Auglýsingabanner, hvíldardagur og smá hálsbólga

Frá Þingvöllum í sumar. Nú styttist í að þessi elska fái að skoða heitu löndin.

Það kann kannski að hljóma óheilbrigt, en það er svolítið mikil list að halda sér heilbrigðum þegar maður er að æfa svona mikið. Sérstaklega þegar umgangspestir ríða röftum. Að ná árangri í æfingum snýst um að ýta sér reglulega út á brúnina en stoppa svo rétt áður en maður fellur fram af. Hvíla svo,  jafna sig og endurtaka. Þegar maður hefur jafnað sig er maður sterkari en maður var fyrir en á köflum verður samt ónæmiskerfið veikara og manni hættir til að fá einhvern skít.

 Í dag er ég með smá strengi eftir lyftingaæfingu í fyrradag og hálsinn er búinn að vera pínu sár síðustu 2 daga. Það er því ekkert annað að gera en að hvíla og finna sér eitthvað hollt og gott að borða. Og borða mikið.

Ég er alveg geldur með hvað ég eigi að éta í hvöldmatinn en stefni að því að hafa það frekar hollt þar sem ég át kjúklingaborgara í gærkvöldi. Ef ég væri á bíl hefði ég samt örugglega bara endað með því að keyra á Zerrano og ná mér í vefju en því er ekki að sælda. Sparnaðurinn við bílleysið teygir anga sína víða.

Það er ótrúlegt hvað maður festist oft í sama matnum og dettur aldrei neitt spennandi í hug þegar maður er að fara í búðina. Og ef maður fer að finna uppskriftir þá vantar mann yfirleitt svo mikið í þær að maður nennir ekki og tímir ekki að kaupa í þær. Ég ætla að skjótast í Nettó, vafra um og sjá hvort ég finn eitthvað sniðugt.

Annars var ég að reyna að klóra mig framúr að setja upp auglýsingabanner hérna á bloggið en það er miklu flóknara en ég hélt. Eða ég bara að verða of gamall til að skilja þetta. Ég fann einhver video en þegar farið var að tala um html kóða þá datt ég út. Minnir að Wordpress hafi verið með mun skemmtilegri lausnir í boði en með tæplega 2200 pósta vistaða á þessu bloggi, þá tími ég ekki að færa mig yfir.

Ef einhver þarna úti getur hjálpað mér þá væri það vel þegið!


Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Útivera

Bikarmót #1 - 2023 - Recap

Negri í Þistilfirði