New Bike Day - gravelið mætt!

Cube Nuroad C:62 EX - 2025.

Síðan ég skrifaði síðast hefur í rauninni fjandi margt gerst. Sól á Kanarí, slatta hjól, góður matur og hið ljúfa líf. Síðan tók blákaldur raunveruleikinn við eftir að við lentum og ég skildi Hörpu eftir í Reykjavík endar var hún að fara í aðgerð á öxl. Síðan þá hef ég verið að berjast við a halda heimilinu á floti, aðstoða einhentu konuna (sem lenti upp á spítala eftir að hún kom til Akureyrar), setja saman nýju hjólin sem duttu inn um dyrnar, byggja upp nýja vinnuaðstöðu í stofunni og svo ákvað ég að bæta æfingaaðstöðuna í pyntingarhellinum.

Stærri skjár, led-lýsing, Apple tv og hátalari. Betri upplifun við að þjást.

Í gær þurfti ég að skjótast á pósthús með einhverja reikninga fyrir vinnuna og ég notaði tækifærið og prufaði nýja hjólið. Mig langar til að setja inn betri myndir af því fljótlega og skrifa um það gott review en þá er sennilega betra að vera búinn að rúlla meira á því. 

Það er ennþá mygluvandamál í vinnunni og því nauðsynlegt að vera með góða aðstöðu heima.

En við fyrstu kynni líst mér mjög vel á hjólið þó ég eigi eftir að venjast því hvað það er ca. 3 cm styttra en götuhjólið mitt (frá miðju stýri og að miðjum sætispósti). Þeir í Tri sögðu óhikað að ég ætti að taka hjól í S og skv. stærðarreiknivélinni á Cube síðunni er það rétt. Sennilega er ástæðan að flestum finnst betra að hafa gravel hjól aðeins styttri og vera með uppréttari stöðu á hjólinu. Þetta getur gefið meiri stöðuleika og stjórnun á hjólinu í erfiðari aðstæðum.

Annað sem stendur upp úr við fyrstu kynni er hvað er mjúkt á hjóla á því (stór dekk), hvað Sram skiptingarnar eru hljóðlátar og smooth og hvað mér fannst stýrið þægilegt. Það er stutt niður í droppin og mér leið strax eins og ég gæti verið í droppunum allan daginn. Þó ég geti ekki dæmt það eftir klukkutíma túr, þá held ég líka að ég sé hugsanlega búinn að finna hnakkinn sem ég hef verið að leita að.

Í stuttu máli, þá held ég að þetta geti verið upphafif að fallegum vinskap en þarf að sjálfsögðu lengri tíma til að meta það. Það kæmi mér ekki á óvart þó ég myndi enda með lengri stamma með öðrum gráðuhalla en það að koma í ljós.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Útivera

Bikarmót #1 - 2023 - Recap

Negri í Þistilfirði