 |
| Þessi mynd eftir Arnold Björnsson finnst mér lýsa Greflinum svo ótrúlega vel. Á myndinni eru Addi Gústafs og Gummi Sveins. |
Jæja þá er önnur gravel keppni ársins (og lífsins) búin og ég ætla bara að leyfa mér að vera ánægður með hana. Ánægjan snýr að mestu leiti að því hvað þetta var gaman, hvað veðrið var gott og hvað það var fallegt. Er það ekki það sem þetta snýst allt um?
Þegar ég fór af stað í að græja mig fyrir gravel þá var ég með rómantískar hugmyndir um hvernig þetta "ætti" að vera en upplifði lítið sem ekkert af því í Riftinu. Ég var búinn að sjá fyrir mér að diesel-ast áfram eftir fallegum malarvegum sem liðast um sveitir landsins í góðum félagsskap. Vera með beljur á beit og bændur að klóra sér í pungnum á hliðarlínunni. Riftið var meira að hossast grenjandi um apalhraun og velta fyrir sér að gleypa rafhlöðuna úr afturskiptinum svo maður hefði afsökun fyrir að fá far til byggða.
Ekki misskilja mig, ég er ekki búinn að gefa Riftið upp á bátinn, það er bara annar leikur og krefst aðeins meiri og öðruvísi undirbúnings en ég hafði gert ráð fyrir. Ég lærði mikið.
Brautin
 |
| Grefillinn - 110 km leiðin. |
Það er ekki auðvelt að lýsa brautinni fyrir þá sem ekki eru kunnugir staðháttum í Borgarfirði. Fyrir keppnina var ég búinn að reyna að glöggva mig á þessu en varð hálf óglatt að horfa á þessa flækju á sama tíma og ég var logandi hræddur um að ég myndi villast. Ég hlóð þessu því bara inn í Garmin og spáði ekki of mikið í þessu. Mér finnst alltaf betra að glöggva mig á hlutunum þegar ég er búinn að upplifa umhverfið og ef keppnin verður haldin aftur þá vonandi man ég eitthvað. En leiðarlýsingin á heimasíðu keppninnar hljóðar svona:
Þessi leið liggur beint upp í Þverárhlíð, yfir Kjarrá fyrir ofan Örnólfsdal og gegnum kjarrið framhjá Þverárrétt og svo er beygt til hægri hjá Lindarhvoli til að fara upp Norðurárdalinn, mögulega í mótvindi. Þá yfir Grjóthálsinn og yfir Þverá hjá Sigmundarstöðum. Flestir keppendur ættu þá að vera orðnir blautir í fætur, í það minnsta. Farið er út úr Þverárhlíð og beygt til vinstri hjá Síðumúla til að fara upp Hvítársíðu, meðfram jökulánni Hvítá sem rennur niður á móti keppendum, mögulega með mótvind í fangið.
Þegar komið er að brúnni hjá félagsheimilinu Brúarási er beygt til hægri og farið smábút af malbiki og nánast strax til vinstri yfir í Hálsasveit og Reykholtsdal. Farið er framhjá Reykholti og rúllað örfáa km af malbiki þar til við hittumst á ný í Logalandi.
 |
| Uppi á Vaðlaheiði í síðasta æfingatúrnum fyrir Grefilinn. |
Undirbúningur
Æfingalega séð var gott jafnægi í aðdragandanum á þessu móti. Vikan á undan var þægileg og bara með einni tempo æfingu, en svo endurance og tvær auðveldar recovery-æfingar. Vikan þar á undan var hinsvegar frekar stór með tveimur fullorðins æfingum. Þetta var sjötta mótið mitt í sumar og miðað við það hefur Ingvar náð að halda mér nokkuð ferskum. Í fyrra fórum við aðeins yfir strikið og ég toppaði í upphafi tímabils en hann virðist vera að læra betur á mig.
Á mótsdag gerði ég smávægilegar breytingar því í staðinn fyrir hafragraut með eggi þá át ég 500 gr af grjónagraut úr dós með karmellusósu. Ástæðan var að ég gisti á hóteli og nennti ekki að taka með mér prímus. Þetta fór vel í mig og ég mun örugglega gera þetta aftur, sérstaklega ef ég þarf að éta í bíl eða hef lítinn tíma.
Veður og klæðnaður
Spáin var góð en kvöldið áður var helvítis strekkingur og kuldi í Hvítársíðunni (þar sem ég gisti). Ég var búinn að ætla að vera í Castelli stuttbuxunum með hliðarvösunum og Cube keppnistreyjunni minni. En það var eitthvað sem sagði mér að velja aðeins hlýrri treyju svo ég fór í Castelly Thermal Jersey sem er langerma og með smá einangrun. Milliþykkir merinosokkar og hanskar.
Það má segja að ég hafi neglt þetta nokkuð vel en þó varð mér frekar heitt á leiðinni upp grjóthálsinn og hefði ekki mátt vera meira klæddur síðustu 20 km þegar sólin var farin að skína. Vettlingarnir sem ég var með voru líka óþarflega þykkir og ég tók þá af um miðja keppni.
