Consistency is key
Innihjól. |
Ég hef stundum skrifað hérna um mikilvægi þess að halda stöðuleika. Það er hægt að vera með allskonar tilfæringar, fínstillingar, tækniatriði og annaði í tengslum við hvernig þú setur upp æfingar, lyftingar eða mataræði, eltast við einhver fæðubótarefni og dýran búnað en ef maður er ekki með stöðuleika- þá nær maður ekki árangri. Flestir þeir sterkustu sem maður hefur verið að keppa við síðustu árin eiga það sameiginlegt að hjóla mikið- og yfirleitt jafnt og þétt yfir árið. Síðan er maður með aðra á Strava sem eru þokkalega sterkir en eru alltaf að taka einhverjar skorpur og detta svo út í lengri tíma. Þeir eru sjaldnast að ná miklum árangri og detta út úr keppninni þegar fer að líða á.
Núna þegar ég er í off season er ég að reyna að minna mig á hvað er mikilvægt að halda dampi. Það getur verið erfitt að halda sér við efnið þegar það er langt í næsta mót og maður er ekki að æfa eftir plani og það væri svo auðvelt að taka bara 4 vikna pásu og gera ekki nokkurn skapaðan hlut. Það kemur ekki til greina.
En maður má ekki heldur fara of langt í hina áttina, því í stóra samhenginu þá skiptir ein æfing til eða frá litlu sem engu máli. Ef maður er einstaklega illa upp lagður og líkamlega þreyttur, þá er í sjálfsögðu í lagi að sleppa æfingu við og við. En ekki gera það að vana og ekki missa yfirlit yfir heildarmyndina. Allt telur.
Síðasta vika var sjúklega erilsöm hjá mér og ég var að sjá um hundana og hænurnar fyrir mömmu og Egil. Þar að auki þurfti ég að fara til Egilsstaða og Reykjavíkur til að vera með tvo fundi. Þetta hefði því verið kjörið tækifæri til að vera með afsökun um að gera ekki neitt. En þess í stað tók ég hjólið og trainer-inn með og skipti út lyftingaæfingum fyrir líkamsþyngdaræfingar. Svona var æfingavikan hjá mér:
Mánudagur: 1 klst á hjólinu og 30 mínútur af hnébeygjum, framstigi, afturstigi, armbeygjum, magaæfingum, upphífingum og teygjum. Samtals: 1,5 klst og 60 TSS
Þriðjudagur: Hvíld
Miðvikudagur: 1 klst. á hjólinu og 48 TSS
Fimmtudagur: 1 klst. hjól og svipuð æfingarútina og á mánudag nema bara 20 mín. Samtals: 1 klst og 20 mín og 34 TSS
Föstudagur: 1 klst hjól og 46 TSS
Laugardagur: Lyftingar í 1 klst, þ.m.t. fótapressa og svo klukkutími rólegt hjól. Samtals: 2 klst og 50 TSS.
Sunnudagur: 1 klst. hjól og 1 klst. göngutúr. Samtals: 2 klst og 94 TSS.
Vikan í æfingum hjá mér var því 8:40 klst og 344 TSS. Annsi mikið betra en að gefast bara upp og gera ekki neitt.
Ummæli