og er með því ódýrasta sem þeir selja, en eftir því sem ég best fæ séð, á þetta að vera feyki nóg til að koma manni í gegnum fyrstu árin. Mínar töskur voru á 50% afslætti hjá fjalli.is.

Rollerinn ber nafn sitt af því að til þess að loka töskunum, rúllar maður maður endanum upp og festir svo með ól yfir töskuna (sjá mynd fyrir neðan). Þetta verður því að vissu leyti bara eins og vatnþéttur sjópoki og maður getur hlaðið býsna mikið í þetta.
Lokuð og opin afturtaska.

Ein mesta snilldin við þessar töskur er svo hvernig maður festir þær á burðargrindurnar (sjá mynd fyrir neðan). Aftan á þeim er einskonar "handfang" sem maður togar í. Um leið og maður togar opnast 2 augu og þá getur maður lyft krókunum upp af stönginni. Sama sagan þegar maður festir þær á hjólið, um leið og maður sleppir haldfanginu læsast krækjurnar.

Eina sem fór eitthvað verulega í taugarnar á mér við þessi viðskipti var að liturinn á fram- og afturtöskunum er ekki alveg sá sami (maður kaupir parið í sitthvoru lagi). Ég hringdi í búðina og gerði athugasemd við þetta og þeir höfðu fengið þetta svona og ekki einu sinni tekið eftir þessu. Ég nenni ekki að gera veður út af þessu og læt mér þetta að góðu verða.

Búnaðurinn sem læsir töskuna við grindina.


Ultimate6 Classic stýristaska

Ortlieb Ultimate6 Classic 

Það var ekki til stýristaska í gráu og ég er eiginlega bara feginn að hafa fengið svarta. Þessi er eins og hinar töskurnar vatnsþétt og fislétt. Með henni fylgir festing sem maður festir með vír og skrúfum framan á stýrið. Taskan smellur svo í festinguna og hægt er að læsa henni með lykli, bæði við hjólið og þannig að ekki sé hægt að opna hana ef maður skilur hana eftir á hjólinu.

Eitt af því góða við þessa tösku er að hún opnast frá manni, þ.e þegar maður situr á hjólinu lafir lokið fram á framdekkið. Þannig er mikið þægilegra að ganga um hana og nálgast sólgleraugu, síma eða eitthvað annað sem mann vantar.

Ég hlakka mikið til þegar hjólið kemur að prufa þær á hjólið og þá pósta ég fleiri myndum.
Svona snýr taskan að þeim sem hjólar.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Útivera

Negri í Þistilfirði

Bikarmót #1 - 2023 - Recap