Olnbogabörn

Á leiðinni upp á Vaðlaheiði.

Þau eru mörg olnbogabörnin í lífi mínu þessa dagana. Ber þar hæst heimilið, sem er orðið ansi skrautlegt miðað við venjulega, plönturnar mínar sem hafa ekki fengið umpottun þó komið sé vel fram í maí og svo er það þetta blog sem ég er farinn að gleyma heilu og hálfu vikurnar. 

Lífið snýst um vinnu og hjól þessa dagana. Ég passa náttúrulega að börnin hafi í sig og á en ég hef ekki sinnt þeim mikið. Það er lán í óláni að þau eru úti allan daginn og eru rosalega aktív. Er það ekki þannig sem þetta var í gamla daga? Fulldempaða fjallahjólið sem Brynleifur fékk í fermingagjöf sló rækilega í gegn og hann hjólar öllum stundum.

Æfingar hjá mér þessa dagana snúast um að búa mig undir 170 km í Súlum Vertical. Við erum að fjölga klukkutímum og ég reyni að taka sem flestar æfingar á gravel hjólinu. Um síðustu helgi fór ég yfir Vaðlaheiðina, Dalsmynnið og Skuggabjargarskó. Þetta voru bara 108 km en ég var gjörsamlega orðinn steiktur í efri hluta líkamans og var að spá í að hætta við þetta allt saman. En núna í vikunni er ég búinn að vera aðeins að djöflast á hjólinu í Vaðlaheiðinni og líst miklu betur á þetta þó þetta verði sjúklega erfitt. Maður er fljótur að koma til og venjast þegar maður kemur inn klukkutímum.

USWE - veistið er eins og sniðið á mann og miklu þægilegra en önnur veist sem maður hefur prófað.

Annað sem skiptir máli í þessum æfingum er að prufa búnaðinn sem maður verður í og testa næringuna. Hjá mér er það helst heimgerði sykurdrykkurinn og vatn sem ég ber í 2 lítra USWE poka sem ég var að kaupa mér. Ég lofa að skrifa meira um þetta fljótlega og ég skulda náttúrulega góðan pistil um hjólið, en nú er að koma betri reynsla á það. Það sem ég vil segja um það núna er að eini gallinn við þetta Cube gravel hjól er að ég hata að setjast á racerinn minn þegar ég er búinn að vera á hinu.

Jæja núna þarf ég að klára að kaffið mitt og henda mér í föt. Sex klukkustunda æfing framundan og stefnan tekin á Vaglaskóg til að skoða restina af leiðinni sem verður í Súlum.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

The Rift 2025 - Frá himnaríki til........

Mývatnshringurinn 2025 - Post Race Pistill

Negri í Þistilfirði