Bikarmót í Svarfaðardal 27. júlí - Recap

Komnir í gegnum fyrstu beygjuna og fljúgandi start. Mynd: Ármann Hinrik

Þá er þriðja og síðasta bikarmóti sumarsins lokið. Upprunalegt keppnisdagatal HRÍ gerði ráð fyrir 4 mótum en 2 félög drógu sig út á síðustu stundu og það var í rauninni skítaredding hjá okkur í HFA að taka að okkur þetta mót til að bjarga sumrinu. Aðal heiðurinn af því á Jói hennar Silju en hann lagði mikla vinnu í skipuleggja þetta og það er óhætt að segja að það hafi tekist vel.

Brautin
Brautin var 23 km hringur um Svarfaðardal.

Vegna umferðarþunga í og við Akureyri var ákveðið að notast við Svarfaðardalshringinn ofan Dalvíkur. Hringurinn er 23 km langur, og þó hæðakortið lítið pínu busy út, þá er ekki nema 190 metra hækkun á hverjum hring. B-flokkur karla fór 4 hringi, rétt um 95 km og hækkunin var því ca. 760 metrar.

Rásmarkið var við gamla félagsheimilið Víkurröst og þaðan fóru fylgdarbílar á undan ráshópum að Skíðadalsvegi þar sem var fljúgandi start. Annars er ekki mikið af frétta af þessari braut. Sem fyrr segir, hækkanir í lágmarki og þrjár beygjur. Þó má nefna aflíðandi brekkur við brýrnar inn í botni þar sem beygt er inn í Skíðadal. Annars voru vegir í fínu standi, engar holur og umferð í algeru lágmarki.

Veður og klæðnaður
Það var búið að spá skítarigningu og viðbjóði en við gátum ekki hafa verið heppnari miðað við það. Norðvestan átt (giska á stinningsgolu eða kalda), þurrt og á bilinu 10-12°C á meðan keppni stóð. Inn dalinn vorum við með vindinn í fangið og svo meðvind til baka.

Þetta var ávísun á þunna keppnistreyju og stuttar buxur. Ég sleppti meira að segja vettlingum.

Það er mikilvægt að hjólin séu hrein og virki. Í vikunni fyrir mótið þreif ég það vel og heitvaxaði keðjuna.


Undirbúningur
Ég var merkilega fljótur að jafna mig eftir Riftið og það voru í rauninni bara strengir í mjóbaki sem pirruðu mig fyrstu 2-3 dagana. Hendurnar jöfnuðu sig mjög fljótt. Eftir 2 hvíldardaga settist ég aftur á hjólið og var bara nokkuð sprækur. En vikan var samt mjög róleg, blanda af recovery, endurance og svo bara eitt sett - 10x30/30 Anaerobic. Þetta voru samtals 6,5 klst hjól fyrir keppnina sem var á sunnudegi.

Annars allt hefðbundið; kjúlli og pasta kvöldið áður og hafragrautur með eggi og sírópi um morguninn. Ég á alltaf erfitt með að koma því niður í miklu magni. Kaffi og smá vatnssopi. Annars var næs tilbreyting að vakna í eigin rúmi og keyra bara í 30 mínútur til að komast í keppni. Vinalegt að hafa allt kunnulegt og vera á heimavelli.

Taktík og samkeppni
Eins og í síðustu mótum hefur mjög sterkur hópur verið að mæta í B-flokkinn og það var enginn undantekning á því núna. Við vorum reyndar ekki nema 13 sem skráðum okkur en rúmlega helmingurinn af þeim hefur reynslu úr A-flokki. Svo reyndar mættu ekki 3 af þeim á endanum þannig við vorum 10 á ráslínu (+ 3 Junior gaurar).

Við vorum 4 skráðir úr Hjólreiðafélagi Akureyrar en bara 2 okkar (ég og Röggi) höfum verið að æfa og keppa í sumar þannig að við vissum að þetta yrði þungt. Það var því sama plan og í hinum mótunum- bara reyna að vera sem mest fremst, vera vel vakandi og vona það besta. Ég var líka búinn að ákveða að ef ég ætti ennþá möguleika á sæti í lokin þá myndi ég gera langa árás. Annað hvort 1000 metra frá marki eða í pínulítilli brekku 500 metra frá markinu. Formið átti svo að ráða því hvorn kostinn ég tæki.

