Fjöll og með því
Erum stödd í Skagafirði þar sem við sátum fermingarveislu í dag- en sluppum þó við kirkjuna. Það var heldur leiðinlegt veður framan af degi en svo fór nú heldur að rætast úr. Ég tók bíltúr seinnipartinn um Hjaltadalinn til að ná mér í myndir og innblástur. Sólin braust stundum í gegnum skýin og skreytti fjallstoppana með magnaðri birtu. Hestar, sina, girðingastaurar, gaddavír, leysingapollar og blár himinn allt í bland- ekta Skagafjörður. Ég varð fullur eldmóði og gat ekki beðið eftir að taka upp penslana. Nú sit ég við tölvuna og er búinn að henda 6 myndum í ruslið. Ég hefði átt að hætta strax eftir fyrstu því ég var ekki með þetta í puttunum í kvöld. Stundum finnur maður það en nú hlustaði ég ekki og græddi því lítið á þessu. Svona er þetta stundum. Fyrir ofan eru 2 myndir sem ég var að spreyta mig á en bíða betri tíma.