Íslandsmeistaramót í götuhjólreiðum - Þverárfjall (30.06.2024)

Beðið eftir starti. 📸 Andri Már Helgason

Preface: Birti hér pistil sem átti að vera kominn í loftið fyrir löngu. Næst á dagskrá er svo að skrifa um bikarmótið í Kjósinni sem var um síðustu helgi, 06.07.2024

-----

Þá er íslandsmeistaramótið í ár búið og niðurstaðan var ekki alveg í samræmi við væntingar, enda setti ég markið hátt í þetta skiptið. Ef ég hefði verið spurður að því fyrir mót hvort ég myndi taka niðurstöðunni, þá hefði ég sagt nei.

Kort- og hæðarkort af brautinni sem B-flokkur fór á Íslandsmeistaramótinu í götuhjólreiðum.

Brautin

Ég er s.s. búinn að fara yfir það áður hér á blogginu hvernig brautin var sett upp á Íslandsmeistaramótinu. Mig klægjaði í lærin að fara þessu braut- enda ekki oft sem er svona mikið af brekkum sem henta okkur léttari mönnum. Ræst var á Strandveginum á Króknum norðan við Hús frítímans og þaðan haldið sem leið liggur yfir Þverárfjall að Skagastrandavegi. Þar snérum við við, héldum sömu leið til baka á Krókinn aftur. Þegar við komum að hringtorginu á Skarðseyri og Steinullarverksmiðjunni þá snérum við við aftur og héldum sem leið liggur upp á Skíðasvæði í Tindastóli þar sem markið var. Leiðin er 91 km og hækkun rúmlega 1400 metrar í heildina.

B-flokkur að taka fram úr Bríeti í A-kvk á toppnum á Þverárfjalli. 
📸 Andri Már Helgason


Það er óhætt að segja að brautin hafi ekki svikið og það var heldur ekkert sem kom á óvar, enda ég búinn að keyra þetta mörg hundruð sinnum og þar að auki hjóluðum við brautina helgina áður. Slitlagið er fínt á þessari leið, aðeins gróft á köflum en ekki neinar pottholur eða hættulegar skemmdir. Það eru eflaust ansi margir dagar á ári þar sem ekki er gáfulegt að vera á ferðinni á hjóli á Þverárfjallinu og maður vissi að veður gæti spilað stóra rullu. 

Undirbúningur

Það má kannski segja að undirbúningurinn fyrir þessa keppni hafi ekki verið alveg upp á tíu. Harpa fékk nýju íbúðina afhenda í vikunni og við búin að vera á hvolfi að flytja, mála og græja og gera. Á föstudeginum var ég orðinn örþreyttur og úti að skíta á æfingu. En við höfðum það frekar náðugt á laugardeginum og þegar við tókum klukkutíma recovery-hjól þann daginn þá leið mér prýðilega. Kvöldið fyrir mót átum við tagliatelle, kjúkling og pestó.

Búin að græja okkur tilbúinn í action.

Keppnisdagurinn

Vöknuðum 05:30 og það var bara venjulega rútínan, hafragrautur með eggi og sírópi, hæfilega mikið af kaffi og demba sér duglega á dolluna og reyna að losa vel. Síðan keyrðum við á Krókinn og vorum komin þangað klukkan 08:00 og höfðum því góðan tíma í að græja okkur og hita upp.

Tilbúinn á ráslínu- það var aðeins of mikið að vera í treyju innan undir. 
📸 Andri Már Helgason

Veður og fatnaður

Spáin var þokkaleg en maður veit s.s. aldrei hvernig veðrið er uppi á Þverárfjalli. Þegar við komum á Krókinn var okkur sagt að það væri 12°C hiti uppi á fjalli og niðurstaðan var síðerma innan undir keppnistreyjunni, stuttbuxur og þunnir vettlingar. Þetta var eiginlega síðerma undirlaginu ofaukið og manni varð of heitt á köflum og það hjálpaði ekki. Vettlingarnir fóru t.d. af mjög fljótlega.

Man ekki hvar þessi er tekin en maður er mjög einbeittur. 
📸 Andri Már Helgason

Keppnin

Fyrir mótið var ég að sjálfsögðu búinn að kíkja á helstu keppinauta og þar voru kannski 2-3 sem ég hafði mestar áhyggjur af auk þess sem maður veit alltaf að það koma einhver wild cards. Á ráslínu sá ég svo einn sem hlýtur að hafa komið inn mjög seint og ég vissi að var mjög sterkur. En þar sem ég er léttari en allir þessir gaurar þá taldi ég mig eiga sæmilega möguleika svo lengi sem ég væri ennþá í fremsta hópi þegar beygt væri upp á skíðasvæði. 

