Bikarmót #1 - 2023 - Recap

Öll vinnan í vetur að skila árangri!

Jæja þá er fyrsta mót ársins búið og var það haldið í sveitinni minni laugardaginn 25.05.2024. Eins og sést á myndinni hér fyrir ofan þá gekk mér býsna vel og geng sáttur frá borði. Hefði ég tekið þessum úrslitum fyrirfram? Já! Hefði ég getað gert betur? Já.... en meira um það síðar.

Laxárhringurinn með krefjandi kafla upp Hólasand (hæðakort fyrir neðan).
 
Brautin

Brautin sem B-flokkur karla (og Elite konur) fóru byrjaði og endaði við Jarðböðin í Mývatnssveit. Við Reykjahlíð beygðum við suður fyrir vatn og héldum sem leið lá niður í Reykjadal. Rétt áður en við komum að Hafralæk í Aðaldal þá beygðum við inn á Hvammsveg og tókum stefnu á Presthvammana. Við fórum svo upp Presthvammana og upp Hólasand til baka í Jarðböðin. Brautin er 98 km og þó hækkunin sé ekki nema um 900 metrar skv. Strava, þá er hún tekin út seint, á frekar stuttum kafla og brekkurnar eru margar nokkuð brattar.

B-flokkur kk og Elite-kvk að koma í gegnum Óhappið sunnan við Höfða. Mynd: Hörður Ragnarsson

Stundum er sagt að það sé allstaðar fallegt á Íslandi í góðu veðri (nema í Hrútafirði) en ég held að ég geti nú alveg sagt að þessi leið er einstök, bæði út frá náttúrufegurð en einnig hjólalega séð. Ég veit að ég er hlutdrægur en ég held að flestir geti verið sammála mér. Umhverfi Mývatns- og Laxár, hraun, gervigígar, votlendi og stórkostlegur fjallahringur. Svo taka við mjúkar línur gróinna dala þar sem Reykjadalsá og Laxá liðast niður til sjávar. Eftir þetta tekur svo við barátta upp hæðóttar brekkur í þeirri eyðimörk sem Hólasandur er. Verðlaunin fyrir að komast í gegnum það er að lokum að fá stórkostlegt útsýni yfir sveitina ofan af Grímstaðarheiði. Þá er verulega farið að styttast í þessu og tekið að halla undan.

Keppnisvika- endurance- intensity- endurance-recovery og svo GO!

Undirbúningur

Ingvar er búinn að vera að láta mig "teipera" síðustu vikur og á mannamáli þýðir það að koma inn með æfingar með snörpum sprettum og mikilli ákefð í styttri tíma en fækka löngum threshold og VO2 keyrslum. Við vorum að skerpa sverðið. Ég er búinn að vera að hjóla ca. 11 klst síðustu 5-6 vikurnar að meðaltali. Keppnisvikan var með meira æfingamagni en ég hefði stillt henni upp þegar ég var að þjálfa mig sjálfur en ég held líka að ég sé að þola þetta vel.

Annars reyndi maður eins og venjulega að passa vel upp á sig í vikunni að öðru leiti, næra sig nóg og sofa vel. Kvöldið fyrir mótið átum við tagliatelle með pestó og kjúklingi sem er orðið hálfgert ritual hjá okkur fyrir mót og fer vel í okkur. Ég var búinn að velta því fyrir mér hvort ég ætti að spjalla aðeins við Ingvar fyrir mótið varðandi hvernig maður myndi leggja þetta upp, en svo ákvað ég að vera ekkert að ofhugsa þetta. Planið var einfalt: reyna að hanga í fremsta hópi fram að brekkunum og sjá svo til hvernig spilaðist úr þessu eftir það.

Keppnisdagurinn

Á leið á mót í HFA-peysunum góðu😀

Við vöknuðum klukkan 6 og ég gerði helling af hafragraut sem ég hrærði einu eggi við og át með fullt af hlynsírópi. Þar sem ég var hjá Hörpu var bara Nescafé sem er samt skárra en ekkert kaffi. Ég var ágætlega upp lagður þó ég hafi sofið mjög lítið um nóttina. Megnið af nóttunni var ég í einhverju "scenario" á hjólinu, ýmist að klifra upp einhverja brekku, hjóla út af eða reyna að brúa bil í hópinn niður brekkur. En eftir morgunmat og kaffi var ekkert annað eftir en að henda draslinu í bílinn og bruna af stað.

