Veturinn að koma?

Dagbjört Lóa uppstríluð sem Harry Potter. Hún gerði sjálf gleraugun, töfrasprotann og bindið.

Ég fékk mér göngutúr upp í Lundarskóla fyrir hádegið í dag til að kíkja á þemadaga í skólanum. Þemað þetta árið er Harry Potter og það var ótrúlega gaman að ganga um skólann og skoða allt það sem krakkarnir voru búnir að gera. Uglur, töfrasprotar, arinn með fljúgandi umslögum og allskyns skraut hvert sem litið var. Ég elska þessa þemadaga og hugsa að það sé meira gagn af þessu fyrir börnin í samanburði við margt hefðbundið skólastarf. Sköpun, samvinna og gleði.

Nú er farið að hríða hérna á Akureyri og ég er guðslifandi feginn að hafa tekið hlaupatúrinn í gær. Ég er búinn að vera að hjóla naglalaus síðustu daga á ferðahjólinu en það hefur alveg verið á mörkunum að það gangi upp. Sennilega hendi ég því líka á nagla í kvöld svo ég þurfi ekki alltaf að vera á Puggnum þegar það er ísing.

Ég fór til heimilislæknis á miðvikudaginn þar sem ég var með einhverja ónotatilfinningu yfir því að það væri eitthvað ólag á blöðruhálskirtlinum í mér. Sá læknir vildi senda mig til þvagfæraskurðlæknis og ég verð að viðurkenna að ég mér leist ekki alveg á blikuna. 

Ég fékk tíma strax í gær hjá Vali á Læknastofum Akureyrar og hann skoðaði mig í krók og kima. Niðurstaðan; einhver smávægileg disfúnksjón í vöðvastjórnun í kringum kirtilinn en enginn krabbi á ferð. Fyrsta skref að skrúfa hressilega niður í kaffidrykkjunni. Ohh.. jæja, eitthvað sem ég hef oft reynt en aldrei tekist. Nú verð ég bara að vera harður við mig og það verður forvitnilegt hvort ég finni einhver annan ávinning af því að vera ekki alltaf þambandi kaffi allan daginn. Ég hugsa að það sé bara jákvætt skref.

En þetta var svona smá wake up call og ágætis áminning um að lífið er hverfult. Það var svolítið skrítið móment að sitja þarna á móti honum og bíða eftir að stóri dómur væri kveðinn upp. Og mikið lifandi skelfing ósköp var maður glaður þegar maður gekk út og búinn að afskrifa eitthvað sem maður var búinn að óttast býsna lengi.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Útivera

Negri í Þistilfirði

Nýa íbúðin