Bikarmót 3. - recap

Í endaspretti með Vali Rafni. Mynd: Anton Gunnarsson

Þá er þriðja og síðasta mótið sem telur til stiga í bikarmótaröð HRÍ búið og um að gera að fara aðeins yfir hvernig þetta fór hjá mér. Mótið var haldið í Kjósinni í gær laugardaginn 08.07.2023. Ég komst heill út úr þessu og hefði sennilega tekið þessum úrslitum ef mér hefði verið boðið það fyrir fram.


Brautin sem var farin í Kjósinni í gær.

Brautin

Brautin sem var farin var rúmlega 22 km hringur réttsælis í Kringum Meðalfell í Kjós. Ræst var við Kaffi Kjós en endamarkið var við tjaldsvæðin og lokasprettur í smá brekku sem er fínt til að hemja hraðann. Það voru 17 skráðir í B-flokk karla að þessu sinni en við vorum ræstir út með A-flokki kvenna og máttum "drafta" þær og öfugt. Það var í rauninni bara fín tilbreyting sem stækkaði hópinn og opnaði fleiri möguleika.

Ég var búinn að væla yfir því fyrir keppnina hvað þetta væri flöt braut (sem hún vissulega er) en þessar litlu aflíðandi brekkur áttu samt alveg eftir að taka aðeins í. B-flokkur karla fór 4 hringi sem skilaði 91 kílómeter.

Undirbúningur

Ég tók tvær VO2 max æfingar í síðustu viku og eina 2 tíma æfingu ofarlega í Zone 2. Eins og ég kom inn á þá var þreyta í mér í VO2 æfingunum en mér leið vel í endurance æfingunni. Ég hvíldi vel á föstudaginn og át mjög vel, þ.m.t. stóran skammt af spaghetti og hvítlauksbrauði um kvöldið. Eini andlegi undirbúningurinn var að reyna að fara inn í þessa keppni án pressu og vera nákvæmlega sama hvernig þetta endaði. Reyndi að gefa mér kredit fyrir að vera kominn í hörku form og nú væri bara spurning um að vera grimmur og með sjálfstraust. Það voru samt einhver ónot í mér eftir hættulegar aðstæður á köflum í KIA keppninni og ég var því óþarflega stressaður. 

Stuttu fyrir startið, sólin skein og við því ánægð.

Keppnisdagurinn

Það var ræs hjá okkur í keppninni klukkan 10:00 og við þurftum því ekki að vakna fyrr en klukkan 07:00. Ég hrærði fullt af hafragraut og þrælaði honum í mig með hlynsýrópi. Ég lét nægja einn bolla af kaffi til að reyna að hemja vatnslosun og klósettferðir. Ferðin gekk vel upp í Kjós og við vorum einna fyrst á staðinn. Við tókum nokkra kílómetra í upphitun og mér leist ekkert allt of vel á þetta. Ég var eitthvað hálf þreyttur og flatur. En það getur s.s. snúist hratt við og ég ákvað að vera ekkert að velta mér upp úr því.

Veður og fatnaður

Þetta er fyrsta hjólamótið sem ég tek þátt í þar sem veðrið er virkilega gott. Sólin braust fram um það leiti sem við renndum í hlað og hitinn var sjálfsagt um 15°C. Það voru því stuttbuxur, þunnir sokkar, engar skóhlífar og stuttermabolur. Ég reiknaði samt alveg með því að það kæmi einhver innlögn frá sjónum og klæddi mig í langerma treyju innanundir. Það slapp en hefði verið betra upp á kælingu að vera bara á bolnum. Maður veit aldrei. En þegar mótinu lauk var brostið á með sólbrunablíðu og þetta var alveg hreint geggjað.

Frá startinu. Mynd: Hrönn Jóns

Keppnin

Ég kom mér fyrir nokkuð framarlega á ráslínu og var eitthvað að reyna að pota mér upp hópinn fyrstu kílómetrana. Ég lenti í sama veseni og oft áður- mér skolaði niður hópinn trekk í trekk og þurfti að eyða alltof mikilli orku að hanga í eftir beygjurnar.

