Epískt fall í stofunni heima

Viðurkenning frá lokahófi HFA.

Lokahóf hjólreiðafélagsins á laugardaginn var prýðis góð skemmtun þó mætingin hafi verið fyrir neðan allar hellur. En það var góðmennt og við skemmtum okkur konunglega. Þetta er skemmtilegur hópur og alltaf gaman að hittast. Ég fór ekki tómhentur heim því ég fékk viðurkenningu fyrir "dettu ársins". Þar er að sjálfsögðu vísað í hið epíska viðbeinsbrot í Kjarnaskógi í byrjun júní. Ekki tók ég þetta nú nærri mér og hafði bara gaman að þessu. En eins og ég sagði við Hörpu, þá er ég staðráðinn í að vinna eitthvað annað næst.

En þegar ég kom heim eftir gleðina stillti ég þessu upp við spegilinn í ganginum og virti þetta fyrir mér. Hagræddi blaðinu og las hugsi yfir þetta. Velti því fyrir mér hvað ég ætti að gera við þennan snepil. Ekki ætla ég að ramma þetta inn allavega. Síðan gekk ég inn í stofu, rak löppina í gúmmímottuna sem er undir hjólinu mínu og flaug á hausinn. Ég sveif láréttur í loftinu og skall harkalega niður á hægri mjöðmina. Brynleifur hentist fram og kallaði "pabbi, ætlarðu að láta mann fá hjartaáfall, nú skil ég hvernig þú fékkst þessi verðlaun". Þetta slapp sem betur fer vel og ég fékk bara smá mar.

Ég þarf að skella mér suður á fimmtudaginn og það er aðeins að fokka upp í plönunum hjá mér. Slæmt að missa út fótaæfingu 2 vikur í röð en við því er ekkert að gera. Aðrar æfingar halda sér, þ.m.t. 2 æfingar á fimmtudaginn. Pabbi er líka á landinu og við ætlum út að borða á fimmtudagskvöldið.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Útivera

Negri í Þistilfirði

Bikarmót #1 - 2023 - Recap