Ormurinn 2023 - uppgjör.

Startið- það mætti halda að ég sé eitthvað bugaður, en svo var nú ekki. Mér finnst eitthvað við þessa mynd sem Wiktor Stankowiak tók.

Jæja þá er síðasta mót ársins og ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei verið svekktari eftir mót. Þetta var í þriðja skiptið sem ég keppi í Orminum og eins og margoft hefur komið fram hérna á blogginu þá er þetta uppáhalds keppnin mín og brautin hentar mér vel. Þetta mót var í efsta forgangi hjá mér í sumar og markmið að vera á palli. Meira um það hér á eftir.

Kort og "hæðarprófíll af brautinni. Farinn er rangsælis hringur um Löginn.

Brautin

Ræst er rétt sunnan við N1 á Egillstöðum og stefnt í norður yfir brúnna að Fellabæ. Þar er beygt í vestur í gegnum Fellabæinn og farið inn á Upphéraðsveg (F931) og hjólaði upp með fljótinu. Þegar komið er að Fljótsdalsbrúnni er farið yfir og svo liggur leiðin aftur til baka í gegnum Hallormsstaðaskóg.

Brautin er 68 km löng og með ca. 660 metra hækkun. Hækkanirnar eru hinsvegar mest styttri brekkur og margar þeirra eru býsna brattar, sértaklega á fyrri helmingi að Fljótsdalsbrúnni. Hækkunin á seinni hlutanum eru í raun svipuð í metrum og á þeim fyrri, en mun lúmskari. Aflíðandi brekkur sem maður tekur minna eftir. En bröttu brekkurnar í upphafi hafa yfirleitt unnið svo mikinn skaða að fremsti hópur er yfirleitt búinn að þynnast verulega.

Við Harpa hjóluðum rólega í klukkutíma á föstudagsmorgun, daginn fyrir mót.

Undirbúningur

Þrátt fyrir smá áhyggjur í síðsutu viku að ég væri þreyttur og jafnvel búinn að taka aðeins of vel á því, þá held ég að ég hafi gert vel í því að toppa. Ég var að einbeita mér að því að taka rólega túra með sprettum, draga niður tímana á hjólinu og ná góðri hvíld inn á milli. Skv. mælaborðinu mínu á Training Peaks þá var ég úthvíldur og TSB og ATL línurnar búnar að krossa þremur dögum fyrir mót (fyrir þá sem eru djúpt sokknir). Ég hvíldi alveg á fimmtudeginum fyrir mót en hjólaði mjög rólega í klukkutíma á föstudagsmorguninn. Á föstudaginn át ég vel af kolvetnum frá morgni til kvölds, að mestu hollt en smá nammi líka. 

Keppnisdagur og morgunmatur

Þetta er s.s. alltaf sama sagan hjá mér. Vaknaði 2,5 klst fyrir ræs og tróð í mig fullt af hafragraut með eggjum og sírópi. Drakk 2 bolla af kaffi. Át einn banana rétt fyrir ræs og drakk 2 glös af vatni. Alltaf mesta stressið að vera búinn að tæma bæði númer 1 og 2 og það gekk ágætlega :)

Upphitun og síðustu mínúturnar fyrir mót- svolítið sérstök mynd af okkur skötuhjúum. Mynd: Wiktor Stankowiak

Samkeppnin

Eins og vanalega var maður búinn að vakta vel hverjir væru að fara að keppa og ég spáði því fyrir mót hverjir yrðu í 6 efstu sætunum. Það voru (ekki í réttri röð svo við höldum spennu í þess): Stebbi Garðars, Hjalti Jóns, Þorbergur Ingi (Tobbi) og Röggi hjá HFA- og svo Jón Arnar hjá Tind sem er íslandsmeistari í B-flokki. Það eina sem ég vissi var að ég ætlaði að hanga í Þorbergi eins lengi og ég gæti.

