Nú væri ég til í að eiga stund með sjálfum mér, á fjöllum. Á fjöllum, svo fjarri sjálfum mér. ----- Bóndinn gengur á sandinum með hundinn sér við hlið. Tíbráin stígur upp eins og eiturgufur og í helbláum fjarskanum rísa Herðubreiðarfjöllin eitthvað svo þýðingarlaus til himins. Melstráin tekin að gulna og fuglarnir farnir, ef þeir voru þá nokkurn tíman til staðar. Engin spor, ekkert jarm, ekkert kvak. Ekkert. Bóndinn og hundurinn ganga áfram léttstígir og hljóðlaust í foksandinum. Það er rétt eins þessi endalausu öræfi hafi gleypt í sig allt hljóð. Ég staldra við og sparka niður fæti, svona eins og til að sannreyna að ég heyri ennþá. Við göngum um stund en svo stoppar bóndinn á svartri öldu. Ég virði hann fyrir mér úr fjarska. Hundurinn sest hjá honum. Þeir skima til suðurs en þar er ekkert að sjá nema þessi marklausa eilífð öræfanna sem rennur saman við sálina. Við göngum í bílinn ég og bóndinn. Hundurinn sikksakkar á eftir okkur og virðist vera sá eini sem enn hefur trú á...