Hjólið og dekkin
 |
| Þau láta ekki jafn mikið yfir sér Conti dekkin en þau eru helvíti góð. |
Daginn fyrir mótið kíkti ég í fit til Ingvars og hann varð að viðurkenna að hann áttaði sig ekki á hverju væri hægt að breyta svo mér liði betur á græjunni. Staðan á hjólinu er virkilega góð og ég tikkaði í öll boxin nema að ég sit aðeins of mikið yfir pedulunum. Í neðstu stöðu er hnéið á mér 3-4 cm fyrir framan pedalann sem er ekki ídeal.
Þar sem ég kem hinsvegar hnakknum ekki aftar þá ætla ég að prufa að fá mér það sem kallað er "setback/offset" sætispóstur og þannig ná að ýta hnakknum örlítið aftar. Þetta gæti líka létt aðeins álagi af mjóbakinu. Annars var niðurstaðan að halda bara áfram að hjóla gravel og bæta inn í æfingum fyrir miðsvæðið og liðleika og sjá hvort ég komi ekki til. Sjálfur hef ég ákveðið að fara ekki aftur í mjög langa keppni fyrr en mér er farið að líða betur á hjólinu.
Aðrar breytingar sem ég gerði var að ég skipti aftur út 50 mm Schwalbe dekkjunum fyrir 45 Conti Terra Trail þar sem þessi braut er mun hraðari og sléttari en Riftið. Ég hef nefnt það áður að mér finnst Schwalbe dekkin svolítið slugsaleg og þung, sérstaklega upp brekkur og þetta var hárrétt ákvörðun. Ég mun líka vera á Conti dekkjunum í Súlum.
Taktít og samkeppni
Þarna var ég alveg úti í myrkrinu og þekkti lítið sem ekkert þessa gauka sem voru að fara að keppa á móti mér. Af þeim sem ég þekkti vissi ég að Jón Arnar og Guffi yrðu sennilega hættulegastir. Eins og venjulega ákvað ég bara að troða mér framarlega á ráslínu og reyna svo bara að vera með fremstu mönnum allan tímann.
Miðað við hæðakort af brautinni spáði ég náttúrulega í hvort maður gæti ekki gert góða árás á Grjóthálsinum en var ekki spenntur fyrir að vera einn hálfa keppnina. Sérstaklega í ljósi þess að ég var drullu hræddur um að geta villst. Það átti eftir að koma í ljós að þær áhyggjur voru ekki úr lausu lofti gripnar.
Fyrstu kílómetrarnir
 |
| Mynd: Arnold Björnsson |
Strax fyrstu kílómetrana tók einhver ungur strákur af skarið og fór að vera frammi eins og kóngur. Ég leyfði honum það að sjálfsögðu og reyndi bara að passa mig að gleyma mér og detta aftur í hópinn þó ég hafi ekki óttast árásir of mikið á þessum tímapunkti. Í fyrstu alvöru brekkunni sem kom rétt áður en við beygðum inn á malarveg ákvað ég hinsvegar að setja hamarinn niður og keyrði upp tempoið til að grisja hópinn og það virkaði prýðilega.
Viðskilnaðurinn við vaðið
 |
| Vaðið yfir Örnólfsdalsá, þarna urðu vendingar. Mynd Arnold Björnsson |
Eftir brekkuna beygðum við svo fljótlega af Þverárhlíðarvegi inn á malarveg sem heitir Ásbjarnarstaðavegur. Þar fór að verða erfiðara að taka fram úr og því var heppilegt að vera framarlega þar þó hópurinn væri búinn að þynnast mikið. Þarna byrja fyrstu árásirnar en ég náði að fylgja. Fyrsta vað dagsins kom svo fljótlega og eftir það gerði Pétur Jökull áras og stakk af.
Við vorum sennilega 7 eða 8 sem eltum Pétur og náum honum svo þegar hann fór vitleysu og þurfti að snúa við og ná okkur aftur.
Groddi við Höll
Næsta lykilmóment í keppninni er þegar við erum við bæinn Höll þar sem við erum að fara yfir múlann sem aðskilur Norðurárdal og Þverárhlíð. Þarna kemur drullugrófur kafli og nokkuð skörp en stutt hækkun. Þarna stungu Pétur Jökull og tveir ungir strákar úr HFR okkur af og mér var hætt að lítast á blikuna og farinn að finna fyrir þreytu.
Grjótháls
Á Grjóthálsinum stungum við Guffi hina félaga okkar af á leiðinni upp- en þeir náðu okkur svo á leiðinni niður aftur. Sumir hefðu reyndar átt að fara sér hægar því einn endaði langt fyrir utan veg en slasaðist sem betur fer ekki. En klifrið tók vel í og ég var nokkuð ánægður að ná því svona vel með 46T tannhjól að framan.
Fljótlega eftir að niður var komið þurftum við svo að fara yfir Litlu Þverá og þar hittum við annan HFR strákinn sem hafði sprengt. Við létum hann fá slöngu og allir gripu smá veitingar á drykkjarastöðinni. Við vorum svo fimm sem hjóluðum saman (ef ég man rétt) út af drykkjarstöðinni, ég + 2 Maggar, Guffi og Sverrir Örn (sem hafði fengið byltuna).
