Hann byrjaði í þessu venjulega; sígarettur, brennivín og hass. Síðan smámsaman leiddi það út í amfetamín, læknadóp og sprautur. Hann seldi sig og stundaði innbrot. Botninum var svo náð þegar hann byrjaði að skrifa á commentakerfi DV.
Hann rankaði við sér í skotgröfinni. Sá lítið fyrir blóði í augunum en fann að iðrin lágu úti. Kjafturinn var fullur af drullu og annar fóturinn var farinn af. Hann dróg upp strumpaplástur.
Það versta sem gæti komið fyrir okkur væri að ganga í ESB. Þá gætum við misst eitthvað af þessum náttúruauðlindum sem við hugsum svo vel um og hafa komið almenningi svo mikið til góða.
Verslunin naut svo mikilla vinsælda, að eigendur hennar voru tilneyddir til að setja á sérstakt aukagjald, til að standa straum af kostnaði við að verja húsgögnin og kaupa salernispappír. Gjaldið greiddu allir sem komu inn í búðina.
Íslensku júróvsionlögin eru ömurleg að vanda. Það heyrir það hver heilvita maður að þau eiga ekki séns frekar en fyrri daginn, sem er vel. Ekki svo að skilja að lögin sem yfirleitt sigra séu ekki ógeðsleg líka. Þau eru bara öðruvísi ógeðsleg. Kveðja, Bjarni
Fór til Akureyrar í dag og kynþokkinn lak af mér, enda í betri fötunum. Aðdáun fólks leyndi sér ekki hvar sem ég kom. Góður rómur var gerður að limaburði mínum og þegar ég lenti í samtölum varð fólk agndofa yfir lírískri framsetningu minni á meitluðum hugsunum. Kveðja, ÉG
Ætlum að setja niður eitthvað grænmeti fyrir sumarið. Við reyndar höfum yfirleitt alltaf ætlað okkur að setja niður rosalega mikið af allskonar grænmeti og vera rosalega lífræn og frábær. Við höfum samt aldrei farið lengra en í þetta skiptið. Við erum semsagt búin að ákveða hvað við ætlum að setja niður og byrjuð að plana gróðurkassana.