Bikarmót #1 - Recap

Það var aðeins hærra á manni risið þegar maður kom í mark þetta árið!

Þá er fyrsta mót ársins búið og ég er bara nokkuð sáttur við hvernig fór. Í fyrra skrifaði ég mjög ítarlegan pistil um Suðurstrandarveginn og þar er að finna allar upplýsingar um brautina ef einhver hefur áhuga. Nenni ekki að skrifa það aftur.

Í fyrra var mér droppað á toppnum á Festarfjallinu og nú var bara eitt markmið og það var að hanga með fyrstu mönnum þangað upp og reyna svo að hanga í hópnum eins og ég gæti eftir það. En áður en ég fer að kafa ofaní keppnina þá ætla ég að búta þetta aðeins niður í minni bita og fara yfir undirbúninginn ofl.

Vikan á Training Peaks.

Undirbúningur: 

Síðustu vikur er ég búinn að keyra nokkuð hart á æfingar og hef verið að taka meiri ákefð heldur en ég er vanur. Ég skráði mig líka í æfingahóp HFA og það riðlaði aðeins hjá mér æfingunum. Ég var farinn að hafa áhyggjur af því að ég væri farinn að ýta mér aðeins of langt. Þegar ég var að hjóla í síðustu viku fannst mér ég vera orðinn flatur og vanta alla snerpu í lappirnar. Ég hafði ekki sama power og ég er vanur í stuttum brekkum. Púlsinn hjá mér var líka ekki að koma nægilega vel upp sem getur verið merki um þreytu.

Dagana fyrir mót tók ég 2 HFA æfingar og reyndi svo bara að hvíla mig vel. Það er búið að vera hrikalegt álag á mér í vinnunni og ég var með börnin í síðustu viku. Ég reyndi því bara að hvíla mig þegar ég gat, minnka æfingar og minnka aðeins kröfurnar á að hafa allt gjörsamlega fullkomið. Og ég passaði mig að sjálfsögðu að næra mig vel.

Í slökun kvöldið fyrir mót í HFA peysunum okkar. Helga systir hennar Hörpu spurði hvort við værum 70 ára þegar við sögðum henni að við værum í ferðapeysunum okkar🤣 En maður verður að standa með sínu félagi.

Það getur seint talist mikil hvíld í því að ferðast en föstudagurinn (dagur fyrir mót) heppnaðist samt ágælega. Við keyrðum suður í rólegheitunum, borðuðum hollan mat og gátum flatmagað á sófanum hjá Helgu systir hennar Hörpu um kvöldið. Fórum líka snemma að sofa.

Keppnisdagurinn:

Bara beisíkk; vakna klukkan 06:00, éta hafragraut með eggi og kanilsykri (var ekki með maple sýróp), drekka kaffi og reyna að kúka eins mikið og maður mögulega getur. Keyrðum út í Grindavík klukkan 07:00 og vorum komin vel fyrir rástíma sem var klukkan 09:03 hjá mér og aðeins seinna hjá Hörpu.

Það er alltaf snúið að ákveða sig í hvað maður klæðist á keppnisdag, sérstaklega þegar veðrið er ekki kræsilegt. Ég endaði í síðum buxum, merino-sokkum, langerma innanundir treyju og Pedla micro fleece hjólapeysu yfir. Buff um hálsinn, vettlingar og húfa undir hjálminn.

Veður:

Það var ekki kræsilegt veðrið á leiðinni frá Reykjavík til Grindavíkur. Það gekk á með skúrum, það var strekkingur og 6°C hiti. Á meðan við vorum að hita upp kom úrhellis eðalblanda af regni og hagli og þá flúði ég inn til að kyssa klósettið bless næstu klukkutímana. En í startinu skánaði veðrið og slapp fyrir horn þangað til við áttum kannski 20 km. eftir. Mér var því ekki kalt fyrr en nokkrum mínútum eftir að ég kom í mark, gegnblautur. Þá fór maður að hríðskjálfa.

Keppnin:

Ég kom mér fyrir fremst á ráslínu og var ákveðinn í að vera með fyrstu mönnum þegar við kæmum að Festarfjallinu. Það var mótvindur og ég droppaði því fljótlega aftur fyrir Rögga félaga minn úr HFA sem keyrði þetta áfram. Þegar við komum að fjallinu tók ég hinsvegar forystuna og var hissa hvað hópurinn tók seint við sér. En þegar leið á brekkuna fóru menn að renna framúr mér og að lokum var ég í stökustu vandræðum með halda í hópinn. Uppi á fjallinu var svo þokkalegur strekkingur og þá fór fljótlega að teygjast úr hópnum. Að lokum mátti ég hafa mig allan við (ég hélt ég myndi drepast) að ná í skottið á hópnum niður brekkuna hinumegin. EN ÞAÐ TÓKST! 