Ég var frekar léttklæddur miðað við oft áður.

Veður, aðstæður, klæðnaður og næring á hjólinu

Veðrið var s.s. alveg prýðilegt þegar keppnin var að byrja. Norðan andvari og hitinn á bilinu 10 - 12°C. Síðan jókst aðeins vindurinn og var strekkingur á móti seinni helminginn. Ég ákvað að vera í stuttbuxum og stuttermatreyju en var í síðerma innan undir. Ég át 4 venjuleg gel á hjólinu og eitt koffíngel. Drakk tæpan brúsa af kolvetnablöndu með steinefnum.

Barátta í gangi, Tobbi, ég, Stebbi Garðars, Röggi, Daníel og Hjalti. Mynd: Wiktor Stankowiak

Keppnin sjálf

Þar sem ég var staðráðinn í að vera í toppbaráttunni frá fyrstu mínútu kom ég mér fyrir fremst í startinu. Fram að brúnni við Fellabæ leiddum við Jón Arnar hópinn að mestu en svo fór Tobbi fram úr okkur. Röggi hengdi sig svo í Tobba og ég í rassgatið á Rögga. Ef ég man rétt var ég svo orðinn fremstur aftur í gegnum Fellabæinn eftir fyrstu brekkuna en við vorum svo nokkur sem fórum saman upp bröttu brekkuna út úr Fellabænum og þarna reikna ég með að mjög margir hafi dottið aftur úr.

Eftir þetta var ég að djöflast fremst og var svo allt í einu kominn í fínasta færi að stinga af með Hjalta og Tobba. Ég fer svo að taka púll og reikna með að þeir komi með en tek þá allt í einu eftir að þeir eru sestir upp og bíða eftir hópnum. Þarna var ég kominn með bil á hópinn sem var kannski 8 hjólarar. Ég var í eitt augnablik að spá í hvort ég ætti bara að þrusa áfram og pressa en fattaði ekki fyrr en eftir mót hvað var í gangi. 

Ég, Tobbi og Hjalti orðnir fremstir. Mynd: Wiktor Stankowiak

Eftir þetta slakaði ég aðeins á inngjöfinni og hópurinn rann saman aftur. Á þessum tímapunkti hafði ég ekkert of miklar áhyggjur og ákvað að safna smá kröftum í hópnum. Taktíst séð vissi ég ekkert hvað var í gangi og mér leið vel- fannst ég eiga nóg inni. En svo sofnaði ég örlítið á verðinum og Stebbi, Hjalti og Tobbi gerðu árás sem virtist saklaus í fyrstu og náðu smá bili. Ég var aðeins of seinn að fatta hvað þetta var hættulegt og náði ekki að loka bilinu strax. Ég reyndi svo að fá hina til að vinna með mér en það gekk of seint og kannski voru allir bara orðnir frekar grillaðir.

Þegar þarna var komið sögu vorum við orðnir fjórir að reyna að vinna þetta bil niður, ég, Jón Arnar, Röggi og Daníel. Það leit ekkert svo illa út í fyrstu en fljótlega duttu svo Daníel og Röggi út og við Jón Arnar vorum bara 2 eftir. Þó Jón Arnar sé gríðarlega öflugur þá var við ofurefli að etja og brekkurnar hægðu alltaf mikið á honum. Bilið fór smám saman að aukast.

Við tók langur klukkutími þar sem við Jón skiptumst á að taka púll en vissum innst inni að þetta var búið. Við hjóluðum saman restina af leiðinni og hann tók mig svo í endaspretti. Tobbi var í fyrsta sæti, Hjalti í öðru, Stebbi í þriðja, Jón Arnar í fjórða og ég í fimmta sæti.