Að þessu sögðu þá var planið að vera skynsamur og reyna að spara eins mikla orku og mögulegt væri fram á síðustu stundu. Það gekk í rauninni vel og ég var yfirleitt í hópi fremstu manna án þess að vera að leggja of mikið á mig við að draga hópinn eða eyða óþarfa orku. Ég kíkti að sjálfsögðu eitthvað aðeins fremst en reyndi þá að spara mig. Annars var maður bara að bregðast við og passa sig að missa ekki einhvern hættulegan fram úr. Þetta gekk eiginlega það smooth að það er ekki frá miklu að segja en ég vil samt setja fram nokkra punkta sem mér finnst skipta máli:
  1. Á leiðinni upp á Þverárfjalli hélt Ármann Gylfa mjög góðum hraða og gerði eflaust mörgum lífið leitt og náði þreyta menn.
  2. Á leiðinni upp á Þverárfjallið aftur eftir snúningspunkt þá var ég mikið fremstur og fannst farið að draga af mönnum.
  3. Þegar við vorum að fara upp úr Laxárdal fannst mér allir úti að skíta af þreytu en var mjög sprækur sjálfur.
  4. Í aflíðandi brekku upp frá Króknum áður en komið er að Tindastólsafleggjara setti Jón Heiðar í einhver rugl gír og ég brenndi mig upp við að reyna að fylgja honum.
  5. Tindastólsafleggjarinn skar svo úr um úrslitin og þar stóð ég ekki undir væntingum.
Kominn í mark- gjörsamlega á hælunum. 📸 Andri Már Helgason 


Eins og kemur fram var ég orðinn vongóður um að allir væru alveg að verða búnir á því á leiðinni til baka en fannst ég sjálfur vera í fínu standi. Þegar við vorum búnir að snúa við á Króknum og farnir að fara upp aftur þó fóru hinsvegar hlutirnir að breytast til hins verra. Ég var fremstur í smá stund en að lokum tekur Jón Heiðar fram úr mér og setur upp helvíti hart tempo og ég reyni að hengja mig aftan í dekkið hjá honum. Það gekk alveg til að byrja með en að lokum slakaði ég aðeins á og 2 B-flokks menn og 2 Junior strákar ná að fylgja honum eftir en ég og Magnús Kári dettum aðeins aftur úr.

Við Magnús hengum svo saman eftir þetta en náðum ekki alveg strákunum sem fóru á undan áður en beygt var upp á skíðasvæði. Við peppuðum hvorn annan upp en höfðum í rauninni ekki hugmynd um hvað væru margir fyrir framan okkur eða hvort við værum að keppa um sæti. Á þessum tímapunkti var ég orðinn gjörsamlega grillaður og þó Magnús sé miklu stærri maður en ég, þá bara náði ég hreinlega ekki að hrista hann af mér. Síðasti kílómeterinn var hreint helvíti og í lokin var ég aðeins fyrir aftan hann og ætlaði að koma honum á óvart með að skjótast fram úr. En lappirnar svöruðu ekki og ég var nokkrum sekúndubrotum á eftir honum. Þegar við komum yfir marklínuna kom í ljós að hann náði 3. sætinu. 

Helstu tölur

Helstu tölur úr Training Peaks.

Það er s.s. ekki mikið að frétta af tölum nema það sést alveg að ég var að reyna að spara orku og það tókst ágætlega. Þegar ég kíki yfir mesta power í 1, 2, 5, og 10 mínútur osfv. sé ég hinsvegar mun lakari tölur en ég hef verið að skila á æfingum og velti því fyrir mér hvort ég hafi hreinlega verið þreyttur.

Langerfiðasti kaflinn kom eins og lög gera ráð fyrir frá Króknum og upp á skíðasvæði í lokin og þessar 35 mínútur var ég að skila 3,8 w/kg sem er nokkuð undir FTP-inu mínu þessa dagana en er kannski ekki svo slæmt svona langt inni í keppni.

Orkuinntaka

Í keppninni át ég 40 gr. Beta-Fuel á hálftíma fresti og ég fékk í magann. Hef aldrei tekið svona mikið af kolvetnum inn og var heimskur að gera þetta í keppni í fyrsta skiptið. Þegar ég kom í mark þurfti ég að fara bakvið hús og var við það að skila öllu upp en það slapp til. 

Samantekt
  • Skrítið að vera hundfúll með þriðja sætið en þetta átti að vera mín keppni og ég ætlaði á pall.
  • Ég lét blöffa mig með þreytustigið á mönnum um miðja keppni en það hefði s.s. ekki breytt neinu.
  • Gerði engin stór mistök og var taktískt sniðugur (að ég held).
  • Vindur setti strik í reikninginn í þessu móti þó maður hafi gert sitt besta á að komast í skjól.
Eftir svona veltir maður fyrir sér hvað maður hefði getað gert öðruvísi og það eina sem mér dettur í hug er hvort það hefði verið sniðugt hjá mér að gera þetta erfitt í brekkunum og látið stóru mennina þjást. En það gat ég ekki vitað á þessum tíma og það hefði getað komið mér í koll.

Árangurinn hjá Hörpu
Harpa á palli með brons um hálsinn.

Harpa náttúrulega stóð sig eins og hetja og komst á pall á eftir tveimur ungum og öflugum stelpum. Þetta var hrikalega erfitt hjá henni og hún var gjörsamlega búin á því þegar hún barðist á móti vindinum síðustu metrana.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Útivera

Negri í Þistilfirði

Bikarmót #1 - 2023 - Recap