Súlur Vertical 23.08.2025 - Samantekt

Á leiðinni upp á Vaðlaheiði, Akureyri í baksýn. Mynd Ármann Hinrik

Jæja síðasti keppnispistillinn í ár og þriðja og síðasta gravel keppnin. Það er óhætt að segja að þessi þrjú mót hafi öll verið mjög ólík en þau eiga það þó sameiginlegt að vaxa með manni þegar frá líður. Það er eitthvað við upplifunina og stemmningua sem er einstak og svo gjörólíkt stemmningunni í götuhjólunum. Að hluta til held ég að það sé bara meiri náttúrutenging. Eftir að hafa hjólað að mestu á malbiki í nokkur ár þá man ég tilfinninguna sem ég fékk við að hjóla fyrstu ferðina upp á Vaðlaheiði í vor, þetta var eitthvað svo næs og að vissu leiti sama frelsistilfinning og hellist yfir mann í hjólaferðalögum.

Brautin

Klöppin- 80 km leiðin í Súlur Vertical.

Ræst var frá Kjarnaskógi og haldið sem leið liggur yfir gamla Vaðlaheiðarveg. Þegar komið er yfir í Fnjóskadal er farið yfir gömlu brúnna í Vaglaskógi (fyrsta járnbenta steinsteypubrú á Íslandi byggð 1908) og þaðan er hjólað í gegnum Vagla-, Lunds- og Þórðarstaðarskóg í Illugastaði. Þaðan er farið á slitlagi til baka aftur, yfir Vaðlaheiði og endað í Kjarnaskógi.

Leiðin er blanda af þokkalegum malarvegum (Vaðlaheiði), slitlagi (ca. 15% myndi ég giska) og svo slóðum í gegnum skógana sem eru alveg þokkalegir og ofboðslega gaman að hjóla þá. Það sem helst ber að varast er laus möl í beygjum á leiðinni niður Vaðlaheiði austanmegin og afmarkaðir kaflar í skóginum með stærra grjóti. Í samanburði við Riftið þá er þetta ekki neitt til að hafa áhyggjur af. 

Brautin er því frekar fjölbreytt, miðlungs hröð og með nokkuð miklu klifri sem reynist sumum frekar erfitt.

Undirbúningur
Það er óhætt að segja að undirbúningurinn fyrir þessa keppni hafi ekki verið upp á tíu því á fimmtudeginum þá fékk ég heiftarlega matareitrun eftir að hafa étið skemmdan kjúkling. Þann daginn þurfti ég að hætta á hjólaæfingu eftir að ég ældi lifur og lungum úti í Kjarnaskógi og þurfti að fá far heim. Ég lá svo eins skotinn þangað til á föstudagsmorgun en um miðjan þann dag byrjaði ég að reyna að éta einföld kolvetni (hrísgrjón og brauð) til að endurheimta kolvetni í vöðvana og sleppa próteini og fitu að mestu. Ég var einnig duglegur að drekka íþróttadrykki og sölt. Ég gerði allt sem ég gat til að koma mér í gang og gera mig keppnisfæran.

Að morgni keppnisdags leið mér alls ekki vel en ég náði samt að troða í mig 500 gr. af grjónagraut og smá kaffi. Síðan græjaði ég á hjólið, setti 2 Imodium drullutöflur í vasann og ákvað að ég skyldi allavega prufa að leggja af stað og sjá hvernig gengi.

Veður og klæðnaður
Kominn í mark alveg gjörsamlega búinn á því.

Geggjað veður annað mótið í röð. Ég var samt ekki alveg klár á því hvort lofthitinn yrði jafn mikill og spáð var og ákvað að vera í síðerma keppnistreyju. Að vanda var ég í Castelli Unlimited Endurance Bib Shorts frá TRI með hliðarvasanum. Segi það enn og aftur, þessir hliðarvasar eru leikbreytir. Annars ekkert til að tala um.

Það endaði nú samt þannig að veðrið varð betra en ég reiknaði með og meðalhiti á hjólatölvunni í kringum 20°C og maður varð því vel volgur, sérstaklega á leiðinni upp á Vaðlaheiði.

