Bikarmót #1 á Þingvöllum - Post Race Pistill

Það var lítið um myndatökur á mótinu og ég notast við story frá Rögga.

Jæja þá er fyrsta bikarmót ársins afstaðið og maður komst þokkalega heill út úr því. Mótið fór fram á Þingvöllum og óhætt að segja að við höfum fengið fínt veður þó það hafi blásið nokkuð hressilega á köflum.

Undirbúningurinn

Þó mótið hafi verið seinnipart dags þá carblódaði maður að sjálfsögðu kvöldið áður. Pizzurnar á Grazie Trattoria á Hverfisgötu klikka ekki.

Það má segja að æfingavikan á undan hafi verið hálfgerð "taper" vika þó þetta sé nú kannski ekki beint eitthvað A-Race. Það voru bara 6,5 klst. á plani, þar af ein 30/15 (intensity). Ég reyndar svindlaði á mánudeginum og tók rúmlega klukkutíma gravel með Hörpu, en venjulega er ég í fríi á mánudögum. Mótið var því tólfti dagurinn í röð sem ég hjólaði.

Þar sem mótið var ekki fyrr en klukkan 17:30 þá bauð það upp á að keyra suður samdægurs en það er aldrei spennandi að sitja lengi í bíl fyrir keppni. Við keyrðum því suður á föstudeginum, fengum okkur gott að borða og gistum svo á gistiheimili. 

Við höfðum það þokkalegt á gistiheimilinu og hjólin sváfu ágætlega.

Á keppnisdaginn tékkuðum við okkur út rétt fyrir 11 og kíktum svo í Hreysti og Tri. Ég át svo stóran skammt af piri piri kjúlla með grjónum, sætri kartöflu og naan brauði á Saffran. Ostaslaufa kl. 15 og gel á ráslínu.

Það setti smá tvist í þetta að það sprakk hjá mér afturdekkið í upphitun og ég þurfti að leita uppi slöngu og koma í dekkið. Það kom einhver gaur og hjálpaði mér og ég rétt náði í startið. Ég verð þessum gaur æfinlega þakklátur en gleymdi að taka nafn og er á bömmer yfir að geta ekki þakkað honum nægilega vel fyrir. Einar Júl lánaði mér slöngu og héðan í frá mun ég ekki gleyma að hafa eina með. Kannski að bæta því við að þó ég hafi náð að setja í slöngu þá settist dekkið ekki alveg upp á felguna og það var sláttur á því þegar ég snéri því. Ég hafði áhyggjur af þessu en það var bara að láta á þetta reyna.

Brautin

Hringurinn á Þingvöllum er 17 km og B-flokkur karla fór 5 hringi, samtals 84,5 km.

Brautin sem farin var á mótinu er 17 km langur hringur sem farinn var 5x í B-flokki karla, samtals 84,5 km. Brautin hefur að mér best vitandi verið notuð oft/nokkrum sinnum áður í götuhjólamót. Þegar ég keppti á Íslandsmótinu árið 2023 fór ég stóra hringinn í kringum vatnið og Grafning en endaði svo á einum svona litlum.

Ræst var við tjaldsvæðin sem eru rétt við þjónustumiðstöðina á Þingvöllum. Eftir 4-5 km byrja smá hækkanir og nokkrar litlar brekkur sem eru alveg gerðar til þess að skapa smá læti. Eftir það (8 km) kemur brött brekka til suðurs sem endar í vinkilbeygju inn á Vallarveg. Leiðin liggur svo til vesturs meðfram vatninu til að byrja með en við Silfrugjá beygir hann aftur til norðurs og leiðir mann að tjaldsvæðinu aftur.

Taktík og samkeppni

Fyrir mótið ræddi ég taktíkina við Ingvar og við fórum yfir helstu keppinautana. Það lá ljóst fyrir að þarna voru nokkrir mjög sterkir karlar sem sumir höfðu verið að keppa í Elite í fyrra. Og það ánægjulega var að það voru alls skráðir 22 keppendur sem verður að teljast gott á þessum síðustu og verstu.

Uppleggið okkar var í rauninni ekki flókið, ég myndi hafa mig hægan fyrstu 3 hringina en svo jafnvel sjá til hvort ég gæti dregið með mér einhverja létta og spræka í break og ná einhverju bili þegar færi að styttast í þessu. Annars var það bara að vera vel staðsettur fyrir beygjur og hafa í huga að það yrði sennilega nokkuð ágeng vestanátt sem myndi þýða að eftir að maður beygði inn á Vallarveg væri maður líklega að reyna að koma sér fyrir hægra megin í vegkanntinum. Annars bara þetta venjulega að halda sig framarlega til að geta brugðist við þegar menn fara að herða þumaskrúfuna.

Fyrstu kílómetrarnir

Veit s.s. ekki hvað á að segja en þetta var bara dæmigerð byrjun á hjólamóti. Hópurinn rennur af stað, adrenalínið flæðir og maður er alltaf jafn hissa þegar maður lítur á hjólatölvuna og sér að maður er kannski á 300 vöttum og púlsinn í botni. Manni líður ekki þannig. Fyrstu 10 mínúturnar var ég með NP upp á 300 og púlsinn yfir þröskuldi. Mér leið samt alveg ágætlega.

