Vikan dauðrotuð með Gran Fondo
![]() |
Fámennt samhjól en góðmennt, fv. Sóley Svans, Garðar Kári, Silja, Unnsteinn og Anna Lilja. |
Ég var búinn að ákveða að hjóla langt í dag ef veður leyfði og það gerði það svo sannarlega. Ég ákvað að tékka á samhjóli HFA en hafði s.s. grun um að mætingin yrði ekkert rosaleg. En það var góðmennt. Við tókum þetta frekar rólega, veðrið var frábært, við róteruðum fram og aftur og maður náði góðu spjalli við alla. Það var sérstaklega gaman að tala við Silju um ferðina hennar á heimsmeistaramótið um næstu helgi. Ég veit ekki alveg hvernig mér liði ef ég væri að fara að keppa við Remco Evenepole, Mathieu van der Poel og Tadje Pogacar. Það er erfitt að ná utan um þetta en þarna fær hún að keppa við allar stjörnunar sem hún lítur upp til. Geggjað.
Eftir samhjólið ákvað ég svo að halda áfram, fór fram fjörð austanmegin, yfir hjá Hrafnagili og svo heim. Þetta voru 101 km sem ég fór og mér leið s.s. ágætlega en var aðeins farinn að dala eftir 70 km. Þá henti ég í mig restinni af því sem ég var með að éta og hressist aftur. Ég átti svo alveg nóg inni í lokin til að henda inn tveimur stuttum VO2 max effortum til að klára þetta. Í ferðina tók ég með mér 2 Trek orkustykki með karamellu og slatta af Haribo spæleggjum. Spæleggin eru besta nammihlaupið sem ég hef fundið til að taka með á hjólið því það er frekar mjúkt og maður þarf ekki að tyggja það mikið. Svo var ég með einn brúsa af vatni og einn af kolvetnablöndu. Þetta rétt slapp til en ég hefði alveg mátt hafa meira með mér. Ég brenndi 2200 hitaeiningum en gæti giskað á að ég hafi innbyrgt 1300 - 1500. Annars hendi ég hér inn matseðli dagsins hjá mér.
Morgunmatur: Slatti af hafragraut með rúsínum, einu eggi og kanilsykri. Kaffi
Hjólið: 2 orkustykki, brúsi af SiS, brúsi af vatni og Haribo spælegg.
Hádegi: 3 kjúklingavængir, slatti af grjónum og smá grænmeti. Kaffi og smá súkkulaði í eftirmat
Kaffitími: Spínatdrykkur, brauð með Nutella og 2 litlir Pågen snúðar
Kvöldmatur: Súrmjólk með ferskum ávöxtum og múslí. 2,5 harðsoðin egg.
Kvöldsnarl eftir mat: Nescafé, mini Bounty og örlítið popp
![]() |
Ég er búinn að hjóla nokkuð grimmt síðustu vikur. |
Vikan hjá mér endaði með rúmlega 13 klukkutímum á hjólinu og hjólaði 347 km sem gera 50 km/dag að meðaltali. Nú er ég hinsvegar staðráðinn í að skrúfa tímana niður hressilega og bæta inn meira intensity til að skerpa á mér fyrir Orminn. Ég ætla að hvíla á morgun og jafnvel á þriðjudaginn ef ég næ að hafa stjórn á mér. (veðurspáin er drullufín) Svo hendi ég inn sprettum og VO2 max. Hvíli einn dag og tek svo eitthvað bland í poka.
Ummæli