Mývatnshringurinn

Mynd tekin í maí 2021.

Nú eru liðin rétt 4 ár síðan ég þorði fyrst að skrá mig í hjólakeppni. Þetta hafði blundað í mér í svolítinn tíma en tilhugsunin var yfirþyrmandi. Allir hjólandi í bing á miklum hraða og hangandi í kjölsoginu hver á eftir öðrum. Svo var einhver rosaleg taktík sem maður þurfti að kunna ef maður ætlaði að eiga einhvern séns á því að vera framarlega.

Eftir að hafa gengið með þetta í maganum í einhvern tíma varð þó úr að ég skráði mig í Mývatnshringinn 2021 sem fram fór í hávaða sunnan roki eins og það gerist best. Ég fór inn í keppnina með hugarfar hlauparans að byrja ekki of skarpt, en það kom duglega í hausinn á mér. Fljótlega lenti ég einn á auðum sjó og missti stóran hóp framúr mér og átti aldrei séns eftir það einn á móti vindinum. Ég hafnaði í 18. sæti en ef ég hefði verið grimmari í upphafi hefði ég ábyggilega endað eitthvað ofar.

Ég hef ekki keppt í Mývatnshringnum síðan þetta var en á því verður breyting á morgun. Þetta var ekki á keppnisdagatalinu hjá mér en spáin er fín og þetta verður ágætis æfing. Ég er að reyna að fara inn í þetta með kæruleysislegu hugarfari og til þess að hafa gaman, en ég verð að viðurkenna að ég finn fyrir pressu frá sjálfum mér. Ég er búinn að hjóla mikið í vetur og ætti skv. öllu að enda ofarlega ef ég lendi ekki í einhverjum skakkaföllum. En, númer eitt, tvö og þrjú að hafa gaman!

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

The Rift 2025 - Frá himnaríki til........

Mývatnshringurinn 2025 - Post Race Pistill

Negri í Þistilfirði