Tilfinningin að vera ennþá í hópnum þegar við komum niður á hraunin hinumegin við Festarfjallið var engu líka. Ég hafði náð markmiðinu og nú var bara að vona að þetta gengi vel áfram. Þegar þarna var komið sögu hef ég ekki hugmynd um hvað hópurinn þynntist mikið á fjallinu en ég hef grun um að það hafi verið allavega 4 sem aldrei náðu hópnum aftur. Maður hafði nóg með að halda sér bara á lífi og ekkert að horfa neitt aftur.

Við beygjuna að Kleifarvatni- mig skortir tilfinnanlega afl til að halda í við þyngri menn á jafnsléttu. Ég þurfti því mikið að standa upp og taka á honum stóra mínum til að detta ekki aftur úr. On and on and on.... það tekur mikið úr manni. Mynd: Ragnar F. Valsson.

Nú tók við 15 km kafli að fyrri snúningspunkti (um 5 km austan við Kleifarvatnsafleggjarann) sem var að mestu þægilegur. Það var þokkalegur mótvindur og því gáfulegast fyrir mig að reyna að fela mig í hópnum. Ég reyndi samt að halda mér frekar framarlega og kíkti einu sinni fremst og tók eitt púll. En ég sé það á Training Peaks að ég náði fínni hvíld þarna í rúmar 10 mínútur þar sem ég var að dingla á rúmlega 100 vöttum.

Í fyrra var ég dottinn aftur úr við snúningspunktinn og ég áttaði mig því ekki á því fyrr en of seint að það væri sniðugt að vera framarlega þegar snúið er við. Um leið og fremstu menn voru komnir fyrir keiluna var allt gefið í rauðabotn og ég þurfti að standa upp og taka 30 sekúndur á ca. 500 vöttum bara til að hanga í næsta manni. Þetta hljómar ekki mikið en þegar maður þarf aftur og aftur að taka svona hraðabreytingar þá fer það að taka í. Þarna lærði ég eitthvað nýtt; vera framarlega við snúningspunkt.

Peloton-ið á fleygiferð. Á meðan ég hékk í hópnum þá gekk mér ágætlega að vera framar en ég var í fyrra en maður þarf alltaf að hafa sig allan við svo manni skoli ekki aftur. Mynd: Ragnar F. Valsson.

Á leiðinni til baka að Kleifarvatnsafleggjara skiptist meginhópurinn gróflega upp í 2 hópa. Ég held að það hafi verið ca. 10 - 12 gaurar sem héldu sér að mestu saman fremst en við vorum kannski 6 sem drógumst aðeins aftur úr. Þegar við beygðum upp að Kleifarvatninu byrjaði ég að hjóla með Pétri Árna úr Tindi og ætlaði að reyna að hjálpa honum við að ná nafna mínum Gylfasyni úr Tindi og/eða Hlyni (veit ekki hvort það var) sem var búinn að ná forskoti á okkur. Þarna vorum við búnir að slíta Valdemar úr HFA og Arnar Má úr Tindi frá okkur. En Pétur er sterkari en ég á jafnsléttu og seig framúr hægt og rólega. Pétur náði svo hinum hjólaranum og við tók langur kafli hjá mér þar sem ég píndi mig á threshold til að ná þeim. Þegar brekkurnar við Kleifarvatnið komu fór ég að vinna á þá en Valdemar og Arnar virtust vinna saman og voru líka  að ná mér.

Við snúningspunktinn á Vatnsskarðinu NA við Kleifarvatn náðu Valdemar og Arnar mér og við unnum svo ágætlega saman til að ná hinum sem voru þá 3 (Bjarni, Hlynur og Pétur). Við vorum því orðnir 6 saman frá Kleifarvatni og niður á þjóðveg en slitum Valdemar úr HFA af okkur fljótlega. Þegar við komum niður á þjóðveg vorum við 4 sem lögðum í púkkið og héldum 40 - 50 km/klst en Arnar var eiginlega bara farþegi og alveg búinn á því.

Þegar við komum upp á hækkanir við Festarfjallið gáfu Hlynur og Bjarni í og við náðum að stinga Arnar og Pétur af. Uppi á Festarfjallinu skildi Bjarni sig frá okkur og ég stakk svo Hlyn af en sá Bjarna ekki meir. Hlynur náði mér hinsvegar á flatanum Grindarvíkurmegin og ég átti ekki til millilíter af eldsneyti til að hanga í honum á jafnsléttu. Ég gerði heiðarlega tilraun til að standa upp og keyra á þetta en lappirnar á mér krömpuðu um leið svo ég varð að segja þetta gott. Pétur og Arnar náðu mér hinsvegar aldrei aftur.

