Óreiða
| Við Eyjafjarðará á miðvikudaginn í fallegu en svölu veðri. |
Í heildina lítur þetta allt mun betur út með hjartsláttaróreiðuna. Ég tek núna væga betablokka og reyni að halda álaginu í skefjum eins og ég get. Allar æfingar eru komnar í „low intensity only“ – bara rólegt endurance á lágum púlsi – og ég er hættur að lyfta þungt. Í þessari viku fór ég tvisvar í ræktina, en þá er það bara létt og með teygjum. Engin hetjuskapur, bara viðhald og slökun.
Erfiðara er hins vegar að stýra álagi í persónulega lífinu. Það er eins og líkaminn sé að senda manni skýr skilaboð: „Slakaðu aðeins á, félagi.“ Ég hef greinilega verið of lengi í of háum snúningi, keyrt mig áfram á stressi. Það sem ég hef lesið um þetta bendir reyndar til þess að andlegt álag hafi meiri og verri áhrif á hjartað en líkamlegar æfingar – sem er bæði áhugavert og dálítið óþægilegt.
En að öðru – ég setti 50mm Suomi nagladekk undir gravel-hjólið og tók smá prufurúnt í vetrarblíðunni. Þessi dýrgripir eru með 252 nagla og það er óhætt að segja að þau bíti í ísinn eins og andskotinn. Þyngri en venjuleg gravel-dekk, vissulega, en það truflaði mig ekkert þegar ég var að trukka á mölinni. Ég var með frekar lágan þrýsting og dekkin voru mjúk, þægileg og stöðug. Alvöru félagar inn í veturinn og samgönguhjólreiðarnar.
Over and out – með hjartað í réttum takti
Ummæli