Sumarfríi lokið

Dásamleg mynd tekin rétt norðan við Sörlastaði.

Jæja þá er maður búinn í sumarfríi og að reyna að ná vopnum sínum aftur í vinnunni. Það er ekki heiglum hent en góðu fréttirnar að það virðist ekki nokkur skapaður hlutur hafa gerst á meðan ég var í burtu. Slæmu fréttirnar: það hellist yfir mann "post vacation depression" eins og vanalega. 

Ég svaf illa í nótt, aðra nóttina í röð. Ég held að það hafi ekki tengst því að ég væri að fara í vinnu, frekar verkefni sem ég á að standa í skilum með fljótlega. Um er að ræða mynd sem ég ætlaði að mála en hef ekki komist af stað með. Ég hef verið með kvíða út af þessu og hann bara versnar og versnar og ég humma það fram af mér að láta vita að ég sé að renna á rassgatið með þetta. Ég fór að hugsa um þetta í nótt og það hjálpaði ekki.

Draumarnir í nótt voru litaðir af þessu. Ég var að halda vatnslitanámskeið og tvíbókaði mig. Á öðrum staðnum sátu 15 manns með ekkert í höndunum að bíða eftir námskeiði og svo var hitt held ég fyrirlestur sem ég átti að vera með. En ég einhvern veginn var á hvorugum staðnum og allt komið í rugl. Jæja...

Síðustu 4 vikur á Strava.

En þó það hafi verið ákveðinn óstöðugleiki í sálinni á mér síðustu daga þá er ekki hægt að segja það um æfingarnar hjá mér. En ein vikan komin í hús og þrátt fyrir hjólaferðalag með börnunum náði ég að negla 6 æfingar eins og lagt var upp með. Ingvar er með mig í viðhaldsfasa fyrir Orminn sem er eftir tæpar þrjár vikur og við erum að reyna að halda uppi góðu formi án þess að þreyta mig of mikið. Vikuna fyrir Orminn 12. - 19. ágúst þá "taper-um" (afsakið orðbragðið) með rólegri viku og vonum að ég toppi. Daginn eftir Orminn stefnum við Harpa svo að því að taka þátt í Íslandsmótinu í Crit sem fer fram í Reykjavík. Við þurfum því að keyra beint suður um leið og við komum í mark. Þvílíkt rugl.

En hjólaferðalagið með börnunum heppnaðist í rauninni mjög vel þrátt fyrir að það hafi orðið deginum styttra en til stóð. Segi frá því seinna og birti fleiri myndir.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Útivera

Negri í Þistilfirði

Bikarmót #1 - 2023 - Recap