Fyrstu kílómetrarnir

Fyrsta alvöru árásin og ég að dragast aftur úr í fjarska. Mynd Ármann Hinrik

Þetta fór nú nokkuð þægilega af stað og það var helst Stebbi Garðars sem tók að sér að vera fremstur og púlla. Röggi tók líka eitthvað á sig og ég rak örstutt fram nefið þó ég sæi í raun ekki ásstæðu til að eyða púðri á móti vindinum á þessum tímapunkti. En gestirnir að sunnan voru að fíla þetta ágætlega og höfðu sig ekki í frammi enn sem komið var.

Þegar kom að hækkunum hjá brúnum inn í botni kom fyrsta árásin/hraðabreytingin og hún var það kröftug að ég lenti í smá brasi að koma mér í hópinn aftur. Þarna slitnuðu líka liðsfélagar okkar Rögga frá hópnum (Ómar og Stebbi) og sáust ekki meir og aðeins 10 km búnir af keppninni.

Fljótlega eftir að við beygðum í annað sinn inn Skíðadalsveginn (hringur 2) þá gerði Kristinn Kristjáns úr Tindi svo árás og fór einn upp. Fljótlega stóð Bjarki úr HFR upp og fór á eftir honum. Ég var fyrir aftan Bjarka en ákvað einhverra hluta vegna að sitja áfram í hópnum. Ég las þetta vitlaust og áttaði mig ekki á því að fyrir utan mig og Rögga, þá var hópurinn náttúrulega bara samsettur af Tindurum og HFR mönnum. Þeir virtust sáttir við þetta og enginn gerði neitt.

Á endanum gerði ég rúmlega 3 mínútna tilraun til að brúa yfir til þeirra en hún varð hálfkák og ég var að draga menn með mér svo ég hætti. Sennilega var það gáfulegast því jafnvel þó ég hefði komist einn til þeirra, þá hefði hópurinn sennilega ekki verið hrifinn af því og lokað því.

Í miðjum leik
Eftir þetta fór brake-ið jafnt og þétt að auka bilið og maður sá ekki neitt annað í kortunum en að þetta yrði barátta um 3. sætið úr þessu. Það var því frekar óvænt að Thomas barði okkur í gang þegar við vorum komnir 1,5 klst. inn í keppnina og við sem eftir vorum í hópnum, ég og Röggi úr HFA, Thomas, Jón Arnar Óskars, Jón Arnar Sigurjóns úr Tindi og tveir Junior strákar úr HFR fórum að vinna vel saman í að minnka bilið á Bjarka og Kristinn jafnt og þétt.

Þetta gekk svo vel að þegar við vorum að nálgast brýnnar á lokahringnum vorum við með Bjarka og Kristján innan seilingar og maður sá ekki annað en að þetta myndi allt renna saman aftur. Í brekkunum hjá brúnum gerðu svo Junior strákarnir árás og brúuðu einir yfir í brake-ið og um svipað leiti fór að detta botninn úr þessu og Thomas og Tindararnir fóru að slaka á. Á þessum tímapunkti mat ég það sem svo að af okkur 5 sem eftir voru værum við Thomas sennilega ferskastir þrátt fyrir að ég hafi verið byrjaður að krampa, sem gerist ekki oft. Jón Arnar eldri var búinn að vera að sleppa púllum og mér fannst Jón Arnar yngri og Röggi vera farnir að þreytast. 