Á þessum tímapunkti var ég bara að finna mér stöðu í hópnum og reyna að vera framarlega. Það gekk s.s. ágætlega en stundum skolaði manni aftur niður og þá fór að verða erfiðara að bregðast við rykkingum.

Í miðjum leik

Það má segja að fljótlega hafi árásirnar byrjað að fljúga og það tók mig smá tíma að átta mig á hvað var í gangi. Tindarar sem voru mjög vel mannaðir á þessu móti  (helmingur þátttakanda) og voru að senda menn í árásir, þ.m.t. einn sem var ekki í sama búningi (það ruglaði mig aðeins). En maður áttaði sig á því að lokum að enginn frá Tindi brást almennilega við þessum árásum og ég og Röggi vorum eiginlega bara 2 að mænuslíta okkur við að hafa control á þessu.

Á endanum sá ég að það var ekkert vit í þessu og ákvað að hætta að elta þetta og sat bara í hópnum þegar Jón Arnar Óskarsson og Þórarinn frá Tindi gerðu árás. Lengi vel hélt ég að hópurinn hefði unnið þá til baka og það var ekki fyrr en við vorum hálfnaðir með 4. hring að ég fattaði að þetta var orðin keppni um 3. sætið. 

Önnur stolin story mynd.

Lokaspretturinn

Eftir að strákarnir 2 stungu okkur af datt botninn svolítið úr þessu og það kom smá lykt af því að menn væru að spara sig. Á þessum tímapunkti reyndi ég að halda sem næst sterkustu hjólurunum og koma mér skjól. Þegar við komum að brekkunum í síðasta skiptið setti ég smá trukk í þetta og kannaði aðeins stöðuna á hópnum í von um að slíta hann eitthvað upp. En þegar ég leit til baka sá ég að flestir höfðu náð að hanga saman. 

Eftir það reyndi maður að koma sér aftur í skjól en fór svo að potast upp hópinn þegar kílómetrarnir voru að renna út. Eftir að við tókum beygjuna hjá Silfru lenti ég reyndar aðeins út úr hópnum og ákvað að taka frekar á mig smá vind en að vera of aftarlega. Þegar einn kílómeter var eftir var ég að spá í að koma mönnum á óvar en gugnaði svo á því. 

Þegar ca. 500 metrar voru eftir kom Pétur Árna fremst og ég henti mér á dekkið hjá honum. Síðan kom eitthvað viðbragði í hópinn og ég náði að koma mér fram úr Pétri en lenti fyrir aftan tvo U23 stráka og var fastur þar. Einar Júl og Thomas Jensen runnu svo fram úr mér og ég endaði í 5. sæti. Ég veit s.s. ekkert hvernig þetta hefði endað ef ég hefði komist fram úr þessum strákum en það hjálpaði klárlega ekki.  

Tölurnar og effort

Ég nenni eiginlega ekki að fara að henda upp einhverjum tölum en miðað við lengd keppni þá var TSS örlítið hærra en það hefur verið hjá mér í mótum af svipraði lengd. Þetta var ekkert sögulega massíft effort en ég brenndi klárlega einhverjum eldspýtum, sérstaklega á meðan ég nennti að elta.

Niðurstaða og tilfinningar eftir mót

Ég get eiginlega ekki verið svekktur yfir því að Þórarinn og Jón Arnar hafi stungið af. Á tímabili hefði ég ábyggilega getað unnið þá til baka en væntanlega á kostnað þess að draga hópinn með mér. Og ef ég hefði komist einn til þeirra finnst mér líklegt að hópurinn hefði unnið okkur til baka eða þeir hægt á sér. Hvað veit maður? Tindur vann sem lið og verðskulduðu að sitja í efstu sætunum þó það sé svekkjandi að berjast á móti því.

Ég var búinn að ætla að hafa mig hægan fyrstu 3 hringina en ég brenndi sennilega óþarflega mörgum eldspýtum í byrjun. Miðað við hvernig spilaðist úr þessu held ég samt að það hafi ekki skipt neinu máli.

Annars var bara formið fínt og mér fannst þetta gaman. Ég sé eftir að hafa ekki reynt lengri árás en kemst að sjálfsögðu aldrei að því hvað hefði komið út úr því. Fimmta sætið er ekki slæmt í þessum sterka hópi og maður heldur áfram að gera sitt besta. Að lokum get ég líka nefnt að ég hefði alveg viljað hafa þetta aðeins lengra því ég átti alveg eitthvað á tanknum.

Næring

Ég blandaði mér 200 gr./carb Vanilludjöful áður en við lögðum af stað suður en svo beilaði ég á að taka hann í keppninni, aðalega vegna þess að ég nennti ekki að hafa 2 brúsa á hjólinu. Ég tók því 4 venjuleg BetaFuel og 1 með koffíni. Ég hafði svo með mér ca. 500 ml vatn og það var of lítið því ég var að skrælna frá fyrstu mínútu. En orkustigið var ágætt. Var reyndar að míga á mig en það slapp.


Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

The Rift 2025 - Frá himnaríki til........

Mývatnshringurinn 2025 - Post Race Pistill

Negri í Þistilfirði