Skórinn
Hef eitthvað verið að reyna að mála síðustu daga og það hafa komið smá glætur inn á milli. Var ekki alveg að kaupa þessa mynd af Brekku til að byrja með en er að taka hana meira í sátt. Veit ekki hvað ég geri við hana en hún endar sjálfsagt allavega ekki á sýningunni. Stekkjastaur kom í nótt og ég lifði gleðina í gegnum Dagbjörtu Lóu sem fékk töfrasprota, eyrnalokka og súkkulaði. Þetta var lítilfjörlegt plastdót en gleðin var svo fölskvalaus að maður hefði getað tárast. Brynleifur liggur heima í hlaupabólu og var sofandi þegar ég fór. Ég þurfti svo aðeins að kíkja heim aftur og þá var hann vaknaður og alsæll með eitt súkkulaði og eitthvað lítið plastdót. Þetta er frábær árstími. Það sem veldur mér hinsvegar smá hugarangri er hvað þessir jólasveinar eru miklir umhverfissóðar, dreifandi plasti út um allar koppagrundir. Þeir verða að fara að taka sig á. Kveðja, Bjarni