Pétur, ég og Valdemar úr HFA. Mynd: Ragnar F. Valsson.

Lokaniðurstaðan var að ég kom í mark á 02:37:05 klst. og var því 23 mínútum fljótari en í fyrra þegar ég var einn allan tímann. Tíminn minn er betri en sigurtíminn árið 2022 en þá var reyndar sennilega örlítið meiri vindur. Ég var 4 mínútum og 18 sekúndum á eftir fremsta manni og þakklátur fyrir að hafa verið í hópi sem vann vel saman til að bilið yrði ekki meira. Fyrirfarm hefði ég tekið þessi úrslit með þökkum.

Orkuinntaka:

Ég miðaði við að reyna að taka inn 4 gel á klukkutíma sem skila rétt um 90 gr. af kolvetnum/klst. En þegar ég taldi tómum bréfin lítur út fyrir að ég hafi bara étið 6 gel og svo drakk ég tæpa flösku af kolvetnablönduðum steinefnadrykk og eina af vatni. Ég velti því fyrir mér hvort ég hefði ekki átt örlítið meira inni í lokin ef ég hefði étið meira? Þetta ætla ég að bæta en það voru reyndar svo mikil læti í þessu að það var erfitt að finna stund til að taka inn gel.

Samanburður við mótið í fyrra:

Samanuburður á helstu tölum milli ára.

Þegar maður skoðar samanburð milli ára verður að hafa í huga að í ár var ég á betra hjóli og felgum og með annan vattamæli (gæti verið munur á milli). En svo skiptir líka máli hvaða FTP gildi maður var með skráð í Training Peaks. En aðalatriðið er hvað munar mikið um að vera í hópi, það sér maður á hraðanum. Meðalvöttin á milli ára eru svipuð en í fyrra þegar ég var einn mallaði ég bara á rúmlega 200 vöttum stanslaust, en í ár voru þetta endalausar hraðabreytingar og styttri sprettir með smá hvíldum fyrir aftan einhverja inn á milli. Það er skýringin á að Normalized Power er nokkru hærra í ár en þá er m.a. búið að taka út tímann sem maður er ekki að snúa pedölunum, t.d. á leið niður brekkur. Intesity Factor og TSS sýna líka að þetta tók meira á.

Nú er ég eiginlega búinn að lýsa þessu í mun meiri smáatriðum en ég hélt að ég gæti. Frá starti og fram á síðustu mínútu var brjálað aggression í þessu og maður vissi varla hvort maður var að koma eða fara. Maður átti nóg með að halda sér á lífi en með því að setjast niður og fara yfir þetta í huganum þá held ég þetta sé að mestu komið. En þetta var hrikalega dýnamískt og skemmtilegt.

Nokkrir punktar:

  • Þetta var ógeðslega erfitt og ég hélt ég væri að drepast eftir 30 km.
  • Ég lenti einn á auðum sjó en vann mig til baka.
  • Ég næ að jafna mig sæmilega eftir mjög erfiða keyrslur. 
  • Bæta orkuinntöku.
  • Brekkur eru vinir mínir og með því að halda mér á sama hraða og stærri menn upp brekkurnar þá á ég oft eftir power til að stinga þá af eftir brekkuna.
  • Að sama skapi eru brekkur niður í móti og flatlendi óvinir mínir (ekkert nýtt).
  • Ég var öruggari með mig í hópnum og óhræddari við troða mér framarlega.
  • Ef ég næ að vera skynsamur fram að næsta móti fer ég inn í það nokkuð bjartsýnn.
Harpa:

Harpa á palli með Fanney og Díönu.

Harpa vann þetta mót í fyrra en var í öðru sæti í ár í heildina á B-flokki. Stelpan sem vann í ár er 21 árs gömul og mjög efnileg. Harpa vann því allar konurnar sem hafa veitt henni keppni síðustu árin og eru í hennar aldursflokki. Hún var bara ánægð með það enda ekki viss þegar hún fór inn í mótið í hvernig formi hún væri. Það er ekki hver sem er sem gæti leikið þetta eftir miðað við allt sem er búið að ganga á í hennar persónulega lífi, brjósklos og 150% vinnu! Ég er ótrúlega stoltur af henni.

Á leið upp eina brekkuna við Kleifarvatn. Mynd: Ragnar F. Valsson.

Ég ætla að gefa mér tíma fljótlega til að skrifa um næsta mót (Mývatnshringinn). Þar verður barátta upp á líf og dauða hjá mér að halda mér á lífi að Presthvömmunum þar sem ég ætti að geta farið að skilja einhverja eftir.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Útivera

Bikarmót #1 - 2023 - Recap

Negri í Þistilfirði