Bjarni ekki á móti sól
![]() |
Á Tenerife fyrir 2 árum. |
Jæja þá er komið að því! Við Harpa höldum suður yfir heiðar fyrir hádegi á morgun og svo út til Kanarí í bítíð á þriðjudag. Ef við lendum ekki í skakkaföllum náum við smá hring þegar við komum og svo er bara fjör alla vikuna. Harpa verður náttúrulega fimmtug föstudaginn 7. mars þannig að við munum gera óvenjulega vel við okkur.
Þó ég hlakki mikið til og viti að þetta verði geggjað þá hefði aðdragandinn af ferðinni mátt vera betri. Harpa er að drepast í annari öxlinni og á leið í aðgerð um leið og við komum til baka. Við vonum að það aftri henni ekki frá því að hjóla en það er ekki gaman að sofa alltaf illa og ganga á verkjatöflum. Ég sjálfur lenti í holu með æfingarnar (væntanlega væg ofþjálfun) og hef alveg mátt muna fífil minn fegri. Ofan á það hafa svo bæst einhver útbrot, kvef og ómöguleiki. En þetta er vonandi eitthvað sem lagast fljótt í betra loftslagi.
Klukkustundir í mismunandi æfingabilum (zones). |
Á grafinu hérna fyrir ofan má sjá hvernig við bættum og bættum í æfingamagnið hjá mér (lyftingar ekki inni í þessu) þar til við tókum tappann úr til að hvíla mig - sennilega aðeins of seint. Eftir hvíldarvikuna reyndum við að henda mér aftur í interval og læti en ég var ekki að halda neinu power. Ég ákvað því að taka þessa viku rólega ef frá eru talin 5x1 mín á 120% FTP sem ég henti inn í lok æfingar í gær til að ná hjartslættinum aðeins upp.
Eins og síðustu mánuði þá er ég búinn að vera með þyngdina á mér á heilanum en í stað þess að léttast þá bara stend ég í stað. Það er s.s. ekki alslæmt. Ég reyndar fór niður um 1,5 kg fyrir tveimur vikum en fokkaði því svo upp með alveg ægilegu 3 daga sukki um síðustu helgi. Það er lýjandi að vera með þyngdina á heilanum og ég verð eiginlega að losna út úr þessum pælingum.
Þegar ég var sem öflugastur í fyrrasumar þá var ég um 65 kg og með FTP upp á 270 (4,2 w/kg). Þetta hefur gefið mér ágætis forskot á marga þegar kemur að brekkum. Ef ég kem mér hinsvegar ekki neðar en 68 kg og reyni samt að halda mér í 4,2 w/kg, þá þarf ég að ná FTP-inu upp í 285w. Mér finnst ekki líklegt að ég nái því en ef það tekst þá verð ég öflugri en í fyrra þar sem það eru sjaldan svo afgerandi brekkur í keppnum að það borgi sig að vera undir 65 kg.
Ummæli