Þegar fyrsta hring var að ljúka var ég framarlega og sá að einn var búinn að gera árás án þess að nokkur brygðist við því. Mér leið vel og ákvað að kýla á þetta og fór á eftir honum. Við þetta tók hópurinn við sér og brúaði til okkar aftur fljótlega. Þetta setti hinsvegar tóninn hjá mér, gaf mér aukið sjálfstraust og næstu 35 -40  kílómetrana var ég mikið að hamast með fremstu mönnum. Það tók vel í en mér leið miklu betur á þeim stað heldur en að vera í kraðakinu fyrir aftan.

Þegar þriðji hringur byrjaði kom ég mér aftur fremst og leiddi meira og minna niður að gatnamótum á Hvalfjarðavegi. Mér leið ennþá þokkalega og reyndi að fara ekki yfir strikið. Ég var hinsvegar staðráðinn í að halda mér fremst í gegnum næstu 2 beygjur svo ég gæti tekið þær á góðri ferð. En þarna urðu mér á mistök og fór að missa hjólara fram úr mér hægra megin og náði ekki að troða mér inn í. Ég var lokaður inni.

Finn ekki margar myndir úr mótinu en ákvað að setja þessa þar sem ég leiði hópinn. Það er nú eitthvað nýtt!! Mynd: Hrönn Jóns

Ég var því orðinn frekar aftarlega í fyrri beygjunni (inn á Hvalfjarðarveg) og þurfti að gefa allt í botn til að ná hópnum. Sama gerðist í næstu beygju (inn á Kjósaskarðsveg) og þarna var ég búinn með mikla orku á stuttum tíma. Fljótlega eftir að við beygðum inn á Kjósaskarðsveg datt svo einn við hliðina á mér og þetta teygði ennþá meira úr hópnum (sem hélt samt áfram). Ég náði mér þó nokkuð framarlega fljótlega en þá tóku stóru sleggjurnar við sér og gáfu allt í botn og nú var það dýrkeypt að hafa brennt upp eldspýtum í beygjunum. Ég missti því fyrst fremstu menn og lenti svo í bölvuðu veseni að ná að hanga í einhverjum sem gátu brúað bilið.

Eftir þetta var ég einn á auðum sjó í smá tíma að reyna að ná næstu 3 hjólurum sem höfðu ekki náð að hanga í hópnum. Þetta voru Valur Rafn, Gísli Sig og Sóley úr HFA. Ég hafði ekki hugmynd um hvort eða hversu margir væru fyrir aftan. Eftir ca. 15 mínútna threshold effort náði ég svo Vali sem hafði dregist aftur úr Sóley og Gísla og við Valur unnum saman og náðum þeim rétt áður en hringur 4 byrjaði. 

Ég, Sóley, Valur og Gísli að leggja af stað í fjórða hring. Mynd: Anton Gunnarsson.

Eftir þetta unnum við saman fjögur ef frá er talinn tími sem Sóley barðist fyrir lífi sínu út af krömpum og við gáfum henni frí. Hún vissi að hún ætti möguleika á fjórða sætinu í sínum flokki ef enginn næði okkur. En hún er grjóthörð, kom sér aftur í gang og sló ekki slöku við að púlla með okkur hinum. Þegar þarna var komið sögu áttum við þó ekki raunhæfa möguleika á að ná fremstu mönnum (sem við vissum ekki hvað voru margir) og því vorum við ekkert að drepa okkur á álagi. Það var samt aðeins í lokin sem við fórum að hafa áhyggjur af því hvort einhver kæmi aftan að okkur og keyrðum aðeins upp hraðann.

Þegar ca. 20 kílómetrar voru eftir fór ég að velta því fyrir mér hvort við Valur og Gísli ættum að gera með okkur samkomulag um að koma saman í markið. En ég ákvað að bíða og sjá hvort þeir myndu stinga upp á því fyrst og langaði helst að komast í endasprett. Ég þagði því bara og ákvað að bíða og sjá hvað gerðist.

Rúmlega kílómeter frá markinu kemur aflíðandi brekka og þar var ég búinn að velta fyrir mér að gera árás ef enginn samningur væri í höfn en var það þreyttur að ég ákvað að sitja á mér. Ég ákvað að halda mig fyrir aftan Val og Gísla ef hægt væri og bíða og sjá hvað þeir gerðu. Gísli var svo fyrstur af stað í endasprett en dalaði fljótt. Valur fylgdi á eftir honum og mér fannst hann líka byrja frekar snemma. Ég hengdi mig svo rassgatið á Vali og hékk í draftinu þar til voru svona 50 metrar eftir. Þá gaf ég í og átti nóg til að pota dekkinu örlítið á undan honum yfir línuna og það skilaði mér 10. sæti.