Það var ekki amalegt veðrið þegar við lögðum í hann.

Veður og fatnaður

Eilífðarvesenið- hvernig á ég að klæða mig? Verður mér of kalt eða of heitt og hvort er verra? Maður veit aldrei en þennan dag var þetta auðveldara en oft áður því veðrið var býsna gott á ráslínu. Nýja keppnistreyja HFA, stuttar hjólabuxur og engar skóhlífar. Ég henti meira að segja af mér vettlingum á ráslínu sem er ólíkt mér þar sem ég vil frekar vera on the safe side og er kuldaskræfa. 

Nýkominn í mark, alveg grillaður þó ég skítlúkki.

Keppnin

Ég var að sjálfsögðu búinn að kynna mér aðeins keppinautana án þess að leggjast í einhverja ægilega heimavinnu. Ég vissi um nokkra sem yrðu erfiðir á flatlendi og niður í móti en þekkti ekki mikið hvort þarna leyndust einhverjar hetjur í brekkum. Þegar ég horfði á hópinn vissi ég að ég ætti möguleika á að gera ágætis hluti ef ég gerði ekki einhver afdrifarík mistök. En svo er það nú alltaf líka þannig að það eru oft einhver "wild cards" sem maður hefur ekki hugmynd um.

Ég kom mér fyrir um miðjan hóp á ráslínu og hélt mig að mestu þar þangað til við vorum að koma að Garði, þá henti ég mér fremst og var eftir það yfirleitt meðal fremstu manna. Þetta er annað mótið í röð þar sem ég kýs að vera framarlega og ég kann miklu betur við það heldur en að vera í þvottavélinni fyrir aftan, endalaust að berjast um stöðu. Þarna er maður í aðstöðu til að bregðast við, hefur yfirsýn (ég er svo lítill að ég sé ekki ef ég er aftast), missir síður af hraðabreytingum og er ólíklegri til að lenda í krassi. Á móti kemur að maður þarf að taka sín púll- en þegar maður gerir það reyni ég bara að vera ofarlega í Z2 eða mesta lagi tempo. Ef mönnum finnst maður vera að gera of lítið þá geta þeir bara tekið við aftur. Þetta á að sjálfögðu bara við á meðan hópurinn er allur saman og ekki verið að reyna að passa eitthvað bil eða stinga af.

Á leið upp Presthvammana. Ég náðist ekki á mynd  í þetta skiptið (eða var svo ljótur að ég var klipptur út)- en þarna erum við Ómar Þorri, Silja og Ágústa Edda að stinga hópinn af upp Hvammsklifrið. Skugginn af mér lengst til vinstri. Mynd: Hörður Ragnarsson

Fyrsta alvöru mómentið í mótinu var eftir að við komum framhjá Helluvaði og fórum upp Mývatnsheiðina- sem var mjög fyrirsjáanlegt. Þarna ákvað ég að stjórna ekki hraðanum heldur bara reyna að fylgja fremstu mönnum (og elite konum) því ég vissi að margir mundu eiga mun erfiðara með þetta en ég. Þarna reikna ég með að hópurinn hafi slitnað eitthvað og einhverjir sem maður sá aldrei aftur.

Þegar við fórum að fara niður Brúnarbrekkuna þá fór hraðinn að keyrast upp eins og ég vissi og hafði haft smá áhyggjur af. Ég er ekki alveg með á hreinu nákvæmlega hvernig hlutirnir atvikuðust en á tímapunkti var ég hræddur um að ég væri að missa af fremsta hópnum. Þá náði ég fyrst að hengja mig aftan í Villa og síðan Gulla og þanni brúuðum við yfir í hóp sem var að ná á okkur smá bili.

Í gegnum dalina var ég yfirleitt í fremsta hópi með Ómari Þorra, Rögga, Silju, Ágústu Eddu, Jóni Arnari, Einari Júl og Gulla- það eru svona þeir sem ég man eftir. Síðan beygðum við inn á Hvammsveg þar sem fyrsta alvöru klifur dagsins byrjar og maður fann spennuna fara um mannskapinn.

