Bikarmót í Kjós [6. júlí] - recap í seinna lagi.

Maður verður að gefa stefnumerki- líka í mótum. Bið ljósmyndara velvirðingar að muna ekki hver hann er.

Þetta recap frá bikarmóti verður með óhefðbundnu sniði enda langt um liðið og minnið gloppótt hjá miðaldra manni. Ég hef fjallað áður um brautina og nenni því ekki. Pistil um hana má lesa hér.

Ég var alveg kátur þegar ég kom í mark þrátt fyrir að ég hefði viljað vera ofar.

Annars var þetta allt með hefðbundnu sniði. Gistum hjá Helgu systur og mótið byrjaði ekki fyrr en kl. 10:00 þannig við vorum ekkert allt of stressuð. Hafragrautur með sírópi og smá kaffi.

Veður þokkalegt þegar við komum á staðinn. Yfirleitt er skárra hlémegin þar sem startið er (við Meðalfellsvatnið) en svo ríkjandi vindur á móti hinumegin (Kjósaskarðvegur í austur). Ákvað að vera í keppnistreyju og vesti því mér fannst kalt að hjóla á móti næðingnum. Hefði betur sleppt vestinu- bæði upp á hita og til að minnka vindmótstöðu.

Taktík

Ég fór pressulaus inn í mótið og þar sem það eru engar brattar brekkur þá átti ég ekki von á að gera neinar rósir. Eina markmiðið var að hanga í fremsta hópi allan tímann. En ég ákvað líka að kannski væri sniðugt að prufa eitthvað nýtt- gera árásir eða reyna að fá einhvern með í breik. 

Mynd sem Dísa tók af okkur skötuhjúum.

Kepnnin

Eins og ég sagði áðan þá er minnið gloppótt og ég man s.s. ekki eftir neinu sérstöku til að segja frá. Ég var þokkalega mikið frammi og reyndi að vera aldrei aftarlega þegar farið var í beygjur- en það hafði kostað mig mikið árið áður. Þetta gekk að mestu vel en það var samt einn þarna sem var með þá taktík að keyra frá sér allt vit eftir beygjuna af Kjósavegi yfir á Meðalfessveginn. Þetta reyndist mér erfitt og á öðrum hring missti ég hópinn og var lengi að vinna mig til baka.

Annað sem vert er að minnast á; á öðrum hring náðum við Björn Kári og Ármann Gylfa nokkru bili á hópinn en vorum of lengi að fatta það og byrja að vinna saman. Hefði alveg verið til í að komast með þeim í breik.

En þetta var barátta hjá mér upp á líf og dauða og á síðasta hring, í fyrrnefndri beygju, þegar rúmir 2 km eru eftir, þá keyrði þessi gaur (sem varð svo í þriðja sæti) enn einu sinni upp hraðann og sleit mig og Jón Arnar frá 6 manna hópi sem náði bili. Ég og Jón náðum þeim svo aftur en ég hafði ekki power í að fylgja þeim í endasprett. Ég kom  að lokum 8. í mark og 20 sekúndum frá fyrsta manni.

Þó það hafi verið hvasst hinumegin við Meðalfellið þá fengum við bongó eftir mót og það var snilld að fá sér hammara í góðum félagsskap.


Samantekt

Framför frá árin áður og maður er farinn að þora að taka meira pláss í hópnum og vera fremst. Líður betur, þekkir mannskapinn betur og þetta er skemmtilegra þó þetta sé ógeðslega vont á köflum. Ef ég hefði verið ennþá framar í beygjunni títtnefndu tvo síðustu hringina hefði ég ekki þurft að brenna upp svona mörgum eldspýtum og kannski endað ofar. Augnabliksmistök geta kostað mikið. Ef ég ætla mér ofar í þessu móti þá þarf ég einfaldlega að stækka mótorinn ennþá meira.

Helstu tölur

Lykiltölur úr Strava.

Nenni ekki í einhverja djúpa greiningu á helstu tölum en það var eitthvað meira sinnep í þessu hjá mér í ár samanborið við 2023. Þá missti ég hópinn og lenti með Vali, Sóleyju og einhverjum gaur í hóp. Þrátt fyrir meiri vind í ár þá var hraðinn meiri og tíminn 7 mínútum betri. 

Harpa og Valgerður á palli- Júlía Odds ekki á mynd. Harpa varð 3. í B-flokki kvk.



Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Útivera

Negri í Þistilfirði

Bikarmót #1 - 2023 - Recap