Smá hlaup, smá sukk en að mestu réttu megin við línuna
![]() |
Síðustu vikur á Strava. |
Ég þurfti að verða eftir hérna fyrir sunnan þar sem ég er að fara á jarðaför Ingu systir hans pabba. Ég er í íbúðinni hennar Helgu systir og ég er lítið annað búinn að gera en að horfa á The Wire. Ég hafði ekki horft á þetta síðan 2010 þegar ég byrjaði á þessu um daginn og guð minn almáttugur hvað þetta eru miklir yfirburðarþættir. Fyrsta serían er góð en svo verður þetta bara ennþá betra.
Ég er búinn að vera á einhverjum bömmer yfir að vera ekki úti um allar koppagrundir að hitta fólk en ég bara nenni því ekki núna. Heimsótti ömmu, Jens og Skarphéðinn á sunnudaginn og það er eitthvað. Stundum er bara í lagi að hangsa aðeins og hvíla sig. Ég er í sumarfríi.
Í gærmorgun henti ég í mig tveimur banönum fljótlega eftir að ég vaknaði og keyrði svo út í Nauthólsvík til að hlaupa. Ég hljóp 5 km á alveg sæmilegum hraða og henti mér svo í sólbað, drakk Hleðslu og hafði það næs í blíðunni. Eftir að ég kom í íbúðina aftur fékk ég mér 2 ristaðar brauðsneiðar, epli og hafrakókómjólk.
Seinnipartinn kíkti ég í Bakarameistarann í Mjódd og Nettó. Fór heim, át einhverja loku og Eitt sett. Um kvöldmatarleitið keyrði ég svo niður á Gló í Skeifunni og náði mér í salat og át fyrir framan eldgosafréttir. Mig langaði á Búlluna en ákvað að reyna að næra mig þokkalega og missa þetta ekki í algert bull. Þá henti ég mér bara aftur í sófann, horfði á The Wire og náði að stúta tveimur Pop Secret. Gærdagurinn var því bara smá hlaup og svo alger hvíld.
Í morgun vaknaði ég klukkan 07:00 og verð að viðurkenna að ég er drulluþreyttur. Ég reimaði á mig hlaupaskóna og skokkaði 3 km hérna í Seljahverfinu. Líkaminn er enganveginn vanur þessum hlaupum núna og það var enginn afgangur af þessu. Mér leið eins og ég hafi lent undir rútu. Hljóp mun hægar en í gær, var illt í tánni sem ég sparkaði í stól í Bonn, þreyttur í mjóbaki og með strengi í lærum. En mér leið vel að hafa kíkt út.
Þar sem ég er búinn að vera að keppa hafa æfingartímarnir hjá mér ekkert verið rosalegir síðustu vikur en núna eru 6 vikur fram að Tour de Ormurinn og ég þarf eitthvað að fara að skipuleggja mig. Ég hugsa að ég reyni að taka 3 vikur með miklu volume og endurance en fari svo að bæta við meiri ákefð þegar nær dregur. Brautin í Orminum er svo hrikalega spennandi og gaman að æfa fyrir þetta og spá í hvernig sé best að setja upp planið. Endalausar brekkur upp og niður fyrsta helginginn (VO2 max, tabata), svo kemur ein nokkuð löng aflíðandi brekka um miðbikið, en svo bara time trial í mark. Meira um það síðar.
Ummæli