Ormurinn 16.08.2025 - Samantekt
![]() |
| Beygt við Fljótsdalsbrúna. Mynd: Gunnar Gunnarsson |
Maður er búinn að keppa svo mikið að maður þarf að fara að ráða blaðamann til að semja alla þessa pistla. En nú er komið að næstsíðasta mótinu í ár, Orminum (taka V). Eins og margoft hefur komið fram þá er þetta mót alltaf uppáhaldsmótið mitt af fjölmörgum ástæðum. Má þar helst nefna brautina sem er ótrúlega skemmtileg, félaggskapinn og fólkið, umgjörðina og skipulagið þar sem allt er upp á tíu.
En fyrir þá sem þekkja ekki brautina þá er hér eldri pistill.
Veður og klæðnaður
Í þetta skipti fær veðurstofan 10 í einkunn fyrir bestu spá í heimi sem stóðst 100%. Spáin gerði ráð fyrir allt að +27°C en veðurguðirnir gerðu gott betur og splæstu í +29.9°C á Egilsstaðaflugvelli þegar best lét. Hitastigið á hjólatölvunni sýndi 28°C þegar við komum í mark. Þetta var geggjað!!
Ég var í síðerma keppnistreyju (gleymdi stutterma) og stuttum buxum. Fann ekki fyrir að hitinn væri mikið að draga af mér.
Undirbúningur
Við Harpa gistum í Vagnbrekku á leiðinni austur og lögðum af stað þaðan um kl. 06:00. Ég át 500 gr. af grjónagraut með karamelluíssósu á leiðinni og drakk kaffi. Kvöldið áður var kjúlli og pasta. Vikan á undan var mjög létt í æfingum, bara með endurance og recovery.
Taktík og samkeppni
Eins og venjulega þá geta alltaf leynst einhverjir "dökkir hestar" inn á milli sem koma á óvart en það sem ég las úr keppendalistanum var að mesta samkeppnin myndi vera frá Hjalta Jóns og Agli Thoroddsen. Jón Arnar og Röggi voru í 103 km og ég taldi mig því eiga sæmilega möguleika. Planið mitt var að reyna að ná bili með Silju Jó og stinga af.
Fyrstu kílómetrarnir
Ég elti Rögga og Jón að fyrstu brekku en tók þá fram úr og setti upp þokkalega hart pace upp fyrstu 3 brekkurnar. Næst þegar ég leit við þá voru bara 6 eftir í hópnum, ég, Hjalti, Silja, Egill og Jón og Röggi. Þarna var ég staðráðinn í að halda áfram að keyra vel á brekkurnar og reiknaði með því að ná að hrista Egil af okkur. Fljótlega var það samt Hjalti sem fór að dragast aftur úr og þegar við vorum komin ca. 15 - 20 km inn í keppnina var hann búinn að missa af okkur.
Sem fyrr segir reyndi ég að taka vel á því í brekkunum en var hissa á því hversu sterkur Egill var í brekkunum. Ég vonaði bara að hann færi að dala þegar á liði þar sem ég vissi að hann var ekki búinn að hjóla neitt gríðarlega mikið.
Í miðjum leik
Að endingu héngu allir í hópnum niður að brú þar sem Röggi og Jón héldu áfram en við Silja og Egill beygðum upp í Hallormsstað. Þarna róuðust hlutirnir aðeins en ég keyrði samt aðeins upp hraðann upp brekkuna að einbreiðu brúnni en Egill fylgdi alveg ennþá. Þegar við vorum komin upp í skó fannst mér nú samt eins og það væri farið að draga af honum.
Í skóginum fórum við að rótera og skiptast á að vera fremst til að missa hraðann ekki niður. Við reiknuðum síður með að sjá Hjalta aftur en maður veit þó aldrei. En ég vildi líka bara halda uppi hraða til að reyna að draga meira úr Agli.
Endaspretturinn
Eftir því á leið fann maður að púllin hjá Agli fóru að vera mjög kraftlaus og ég reyndi að beita smá bellibrögðum til að þreyta hann á sama tíma og hausinn á mér var að bráðna við að hugsa hvort maður ætti að reyna að taka árás sem Silja gæti hugsanlega fylgt eða bíða fram í endasprett? Ég mat það svo að það væri það mikið af honum dregið að ég ætti að geta haft hann, helst með árás ofan af litlu hæðinni ca. 700 metra frá markinu. Lykilinn væri að vera vel staðsettur þar.
Þegar við vorum að koma á umrædda hæð var ég ennþá á eftir Silju og Agli í góðri stöðu og beið átekta. Í þann mund sem ég var að hugsa um að taka viðbragð þá stendur hinsvegar Egill upp og ætlar að fara í hroðalegan endasprett en það vill ekki betur til en það að hann losnar úr öðrum klítanum, hrynur í jörðina og kútveltis út af veginum.............
Við Silja náðum að forða okkur frá því að lenda á honum en stoppuðum að sjálfsögðu til að athuga með hann þar sem hann stöð öskrandi yfir hjólinu sínu og það var í fyrstu ekki augljóst hvort það væri bara reiði yfir klúðrinu eða hvort hann væri slasaður? Eftir smá stund sagði hann okkur þó að halda áfram og hann mundi koma sér aftur á hjólið og klára.
Þannig rúllaði maður sem öruggur sigurvegari karla yfir marklínuna en tilfinningin að sjálfsögðu blendin eftir þetta leiðinda atvik. Maður hefði allan daginn viljað fá að taka alvöru endasprett. Egill kom í markið skömmu síðar nokkuð mikið skrámaður og marinn en sem betur fer óbrotinn. Hjalti rúllaði svo inn í 3. sæti nokkrum mínútum seinna og ég gladdist mjög að hann hafi haldið verðlaunasæti þrátt fyrir að lenda einn.
Tölur og effort
Ég nenni ekki að draga þær ítarlega fram en það helsta var að púlsinn var 2-3 slögum hærri en í sambærilegum mótum sem stemmir við hvað var heitt úti. En miðað við að þetta sé annar hraðasti Ormur sem ég hef farið þá passar það ekki við vöttin sem voru ca. 25-30 lægri en í síðustu keppnum þarna fyrir austan. Mér finnst líklegt að sveifarnar hjá mér (sem ég hef ekki náð að calibrera lengi) sýni of lágt í svona miklum hita.
Tilfinning eftir mót
Ég sagði við útvalda fyrir mótið að ég ætlaði ekkert að ljúga því en mér hefði alltaf dreymt um að vinna 68 km hringinn í Orminum. Nú er það komið!!! Ég hefði að sjálfsögðu viljað að Egill hefði haldist á dekkjunum en ég ákvað að láta það ekki eyðileggja fyrir mér upplifunina.
Hvað hefði betur mátt fara?
Þar sem ég vann mótið þá kannski er erfitt að segja hvað hefði mátt fara betur. Ég hefði hinsvegar sennilega átt að gera árás nokkuð löngu fyrir markið og sjá hvort Silja hefði ekki fylgt mér. Mér finnst líklegt að Egill hefði átt erfitt með að fylgja því eftir en lappirnar á mér voru góðan þennan dag.
Næring
Fimm BetaFuel (þar af 2 með koffín) og 1000 ml vatn.
![]() |
| Harpa vann kvennaflokkin í 103 km á nýju brautarmeti. |







Ummæli