Hjólið
Engar breytingar á því og ég var á 45 mm Conti Terra Trail sem ég setti undir fyrir Grefilinn. Verkfæralagerinn og slanga eins og í síðustu keppnum- sjá í þessum pistli.

Taktík og samkeppni
Á upprunalega keppendalistanum voru einhverjar sleggjur en því miður þá drógu sig einhverjir úr leik. Af þeim sem eftir voru (12 karlar) þá vissi ég að Halldór Hermann (Dóri bróðir Tobba hlaupara) og Guffi voru sterkir. Eins var Ottó Elíasson skráður en ég var búinn að heyra að hann væri grjótharður þó hann hjólaði ekki mjög mikið.

Þar sem ég hafði verið að glíma við matareitrun þá var eina pælingin að halda mér bara eins framarlega og ég gæti og myndi svo bara snúa við ef allt færi í skrúfuna.

Í upphafi
Ég að gera mitt besta að hanga í Ottó. á leið upp á heiði.

Þegar við komum niður að flugvelli henti ég mér fremst í hópinn og leiddi yfir gömlu brýrnar. En um leið og við fórum að fara upp Knarrarbergsbrekkuna þá hinsvegar færðu Dóri og Otto sig fremst. Þeir héldu svo áfram að leiða hópinn upp Veigastaðabrekkuna og það voru bara ég, Guffi og Silja Jó sem náðum að fylgja þeim til að byrja með. Þegar við fórum svo að nálgast malbiksendann þá hinsvegar fóru Silja og Guffi að dragast aftur úr en ég gat með herkjum hangið í Ottó og Dóra.

Mynd tekin í Lundsskógi fyrr í sumar. Ótrúlega falleg og skemmtileg leið.

Á þessum tímapunkti hafði ég um tvennt að velja; reyna að halda þessu tempói, sem miðað við púlsinn á mér var alls ekki sjálfbært, eða að droppa aftur til Silju og Guffa. Ef mér tækist að halda í Ottó og Dóra og skapa bil á Guffa sem hann gæti ekki unnið til baka, þá væri allavega þriðja sætið tryggt. Fórnarkostnaðurinn gæti hinsvegar verið að gjörsamlega klára mig og vera úr leik. Ef ég myndi láta mig síga niður til Guffa og Silju þá gætum við kannski unnið saman og sparað orku en ég vissi lítið hversu lengi Ottó og Dóri myndu halda út. Ég tók því áhættuna og reyndi að hanga í strákunum.

Eftir því sem á leið upp á heiðina þá jók Dóri bilið á mig og Ottó og þegar við vorum að nálgast toppinn áttaði ég mig á því að Ottó hafði farið býsna djúpt og var aðeins að þreytast. Ástandið á mér var s.s. þokkalegt en ég hafði illan grun um að það myndi koma að skuldadögum. Á drykkarstöðinni á toppnum stoppaði Ottó en ég hélt áfram. Hann náði mér svo aftur á leiðinni niður og þegar við komum niður á þjóðveg hinumegin þá átti hann 10-20 sek á mig.

Vaðlaheiðin er þekkt fyrir sínar ótal beygjur.

Í miðjum leik
Þegar við komum yfir gömlu brúnna í Vaglaskógi þá var ég að verða búinn að loka bilinu á Ottó en það tók samt alveg aðeins í að klára það. Ottó var ennþá sprækari en ég hafði búist við en þegar við runnum saman að lokum þá áttum við ágætis spjall og veðrið var alveg undursamlegt. Við ákváðum að reyna að halda dampi en vorum sammála um að við værum farnir að þreytast. Það átti vel eftir að koma í ljós þegar við fórum upp bröttu brekkuna sem liggur upp í Lundsskóg.

