Ormurinn 2024 - volume 4

Ég og Sóley að vinna Rögga til baka.

Þá er Ormurinn búinn í ár, en þetta hefur alltaf verið mín uppháhalds hjólakeppni. Hluti af skýringunni er kannski sú að mér hefur alltaf gengið frekar vel í þessu móti. Í fyrsta skipti (2021) var ég jafn í fjórða sæti og tvö næstu skipti í 5. sæti. Nú ætlaði ég á pall.

Fyrir þá sem þekka ekki keppnina og leiðina þá er pistill hér.

Hjólalíf.

Undirbúningur og annað

Í ár gistum við á Icelandair Hótel á Egillsstöðum og það var náttúrulega mjög hentugt. Við áttum tvær nætur bókaðar en afbókuðum seinni nóttina þar sem við ákváðum að keyra beint eftir mót til Reykjavíkur og keppa í Íslandsmeistaramótinu í Crit. Vöknuðum 06:30 og ég tróði í mig lítilli dós af grjónagraut og svo fórum við í morgunmat. Fyrsta skiptið á ævinni sem ég borða ekki hafragraut fyrir keppni (pælingar um það seinna). Kvöldið áður átum við með öllu HFA genginu á Aski pizza- snilldar hlaðborð og fínt carb load.

Að spjalla við Davíð fyrir upphitun.

Veður og fataval

Það var búin að vera ausandi rigning þegar við mættum á svæðið kvöldið áður en skv. veðurspá átti að stytta upp og vera í kringum 10°C. Veðurspáin stóðst nokkuð vel og ólíkt fyrri árum sem ég hef keppt þá var sunnan vindur. Við vorum því með vindinn í fangið fyrri partinn úr Fellabæ að Fljótsdalsbrúnni. Kuldaskræfan ég ætlaði að vera í stuttbuxum, keppnistreyju og vesti- en sem betur fer gleymdi ég að fara í vestið og fattaði það bara á ráslínu. Hefði nefnilega ekki mátt vera betur klæddur.

Samkeppni

Ég var búinn að gera mér vonir um að vinna þetta mót jafnvel, en Þorbergur Ingi skráði sig á síðustu mínútu og þá vissi ég að þetta yrði þungur róður. Það getur náttúrulega allt gerst í svona móti en ef Þorbergur á fínan dag þá á maður ekki séns. Annars var það helst Rögnvaldur sem maður bjóst við að lenda í baráttu við en ég hafði alltaf lent ofar en hann í mótum hingað til. 

Ég og Sóley að ná Rögga.

Keppnin

Ég kom mér fyrir framarlega á ráslínu og það er óhætt að segja að allt hafi farið í botn strax. Kaflinn að Fellabæ var tekinn á útopnu og ég var á 250 vöttum bara við að hanga í rassgatinu á einhverjum. Klikkunin hélt svo áfram í brekkunum í Fellabænum og fljótlega (veit ekki alveg hvar nákvæmlega) vorum við fimm sem slitum okkur frá restinni af hópnum: ég, Tobbi, Röggi, Sóley og Silja Jó. 

Þó við höfum verið orðin fimm saman þá er ekki hægt að segja að þetta hafi róast neitt alveg strax og það voru rykkingar í gangi sem gerðu mér lífið leitt því ég var ekki í alveg nógu góðu standi. Á einhverjum tímapunkti sleit Tobbi sig frá okkur og Röggi gerði svo árás og náði að brúa til Tobba en skilja okkur hin eftir. Silja náði svo yfir til þeirra og ég og Sóley urðum tvö eftir. Þegar þarna var komið sögu var ég gjörsamlega á hælunum og hafði verulegar áhyggjur af því að ég hefði farið of djúpt og væri búinn að vera. 

Fljótlega sáum við að Röggi hafði misst af Silju og Tobba og þá vissi maður að við mundum ná honum. Að sjálfsögðu vonaði maður að hann væri það grillaður að maður næði svo að stinga hann af, en hvar nákvæmlega maður ætti að reyna það- það vissi ég ekki. 

Loksins fór maður ekki tómhentur heim.

Við Sóley náðum svo Rögga á Fljótsdalsbrúnni. Á þessum tíma var ástandið á mér eitthvað að skána en ég fann samt að ég átti ekki mikið inni. Upp brekkuna frá brúnni stóð ég tvisvar upp til að pumpa aðeins og athuga hvort ég væri líklegur til að geta hrist Rögga af mér en hann virtist í fínu standi og fylgdi mér auðveldlega. Þá vissi ég að það væri ekkert annað að gera en að hanga þrjú saman og gera sitt besta í endaspretti.

Síðan gerðist í raun ekki neitt fyrr en að tveir kílómetrar voru eftir, en þá gerði Röggi árás og ég þurfti að fara vel yfir 400 vött í tæpa mínútu til að fylgja því eftir. Hann sagði mér eftir mótið að hann hafi ætlað að testa mig þar sem hann vissi að ég væri þreyttur og hafði ekki búist við að ég næði að fylgja honum.

Eftir þetta hægðum við vel á okkur og ég fór að vona að hann færi fram úr mér en hann gerði rétt og beið alltaf fyrir aftan mig. Þegar kannski 300 metrar voru eftir þá tók hann viðbragð og fór í endasprett og ég átti ekki nóg á tanknum til að fylgja honum eftir. Á tímabili hélt ég að ég næði í skottið á honum en þegar við vorum að koma að marklínunni þá var bilið farið að aukast aftur. 

Niðurstaðan 3. sæti og ekki hægt að kvarta yfir því.

Helstu tölur

Helstu tölur af Strava.

En einu sinni birti ég hér helstu tölur án þess að nenna að kafa neitt í málið og velta mér upp úr þessu. En staðreyndin er sú að tölurnar í ár eru alveg á pari við það sem þær voru í fyrra. Ég var heldur ekki að setja nein PR og hef farið hraðar upp allar brekkur. Miðað við hvað ég er búinn að æfa vel þá hefði maður að sjálfsögðu viljað hafa þetta öðruvísi.

Við skötuhjú eftir mótið- náðum bæði 3. sæti!

Samantekt

Gaman að fá verðlaun en svekkjandi að tapa í endaspretti. Ég hefði ekki átt að leyfa Rögga að dingla svona fyrir aftan mig en hann gerði þetta ágætlega. Tveimur vikum fyrir mót tókum við Ingvar tappann úr og reyndum að hvíla mig. Ég var farinn að sýna merki um ofþjálfun og sennilega búinn að grafa mér smá holu sem ég komst ekki alveg upp úr. Ef ég hefði átt góðan dag þá hefði ég átt að ná að fylgja Silju.

Um morgunin át ég grjónagraut í staðinn fyrir hafragraut með eggi. Ég held að þetta hafi ekki staðið jafn vel með mér og ég hugsa að ég geri þetta ekki aftur. Það er í lagi fyrir stutta crit keppni en ekki svona langa.

Að lokum, ég gerði engin stór taktísk mistök í þessu móti. Ég bara átti ekki meira inni.


Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Útivera

Negri í Þistilfirði

Bikarmót #1 - 2023 - Recap