Bockaveiðar í Svíþjóð 2014
Ég hef verið svo heppinn að fá að njóta þeirra forréttinda að veiða í Svíþjóð í allmörg ár. Ekki skemmir fyrir að veiðifélaginn í þessum ferðum hefur verið pabbi minn. Við höfum ekki verið svo mikið saman í gegnum tíðina. Það er skrítið til þess að hugsa, að ótrúlega stór hluti þess tíma sem við höfum varið saman, hefur einmitt verið á veiðum. Þeim tíma er vel varið. Á elgveiðum 2012. Þennan litla bock skaut ég á rekstrarveiðum. Hann stoppaði 80- 100 metra frá mér til að staðsetja hundinn sem var að elta hann. Ég hafði ekki langan tíma, en það var nóg. Þessar veiðar eru yfirleitt sannkallaður gæðatími. Hann hefst þegar við keyrum af stað frá Lundi og upp til Smálanda. Við kjöftum alla leiðina, drekkum kaffi og étum í sjoppum. Rifjum upp gamlar veiðiferðir. Segjum hvorum öðrum sögur sem við höfum margar heyrt áður. Eyðum svo nokkrum dögum í gömlu timburhúsi með saggalykt þar sem skánskan glymur og hundar eru jafn réttháir og menn. Borð svigna undan unnum kjötvörum. Þarna sn...