Moldrok

Svokallað mold-tan.

Ég lét verða af því að fá mér frí í vinnunni frá klukkan 11:00 í morgun. Ég þarf reyndar að vinna eitthvað af mér í kvöld en það var alveg þess virði.

Það var reyndar orðið leiðinlega hvasst þegar ég lagði í hann að heiman um hádegið en hitinn var kominn upp í 23°C þannig það var ekki hægt að kvarta. Ég hjólaði fyrst út að Víkurskarði og þá var maður náttúrulega með allt í bakið og hélt fínni ferð. Ferðin upp skarðið gekk svo hratt og vel en þegar maður fór að fara niður austanmegin þá var orðið svo hvasst að maður varð að fara varlega.

Á leiðinni niður austanmegin mætti ég svo hjólaferðalangi með hjólið pakkað af drasli. Á leiðinni upp aftur náði ég henni og spjallaði við hana í smá stund. Ég vissi að ég var að ná helvíti góðum tíma þarna upp en það var líka bara næs að slaka aðeins á og spjalla.


Það var sama sagan þegar ég fór niður vestanmegin, maður mátti hafa sig allan við að halda sér á hjólinu. Á leiðinni frá Víkurskarði og í bæinn aftur var maður með allt í fangið en það var fín æfing og skárra en hliðarvindur.

Ég ætlaði að enda túrinn á því að fara upp í Hlíðarfjall en ég varð frá að hverfa við Hálöndin. Ég fauk næstum af hjólinu og rétt náði að losa mig úr klítanum áður en ég fór á hliðina. Ég ákvað að láta gott heita og koma mér bara heim. Fínn túr og núna er orðið svo bálhvasst að ég prísa mig sælan að vera kominn inn.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Útivera

Bikarmót #1 - 2023 - Recap

Negri í Þistilfirði