Þegar við renndum öll fjögur yfir marklínuna föðmuðumst við og vörum super ánægð. Þetta var eiginlega bara mjög falleg stund. Sóley ótrúlega ánægð með að hafa endað svona ofarlega en ég hafði s.s. ekki ennþá hugmynd um hvar ég endaði.

Röggi var eini karlinn fyrir utan mig sem var að keppa fyrir HFA í B-flokki og hann endaði aðeins fyrir aftan mig. Hann þurfti að hjóla út í móa þegar gaurinn datt en slapp alveg. Það kostaði hann hinsvegar það mikið að hann náði aldrei hópnum. 

Orkuinntaka

Ég drakk 2 brúsa (einn af vatni og einn af SiS) og ég át 6 venjuleg gel og 2 með koffíni í lokin. Manni líður aldrei vel í maganum af þessu en núna var ég með nógan vökva og það hjálpaði til. Held að þetta hafi bara verið akkúrat passlegt. Reyndi að troða í mig á 20 mínútna fresti ef færi gafst.

Helstu tölur, ekkert óvænt þarna og ekki langt frá síðustu mótum.

Helstu tölur

Ég ætla ekki að staldra lengi við þetta því það er s.s. ekkert óvænt í þessu. Meðalvött, Intensity Factor og annað eru mjög svipuð og í síðustu mótum. Ég fékk þó heldur hærra Training Stress Score í fyrri mótum sem passar alveg við það að maður hafði það frekar rólegt síðasta hringinn.

Það hefur verið stærri hópur frá HFA að keppa en það var sannarlega góðmennt. F.v. Röggi, Ómar, Bjarni, Harpa, Anna Lilja og Sóley. Silja Jó sprengdi og var farin heim.

Sammendrag

Í heildina var ég að hjóla býsna vel og ég held að ég geti sagt að það hafi bara verið tæknileg mistök og klaufaskapur að klára ekki í hópnum með þessum 9 fremstu. Ég reikna nú ekki með að ég hefði komist á pall en mér þótti vænt um þegar Valur sagði að ég hafi verið klaufi að vera ekki í topp 5.

Ég barðist vel og var duglegur að vera frammi án þess að vera að eyða bara orku í vitleysu. Þegar þangað var komið hafði ég í fullu tré við alla sem voru að hjóla þarna og leið vel þar- miklu betur en í kraðakinu. Ég held ég sé aðeins að læra þetta.

Það kann að hljóma furðulega en það var líka gaman að finna hvað maður fékk mikið "respect" að hafa blandað sér meira í hóp fremstu manna. Eftir mótið komu einhverjir til manns að "klessann" og spjalla. Menn sem maður hefur aldrei talað við og manni fannst loksins að maður væri einn af hópnum.

Þetta endaði svo á verðlaunaafhendingu í 20°C hita og blússandi sól þar sem við spjölluðum við vini og kunningja og höfðum það ægilega gaman. Sannarlega ánægjulegur endir á bikar- og Íslandsmótum þetta sumarið.

Árangurinn hjá Hörpu

Harpa á palli með 

Harpa var ræst út með C-flokki karla sem fór 3 hringi (68 km) og var það líka bara skemmtileg nýbreytni fyrir hana að mega hjóla með þeim. Þar voru nokkrir trukkar sem vel geta haldið uppi hraða á jafnsléttu og það fór svo á endanum að hún var eina konan í B-flokki sem náði að hanga með þeim fremstu alla leiðina og hún kom í mark tæpum fjórum mínútum á undan vinkonu sinni Díönu Olsen (konunni hans Vals) sem varð í öðru sæti. Frábær endir á mótaröðinni hjá henni og ég ótrúlega stoltur af henni.

Loka loka..

Þó það liggi nú fyrir öll úrslit og stig í bikarkeppnunum þá er ég að hugsa um að bíða örlítið með að gera uppgjör fyrir tímabilið. Ég hugsa að ég bíði bara fram í ágúst þegar Ormurinn er búinn og geri þetta allt upp saman. En Harpa var að tala um það við mig um daginn að það yrði stórt stökk fyrir mig að byrja að blanda mér í baráttu 10 efstu manna og það tókst á laugardaginn.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Útivera

Negri í Þistilfirði

Bikarmót #1 - 2023 - Recap