Að nálgast endasprettinn- Jón Arnar Óskars fremstur, þá Thomas og Jón Arnar eldri til vinstri. Röggi á bavkið hópinn. Mynd Ármann Hinrik

Lokaspretturinn
Þegar við áttuðum okkur á því að við myndum aldrei hala inn brake-ið þá fór þetta heldur að róast eins og lög gera ráð fyrir. Þó ég vissi í hvað stefndi þá gleymdi mér samt um stundarsakir og var allt í einu orðinn fremstur, sem er ekki gott fyrir endasprett. En Jón Arnar eldri tók af mér ómakið og gerði frekar máttlausa árás sem ég varð að bregðast við og klukka. Ég náði honum fljótlega, hvíldi mig smá og gerði svo sjálfur árás 500 metra frá markinu- rétt fyrir litla brekku. 

Ekki lukkaðist þetta samt vel hjá mér því í einhverri heimsku gíraði ég í allt of þungan gír og náði aldrei almennilegu viðbragði. Ég skilaði tæpum 500 vöttum í rétt um mínútu en snúningurinn (cadence) var ekki nema rétt um 70 rpm sem sýnir hvað ég var að streða. Ég náði þó að hanga fremstur í dálítinn tíma en Thomas og Jón Arnar eldri skutust fram úr mér á lokametrunum. Niðurstaðan var því fimmta sætið.

Helstu tölur af Training Peaks.

Tölur og effort
Ef ég ber þetta saman við t.d. bikarmótið á Þingvöllum, þá var þetta ekki jafn agressív keppni. Kannski munar um að þar eru brattari brekkur og keppnin 10 km styttri. Ef ég skoða besta 5, 10 og 20 mínútna power á milli keppna þá var það mun hærra á Þingvöllum. Sama á eðlilega við um Normalized Power. Ákefðarstuðullinn (Intesiti Factor) á Þingvöllum var 1.00 en í þessum móti var hann 0,95 sem er samt ekkert droll.  

En þetta voru frekar ólíkar keppnir og það er áhugavert að ég var miklu lúnari eftir þessa. Ég fæ yfirleitt aldrei strengi eftir keppni en nú varð raunin önnur. Ég reikna með að það hafi verið vegna þess að helminginn af tímanum vorum við að púlla frekar hart í keðju og meðalvöttin hjá mér voru mun hærri seinni partinn.

Á þessum tímapunkti hélt ég að ég væri búinn að missa hópinn. Mynd Ármann Hinrik.

Niðurstaða og tilfinning eftir mót
Það er alltaf svekkjandi að vera nálægt því að komast á pall en ég allavega reyndi eitthvað nýtt þó það hafi ekki virkað. Þetta er annað skiptið í sumar sem tveir komast í brake frekar snemma og klára dæmið. Maður er alltaf með einhverjar pælingar eftir á hvort eða hvernig maður hefði getað komið í veg fyrir það og í þetta skipti var lykilmóment þegar ég sleppti Bjarka af stað yfir til Kristins án þess að fara á dekkið hjá honum. En hvað hefði gerst ef ég hefði fylgt honum? Það veit maður aldrei.

Eftir mótið spjallaði ég aðeins við Thomas (sem varð í þriðja sæti og bikarmeistari í B) og hann gaf mér gott pepp og nokkur góð ráð sem ég mun geyma hjá mér. Mér fannst vænt um það.

Samantekið; fínir fætur en gæti spilað betur úr spilunum mínum. Eyddi óþarflega mikilli orku í keðjunni. 

Orkuinntaka
Banani við bílinn og 250 ml vatn, 1 venjulegt BetaFuel á ráslínu og 3 venjuleg og 2 með koffíni í keppninni. Samtals 267 gr kolvetni = 100 gr/klst.

Ég er búinn að vera að vinna með BetaFuel á götuhjólamótum sumarsins og það fer þokkalega í mallakútinn á mér. Bara passa að fara ekki over board í koffíni.

Ummæli

Egill sagði…
Gaman að lesa þessi skrif og sjá allar þessar pælingar með næringu, klæðnað, árásir o.fl.

Er nýr í þessum keppnispælingum en hef gaman að sjá hvernig aðrir hugsa og læra af svona reynslubolta.

Takk fyrir 😊

Vinsælar færslur af þessu bloggi

The Rift 2025 - Frá himnaríki til........

Mývatnshringurinn 2025 - Post Race Pistill

Negri í Þistilfirði