Af hinu og þessu

Börnin að fara í strætó.

Nú eru börnin farin með strætó til Skagafjarðar og klára haustfríið frá skólanum með mömmu sinni þar. Það var pínu skrítin tilfinning að skilja við þau í strætónum og fara svo bara í vinnuna aftur. En þau sjálf voru pollróleg yfir þessu og fannst þetta bara spennandi. Ég pikka þau svo upp eldsnemma á föstudaginn í Aðalstrætinu og við förum með flugi til Reykjavíkur þar sem við ætlum að sjá Kardimommubæinn og gera okkur glaðan dag. 

Lýsandi mynd fyrir hvernig mér hefur gengið að mála.

Það var rosalega mikið um að vera hjá okkur um helgina og því varð ekki mikið úr málningavinnu. Ég er þó kominn með eitthvað á blað fyrir þessi 2 verkefni sem ég er með hangandi yfir mér. Í gærkvöldi ætlaði ég að halda áfram en fór í rúmið frá tómu blaði. Í kvöld ætla ég að setjast niður og sleppa fram af mér beislinu; nota grófan blýant, teikna hratt án fyrirmyndar og sletta málningu þar til ég verð doppóttur í framan.

Eftir góða rispu í grænmetisáti síðustu misseri fór að síga á ógæfuhliðina í síðustu viku. Það gerist gjarnan þegar börnin koma og maður þarf að finna eitthvað sem þau geta borðað. Við erum búin að gúffa í okkur kjúklingi og nautahakki, pylsum og einhverju fleira sóðalegu. Fengum okkur ekki fisk alla vikuna, sem er alveg ófyrirgefanlegt. Ég á afgang af fajitas heima sem ég ætla að éta í kvöld, en þegar ég er búinn með það þá ætla ég að taka mig taki aftur. Er að spá í að gera linsubaunakarrý annað kvöld sem ég prufaði um daginn. Helvíti gott með engifer, hvítlauk, kóríander og möndlusmjöri. Spurning um að splæsa í nanbrauð með þessu. 

Skínandi fínar og hvítar tennur á minn mælikvarða.

Ég skellti mér til Mörtu tannlæknis áðan og lét hana spæna burt tannstein og taka myndir. Núna er grillið skínandi hvítt og fínt og heldur vonandi út fram að næstu skoðun. Verst hún gat ekki rétt þær í leiðinni. Ég er ennþá með einhverjar silfurfyllingar sem eru að molna úr hægt og rólega en hún sá ekki ástæðu til að hreyfa við þeim í bili. Annars var Marta að koma frá Kósóvó þar sem hún var að spila með Þór/KA í handboltanum. Hún sagði mér skrautlegar sögur af keðjureykjandi þjóð þar sem hundshræ liggja í vegkönntum og þriggja rétta máltíð með víni kostar 1000 krónur. Ég held að maður verði að skella sér í hjólaferðalag þangað.

Setup-ið fyrir laugardagsleikinn.

Ég ákvað að nýta tímann vel á laugardaginn og kíkti á Liverpool leik á meðan ég hjólaði. Það var s.s. ágætt en ég átti samt pínu bágt með að halda einbeitingu á hjólinu. En leikurinn vannst allavega 5-0 og því engin ástæða til að væla. En ég sé samt ekki alveg í anda hvernig maður á að þrauka meira en 2 klst. á hjóli svona innandyra. Ég tók 1,5 klst og það var alveg meira en nóg. Í dag ætla ég að taka klukkara á flatlendi og hafa það frekar rólegt.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Útivera

Negri í Þistilfirði

Bikarmót #1 - 2023 - Recap