Hjalti, Tobbi og Stebbi komnir með 15 sekúndur á okkur hina. Mynd: Wiktor Stankowiak

Eftir mótið kom svo í ljós að Tobbi, Stebbi og Hjalti höfðu ákveðið að vinna saman og það var ástæðan fyrir því að Hjalti og Tobbi unnu ekki með mér þegar við vorum orðnir fremstir og gátum stungið af. Ég reiknaði alltaf með að Stebbi og Tobbi væru í einhverju plotti en vissi ekki með Hjalta og þetta ruglaði mig aðeins. Þeir höfðu s.s. verið að bíða eftir Stebba þegar þeir unnu ekki með mér og vildu ekki hafa mig með. Þetta var vel heppnað hjá þeim og það þýðir ekkert að vera fúll yfir því. Svona eru hjólreiðar. 

Ég er hinsvegar drullusvekktur yfir því að hafa ekki fattað hvað var í gangi og annaðhvort i) haldið pressunni þegar ég var kominn með bil eða ii) ráðist strax á þá þegar þeir voru að lauma sér 3 fremst. Mér fannst ég alveg hafa lappirnar í þetta þennan daginn. My mistake.

Helstu tölur

Vattamælirinn var í ruglinu í keppninni í fyrra og því var ekkert að marka hvað var í gangi þar og ég get ekki borið mikið saman við fyrra ár. En í fyrra leið mér reyndar alveg hreint frábærlega og var mjög öflugur. Í ár var ég ógeðslega sprækur í upphafi en verð að viðurkenna að ég var farinn að lýjast þegar það voru 20 km. eftir. Kannski var það vegna þess hvað það var eitthvað hálf vonlaust að vera bara tveir á móti vindinum og sjá þessa fremstu ekkert aftur.

Tölurnar mínar úr mótinu.


Fyrir ofan má sjá tölurnar hjá mér úr þessu móti og ég var að halda rúmlega 3,5 w/kg í tæpa tvo klukkutíma sem er alveg þokkalegt. Ég var í 236 vöttum fyrri helminginn og svo í 212 vöttum þann seinni sem sýnir að maður var orðinn dasaður og svo vorum við alltaf að skiptast á að taka púll og gerðum engar árásir. Hjartslátturinn er einhverra hluta vegna lægri en stundum áður og ég kann s.s. enga skýringu á því.

Tíminn hjá mér var 1:54:45 (gleymdi að slökkva á Garmin) og er það undir brautarmetinu sem sett var í fyrra. Það ber þó að hafa í huga að malarkaflinn sem var í fyrra er horfinn.

Samantekt og punktar

Ég reyni alltaf að draga lærdóm af öllum mótum en ég er svolítið ringlaður eftir þetta mót. Mér líður allavega eins og þetta hafi verið taktísk mistök og ég hefði ekki átt að missa þá. Mér fannst ég í fanta formi og í fyrsta skipti eftir hjólamót líður mér eins og ég hafi tapað. Og það er svekkjandi að vita að maður hefði getað stungið af með Hjalta og Tobba á einhverjum tímapunkti en það hafi ekki verið í plönunum. Svona er þetta.

Mótið hjá Hörpu

Harpa með Orminum.

Harpa hékk í okkur strákunum eitthvað upp fyrstu brekkurnar en helltist þá úr lestinni. Hún fann sér svo hjólafélaga sem voru til í að rótera með henni það sem eftir var og hún rústaði kvennaflokkinn á nýju brautarmeti (02:02:13). Hún var 11 mínútum á undan næstu konu og ég náttúrulega alltaf jafn stoltur af henni ❤️

Harpa að taka við verðlaunum.

En núna ætla ég að láta rykið aðeins setjast og svo gera keppnisárið upp í heild. Núna ætla ég að njóta þess að taka ekki planaðar æfingar heldur bara eitthvað skemmtilegt. Ég ætla að taka rólegt hjól á morgun og svo ætla ég að bæta besta tímann minn upp í Skíðahótel á miðvikudaginn.

Góðar stundir

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Útivera

Negri í Þistilfirði

Bikarmót #1 - 2023 - Recap