Útivera

Ég og Jens frændi slógum nokkra bolta saman í sumar. Vonandi náum við að spila hring næsta sumar.
 

Síðasti pistill fjallaði um umhverfismál og hvernig við getum öll breytt venjum okkar til að leggja eitthvað af mörkum. Ég ætla að halda áfram á svipuðum nótum en byrja samt á því að hoppa tæp tíu ár aftur í tímann. Þegar ég var í mastersnámi í íþróttafræði við HÍ gerði ég verkefni um stórmerkilega sænska rannsókn á lífslíkum fólks sem stundar golf. Ég ætla að byrja að vitna í frétt um þessa rannsókn og þið afsakið að ég nenni ekki að þýða þetta:

Golf can be a good investment for the health, according to a new study from the Swedish medical university Karolinska Institutet. The death rate for golfers is 40 per cent lower than for other people of the same sex, age and socioeconomic status, which correspond to a 5 year increase in life expectancy. Golfers with a low handicap are the safest.

Rösk ganga 5-7 km. í 4-5 klst. undir berum himni auk jákvæðra félagslegra- og sálrænna þátta skila sér í auknum líkum á langlífi. Og þið skilduð það rétt; 40% lægri dánartíðni sem getur þýtt allt að 5 árum lengra líf. Ég man að ég flutti fyrirlestur um þessa rannsókn og stuttu seinna vann ég verkefni um jákvæð lýðheilsuleg áhrif á uppbyggingu hjóla- og göngustíga. 

Mér finnst gaman að rifja þetta upp því það var bara í rauninni um daginn sem ég mundi allt einu eftir þessu blessaða námi sem ég var í, og reyndar kláraði aldrei. En eftir að ég flutti til Akureyrar og seldi bílinn, þá hef ég farið að pæla meira í þessum hlutum og þá sérstaklega hvernir þessir tveir þættir, lýðheilsa og umhverfisvænar samgöngur, tengjast órjúfanlegum böndum.

Í mínu tilfelli verður þetta til þess að ég hjóla flesta daga ársins. Ég hef ekki gefið mér tíma til að reikna saman hvað samgönguhjólreiðarnar eru í kílómetrum en mundi giska á 4 km. á dag að meðaltali, varlega áætlað. Það gera 1460 km. á ári. Eftir 10 ár mun vegalengdin samsvara því að fara frá Íslandi til Ástralíu.

En ég tók fljótlega þann pól í hæðina að líta á þetta brölt sem góða æfingu og það var mikilvæg hugarfarsbreyting. Nú þegar ég er byrjaður að æfa hjólreiðar með markvissari hætti, þá er þetta góð viðbót við æfingaplanið og gefa mér meiri sveigjanleika. Mér finnst heldur aldrei leiðinlegt að fara eitthvað hjólandi og það helsta sem breyttist hjá mér var að að ég klæði mig öðruvísi.

Föstudagurinn síðasti er gott dæmi um hversu vel þessir þættir spila saman. Á dagskránni var stutt hjólaæfing en eftir að hafa gengið með Dagbjörtu Lóu á öxlunum heim úr fimleikum og eftir að hafa hjólað í Húsasmiðjuna og heim aftur, þá gat ég bara strikað út æfingu dagsins. Svo er fullt af fólki sem keyrir í ræktina til að fara á hlapabretti eða stigvél?

En nú er ég eiginlega búinn að gleyma hvernig ég ætlaði að tvinna þessa golfrannsókn snilldarlega inn í þennan pistil. Sennilega vakti bara fyrir mér að benda á hversu mikilvægt er að anda að sér fersku lofti og hreyfa sig.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Negri í Þistilfirði

Bikarmót #1 - 2023 - Recap