Á leið upp Geitafellsbrekkuna. Neðst í brekkunni missti ég keðjuna og það kostaði að ég missti af Silju, Ágústu og Birni Kára sem þarna eru fremst. Mynd: Hörður Ragnarsson

Ég reyndar sló nánast öll met í heimsku og gleymdi mér og hjólaði næstum út af í síðustu beygjunni upp Hvammana en rétt náði að halda mér á hjólunum í mölinni í vegkantinum. Við þetta missti ég hópinn örlítið frá mér en náði honum strax aftur. Eftir það tók ég forystuna upp með Ómari Þorra, Silju og Ágústu. Við hin síðarnefndu slitum okkur síðan frá Ómari og enduðum þrjú saman. Við unnum svo saman eftir því sem við best gátum að stinga hópinn af en þegar við vorum að koma að hinni [monster]bröttu Geitafellsbrekku, þá var hópurinn alveg að ná okkur aftur. Þarna var ég búinn að vera að hugsa "Bjarni, þú ert fremstur og þarft bara að halda haus til að landa þessu".

Eins og það var búið að vera gaman að leiða hópinn í smá stund þá var helvíti svekkjandi að þeir skildu vera að ná okkur þarna í brekkurótunum. Ég man ekki alveg hvernig það atvikaðist en það kemur eitthvað fát á mig og ég skipti óvart að framan 2x á stuttum tíma undir álagi og missi keðjuna. Það var ekkert annað að gera en að stoppa og henda henni á aftur. Á meðan ég var að brasa við að setja keðjuna á hugsaði ég að þetta hlyti að vera búið. En síðan stökk ég upp á hjólið og hentist af stað aftur.

Ég og dráttarklárinn við Jarðböðin.

Þeir sem rúlluðu framhjá mér þegar ég var að setja keðjuna upp voru: Magnús Kári (sem ég hafði ekki séð alla keppnina), Einar Júl, Hjalti Jóns, Gulli og Lárus Guðmunds. Það kom mér á óvart hvað ég var fljótur að ná þeim aftur og eftir smá stund er ég kominn fram úr þeim öllum nema Birni Kára sem var alveg við það að ná Silju og Ágústu. Ég næ svo Birni og við náðum að tengja við stelpurnar. Einar Júl náði svo að brúa yfir til okkar aðeins seinna. En fljótlega gleymdum við Einar okkur í augnablik og misstum stelpurnar og Björn aðeins frá okkur. Við gerðum heiðarlega tilraun en náðum þeim aldrei aftur.

Þegar þarna var komið sögu leiðir Björn Kári B- flokkinn (og hjólar einn með elite stelpunum) og ég og Einar rennum saman við Gulla, Hjalta og Lárus. Á þessum tímapunkti var ég alveg orðinn grillaður og mér leist ekki nokkurn skapaðan hlut á að lenda í endaspretti við þessa fjóra karla. Ég fór að velta fyrir mér ýmsum útfærslum, m.a. að reyna að stinga af þegar 2 km væru eftir, en brekkurnar í lokin eru bara ekki það miklar að þær hefðu nýst mér í neitt. Maður dólaði því bara í hópnum og reyndi að spara eins mikla orku eins og hægt var.

Þegar við komum framhjá Reykjahlíð og það voru ca. 2 km. eftir þá stendur Gulli upp og fer að taka á því. Ég og Hjalti stóðum báðir upp til að bregðast við þessu og fengum þá báðir krampa í innanverð lærin. Við þetta fer svo Hjalti aðeins að dragast aftur úr en ég losna við krampann. Við Gulli og Einar erum því orðnir þrír fremstir (Björn Kári að koma í mark). Þreytustigið var orðið þannig að þetta er í smá þoku- en ég man að Gulli fer að gefa eitthvað í og ég hengdi mig í dekkið hjá honum til að missa hann ekki í burtu. Hann dalar hinsvegar fljótt og ég tek þá fram úr honum og næ mér fram fyrir Einar í smá stund og hélt að ég myndi jafnvel landa öðru sætinu. En Einar náði svo að kreista eitthvað út í lokin, tók fram úr mér og ég átti bara rétt nóg á tanknum til að passa að Gulli kæmist ekki fram úr.

Niðurstðan var þriðja sætið og fyrsta skipti á pall!