Villur á Þverárhlíðarvegi
Í Þverárhlíðinni lentum við svo í einhverju rugli með GPS tækin og vissum ekkert hvert við áttum að fara. Við lentum inn á vitlausum afleggjara og fundum ekki út úr því hvert við ættum að fara fyrr en ungi strákurinn úr HFR og Guðlaugur Egils náðu okkur aftur og sögðu okkur til vegar.
Hvítársíðan
 |
| Mynd: Einar Freyr Jónsson |
Í Hvítársíðunni reyndum við svo að ná upp smá róteringu á hópinn þó við vissum allir að litlar líkur væru á því að við næðum Pétri og Einari Vali sem voru ennþá fremstir. En menn geta jú alltaf lent í einhverjum hremmingum og maður veit því aldrei. Þarna fór maður að taka eftir því að sumir voru komnir alveg á felguna og hættir að geta púllað. Allt í einu var ungi HFR strákurinn horfinn og svo duttu Sverrir og Magnús Valgeir út. Við vorum því 4 enn í hópnum með von um að ná síðasta verðlaunasætinu.
Reyholtsdalur
Á leiðinn yfir í Reykholtsdalinn hætti svo Guðlaugur að halda í við okkur og við vorum því eftir þrír, ég, Guffi og Maggi Björns. Það var í rauninni ekkert minna en stórkostlegt að hjóla með þessum meisturum niður Reykholtsdalinn með goluna í bakið og sólina hátt á lofti. Sveitasæla, kindur á beit og ekki bíl að sjá. Reyndar heldur ekki bændur að klóra í pung. Þetta var þá þetta gravel dæmi sem allir voru að tala um.
Á þessum tímapunkti var líka hausinn kominn á fullt að spá í hvernig maður ætti að útfæra síðustu kílómetrana því það sáust ekki mikil þreytumerki á Guffa og Magga (þeir földu það vel). Ég hef lent í endaspretti við Guffa en hafði aldrei keppt við Magga, sem ber þess allavega merki að vera drullu hraustur. Ég ákvað bara að vera slakur og spila þetta eftir hendinni.
Endaspretturinn
 |
| Það venst aldrei að tapa svona. Mynd: Bjarni Þór |
Það hvarlaði að mér að láta vaða þegar um kílómetri var eftir en þar sem ég fékk að dóla í rólegheitunum á eftir strákunum og búinn að vera að krampa ákvað ég að bíða bara eins lengi og ég gat. Þegar 200-300 metrar voru eftir í markmið ákvað ég svo að láta slag standa, passa mig að vera í réttum gír og stend upp og ætla að traðka allt til helvítis og til baka. En um leið og ég stend upp fæ ég hroðalegan krampa í lappirnar og næ litlum sem engum krafti. Ég þurfti því að henda mér aftur á hnakkinn og klára þetta sitjandi. Ég náði því aldrei fram úr Magga og varð að sætta mig 4. sætið.
Tölur og effort
Ég náði ekki vattamælinum inn frekar en í Riftinu og það er gjörsamlega óþolandi. Það komu mjög erfiðir kaflar, t.d. hjá Höll og Grjóthálsinn þar sem maður var að setja út helvíti gott power og það hefði verið gott að geta skoðað það. Meðalpúlsinn hjá mér þessar rúmu 4 klst sem ég var að hjóla var 149 og hefur oft verið lægri í mun styttri keppnum. Ég fann alveg fyrir þreytu eftir þessa keppni og ég gaf alveg þokkalega í þetta.
Niðurstaða og tilfinning eftir mót
Ég var hálf niðurbrotinn maður eftir Riftið og hafði áhyggjur af því að ég myndi aldrei geta hjólað gravel eins og maður. En þetta mót sýndi mér að Riftið er allt annar leikur. Í rauninni ætti að vera skylda fyrir alla að fara fyrst í 200 km í Riftinu því allt annað gravel verður svo léttvægt á móti.
Ég var í fínu formi í þessu móti þó ég hafi ekki náð að hanga í þessum tveimur sem stungu af, ég geri það bara næst. Baráttan um 3. sætið var hörku spennandi og þetta hefði getað farið hvernig sem er.
Félagsskapurinn og andinn á þessu móti var alger snilld og þrátt fyrir að þetta væri erfitt þá skemmti maður sér vel allan tímann. Það var líka snilld að éta hamborgara í góðra vina hópi eftir mótið og fara í Kraumu.
Nokkrir punktar
- Ég virðist geta étið endalaust af gelum án þess að fá í magann
- Conti 45 dekkin eru alveg skuggalega góð
- Gott að vera fyrstur að vaða, fyrstur upp úr og bomba af stað
- USWE vestið er að skora hrikalega vel
- Ég fer stundum fram úr mér á leiðinni niður og mun detta
- Missti næstum stjórn á hjólinu á 70 km hraða
Orkuinntaka
Ég tók inn 9 BetaFuel, drakk 2 lítra af vatni og borðaði einn lítinn kleinuhring og hálfan banana. Það gera samtals rúmlega 100 gr kolvetni/klst.
Ummæli