Í Lundsskógi byrjaði Ottó á að leiða en að endingu stakk ég mér framúr honum og var svo allt í einu kominn með smá bil á hann. Ég reiknaði með því að það væri bara enn að draga af honum þannig ég hélt bara mínu tempo og bilið jókst frekar en hitt. Á drykkjarstöðinni við Illugastaði ákvað ég svo að fá mér eitt glas af Gatorade enda orðinn helvíti þyrstur og þegar ég er að hjóla af stað þá sá ég að Ottó var að nálgast mig. Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að bíða eftir honum en ákvað þess í stað að halda bara mína leið og reyna frekar að auka bilið á slitlaginu að Vaðlaheiðinni.

Þrátt fyrir nokkra þreytu á þessum tímapunkt þá gefur það ágætis hugmynd um stöðuna á líkamanum á mér að á næstu 12 km þá var púlsinn á mér í 161 en vöttin bara að lulla rétt undir tempo. Undir venjulegum kringumstæðum væri ég að taka threshold eða VO2 max á þessum púlsi. En þrátt fyrir að vera ekki á fullum afköstum þá náði ég að halda bilinu á Ottó stöðugu eða jafnvel auka það. En nú var heiðin að taka við og ég hlakkaði alls ekki til að takast á við hana.

Seinni hlutinn
Ég fann fljótt þegar ég lagði af stað upp á Vaðlaheiðina í seinna skiptið að þetta yrði erfitt. Þó gekk mér allt í lagi fyrsta þriðjunginn en þar tók Ingvar fram úr mér og það peppaði mann aðeins upp að ná spjalli við hann. Fljótlega upp úr þessu fór hinsvegar að þyngjast róðurinn og þegar ég átti ca. þriðjung eftir upp á heiðina þá hélt ég að ég myndi þurfa að stoppa þar sem ég var gjörsamlega tómur. Mér hefur aldrei liðið svona illa í keppni. Púlsinn var ennþá í +160 en núna hélt ég varla 150 vöttum og var kominn á frekar dimman stað. Í brekkunum fyrir neðan sá ég nú glitta í Ottó og var farinn að hugsa um að kannski væri ekki sem verst að ná bara 3. sæti og ég ætti kannski bara aðeins að hvíla mig og bíða eftir honum.

Að lokum náði ég þó að berja þessar hugsanir úr kollinum á mér og taka ákvörðun um að víst ég væri að þessu þá gæti ég alveg eins klárað mig gjörsamlega. Ég skellti því í mig einu koffíngeli og drakk vel af vatni sem ég hafði verið að spara óþarfalega mikið. Nú var að styttast í drykkjarstöðina á toppnum hvort sem er.

Á leiðinni niður af Vaðlaheiði vestanmegin- farið að styttast í þessu.

Það var hrikalega góð tilfinning sem fylgdi því því að ná hápunktinum á heiðinni og á drykkjarstöðinni drakk ég 1 glas af orkudrykk og eitt af vatni. Síðan lét maður sig rúlla niður hinumegin og ég man að þrátt fyrir að vera orðinn þreyttur í efripartinum þá hafði ég ágætis stjórn á hjólinu og þetta var mun skárra en í Riftinu. Þar sem ég er nú búinn að teygja þennan pistil út í það óendanlega þá bara lýk ég þessu á orðunum "og segir ekki meira af ferðum Bjarna fyrr en hann hann kom gjörsamlega handónýtur í mark og hafnaði í 2. sæti".

Tilfinning og líðan eftir mót
Sem fyrr segir gjörsamlega búinn á því og vel illt í maganum. Tilfinningin var samt góð og ég ánægður með annað sætið við þessar erfiðu aðstæður. Og lærði ég eitthvað af þessu? Ég náði að tjasla mér saman með stuttum fyrirvara og hlaða mig upp með einföldum kolvetnum og söltum. Ég fór dýpra en ég hef nokkru sinni gert og það slapp til núna. 

Næring: Tók 5x venjuleg Beta og 3x Beta með kaffín + 2 glös Gatorade og Gel á ráslínu = 113 g/klst

Ég, Dóri og Ottó.


Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

The Rift 2025 - Frá himnaríki til........

Mývatnshringurinn 2025 - Post Race Pistill

Negri í Þistilfirði