Helstu tölur

Helstu tölur af Training Peaks

Nú er ég búinn að yfirfara helstu tölur úr mótinu og ég verð að viðurkenna að þær eru lakari en ég bjóst við. Ef ég ber þær saman við Þingvelli í júní í fyrra, þá eru þær nokkurn veginn á pari en "peak power" tölurnar (mesta power í 1 mín, 2 mín osfv.) eru allar lélegri. Þetta er svipuð vegalengd og sama hækkun. Þar var mér hinsvegar droppað og ég vann einn helminginn af tímanum í skítakulda og rigningu.

Það helsta sem ég tek út úr þessu núna er að síðustu 7 mínúturnar í þessu móti næ ég þó að kreysta úr mér 246 w (277w í NP) og eftir síðustu beygjuna held ég 320 vöttum í markið (1:45 mín). Ég náttúrulega veit ekkert hvort ég hefði náð að gera þetta ef ég væri ekki búinn að æfa svona vel. Kannski hefði ég bara verið alveg búinn og þarna var munurinn á mér, Gulla, Hjalta og Lárusi. Ég kem ekki með neina 1000 vatta bombu en næ að þrauka.

Að lokum er fyndið frá því að segja að í hinum eiginlega "endaspretti" fer ég aldrei yfir 430 w sem sýnir hvað maður gjörsamlega á síðustu dropunum.

BetaFuel með 40 gr. kolvetnum og venjulegt SiS með 22 gr.

Orkuinntaka

Ég held að það hafi verið 7 tóm gelbréf sem hafi komið undan treyjunni minni í lok móts- 5 venjuleg SiS og svo tvö með koffíni. Þar að auki drakk ég 500 ml. af vatni og 500 ml. af Batterí kolvetnablöndu með söltum. Ef þetta er rétt reiknað hjá mér má gera ráð fyrir að ég hafi innbyrgt ca. 60 gr./klst af kolvetnum (það verður alltaf smá eftir í bréfunum).

Þetta er alveg svipað og ég hef verið að gera í mótum hingað til en ég má alveg fara að skoða að bæta við þetta. Sennilega væri sniðugt hjá mér að kaupa Beta-Fuel sem er með 40 gr. kolvetni í hverju bréfi í staðinn fyrir 22 gr. í venjulegu SiS. Þá er nóg að henda í sig geli á 30 mínútna fresti til að koma sér upp í 80 gr. kolvetni/klst. Það er reyndar áhætta að prufa það í móti í fyrsta skipti en hingað til hef ég þolað þetta ágætlega. 

Við Harpa alsæl með daginn.

Samantekt

Maður vinnur ekki hjólamót á tölum og ég tek það jákvæða út úr þessu. Að komast á pall er stórt skref fyrir mig og ég hef klárlega lært mikið á síðustu tveimur sumrum. Ég er farinn að finna mig betur fremst í hópnum og þar líður mér mikið betur heldur en að vera aftast. 

Í mótinu náði ég að vinna á móti veikleikunum með að koma mér í betri stöður og komast í draftið á stærri mönnum á réttum augnablikum.

Styrkleikar mínir komu líka í ljós á mótinu og þegar brekkurnar voru brattar gat ég stungið alla af sem voru á móti mér þrátt fyrir að vera 2-3 kg þyngri en ég ætlaði að vera.

Það er stundum sagt að það skiptir ekki máli hvað þú getur gert í fyrstu brekkunni heldur þeirri tíundu. Með því að halda áfram að æfa eins vel ég hef verið að gera mun ég auka líkurnar á því að ég verði ennþá í baráttunni þegar komið er inn í seinnihlutann á keppnum. Þarna kikka t.d. inn þriggja tíma æfingarnar á trainer í vetur.

Fyrir sumarið var það markmið hjá mér að koma mér upp fyrir topp 10 í mótum og ég gerði gott betur en það. Núna er bara að halda áfram að lyfta upp styrkleikunum og æfa veikleikana.

Árangurinn hjá Hörpu

Harpa, Ása og Dísa- B-flokkur kvk.

Harpa stóð sig vel eins og venjulega og hafnaði í 2 sæti í B-flokki kvk. Hún lenti í harðri baráttu við Ásu Guðný en Ása er með betri lokasprett og marði hana.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Útivera

Negri í Þistilfirði